Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sannleikurinn er sagna bestur
Lesendarýni 3. mars 2023

Sannleikurinn er sagna bestur

Höfundur: Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.

Í samfélagsskýrslu Norðuráls fyrir árið 2021 segir: „Norðurál notar 100% endurnýjanlega raforku við alla framleiðslu.“ Fyrirtækið fullyrðir einnig í sömu skýrslu að það framleiði ál með einu lægsta kolefnisspori í heimi og sé stolt af sínum þætti í nýtingu einnar mikilvægustu auðlindar Íslands, sem er hrein og umhverfisvæn orka úr fallvötnum og jarðvarma. En er þetta sannleikanum samkvæmt?

Tryggvi Felixson

Á sama tíma er staðan sú að samkvæmt bókhaldi Orkustofnunar um uppruna raforku voru aðeins 13% þeirrar orku sem framleidd var á Íslandi 2021 talin endurnýjanleg. Stærstur hluti íslensku orkunnar byggir á jarðefnaeldsneyti (63%) og losar 8,4 milljónir tonna koltvísýrings. Og ekki má gleyma að 24% íslensku orkunnar byggja á kjarnorku skv. þessu sama bókhaldi.

Ástæðan er auðvitað sú að Landsvirkjun, og fleiri orkuframleiðendur, hefur selt fyrirtækjum úti í heimi, sem nota jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku við sína framleiðslu, upprunaábyrgðir íslensku orkunnar. Þannig geta þessi fyrirtæki úti í heimi hrósað sér af því að nota umhverfisvæna orku, þó þau geri það ekki í raun. Orðspor erlendu fyrirtækjanna batnar til muna – en geta fyrirtæki sem nota raforku hérlendis haldið sínu góða orðspori á sama tíma? Varla

Upprunaábyrgðir – fundið fé?

Tinna Traustadóttir og Valur Ægisson, starfsmenn Landsvirkjunar, skrifa í Bændablaðið 12. janúar sl. að óttinn við upprunaábyrgðir sé ástæðulaus. Svo er að skilja af skrifum þeirra að sala á upprunaábyrgð sé fundið fé fyrir Landsvirkjun, fyrirtæki allra landsmanna, sem þau starfa fyrir. Upprunavottun er bara saklaust bókhald. Í raun sé ekkert breytt nema það eitt að tekjur Landsvirkjunar vaxa og það sé skylda fyrirtækisins að nýta sér þennan möguleika til tekjuöflunar.

Það er alkunna að í bókhaldi er kúnstin að færa „debit“ og „kredit“ rétt – bókhaldið þarf að vera rétt fært og trúverðugt. Rétt fært bókhald á að tryggja að enginn skreyti sig með stolnum fjöðrum – og koma í veg fyrir svindl og ósannindi, og „grænþvott“.

Glatað mannorð íslensku raforkunnar

Þessi grein fjallar ekki um það hvort evrópskt upprunaábyrgðakerfi sé gott eða slæmt. Ísland valdi fyrir löngu að vera hluti af þessu kerfi og nýtur af því fjárhagslegs ávinnings. En hvað hafa Íslendingar látið af hendi fyrir þennan fjárhagslega ávinning? Íslendingar hafa selt það orðspor að íslenska orkan sé 100% endurnýjanleg orka.
Norðurál skreytir sig með stolnum fjöðrum

Norðurál notar um 25% allrar raforku sem framleidd er á Íslandi. Ef að líkum lætur er því um 2/3 af þeirri raforku sem Norðurál notaði árið 2021 jarðefnaeldsneyti að uppruna og fjórðungur raforkunotkunar fyrirtækisins kjarnorka, samkvæmt þar að lútandi reglum og bókhaldi. Losun fyrirtækisins vegna raforkunotkunar er því óbeint um 2,1 milljón tonna koltvísýrings.

Höfundur hefur tryggt sér upprunavottaða raforku fyrir heimili sitt eins og sjá má á meðfylgjandi staðfestingarskjali frá Orku náttúrunnar.

Reglurnar banna blekkingar

Í reglugerð nr. 767/2012, sem upprunaábyrgðakerfið byggir á, eru ákvæði til að koma í veg fyrir tvítalningu endurnýjanlegs uppruna orku. Orkunotendum er skylt að byggja á þeim reglum þegar þeir gefa viðskiptavinum upplýsingar um eigin orkunotkun.

Ef orkunotendur hyggjast lýsa því yfir að þeir noti endurnýjanlega orku við framleiðslu sína eða starfsemi, þurfa þeir að afla sér upprunavottaðrar orku frá sínum orkusala eða kaupa sjálfir upprunaábyrgðir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Samkvæmt gildandi reglum er fyrirtækjum í sjávarútvegi, matvælaframleiðslu, stóriðju og ferðaþjónustu, ekki heimilt að lýsa því yfir að raforkunotkun þeirra byggist að öllu leyti á endurnýjanlegum orkugjöfum, nema þeir geti flaggað upprunavottun sem staðfestir það.

Norðurál hefur ekki upplýst neitt í þá veru eftir því að best verður séð. Líklega haga fleiri stórfyrirtæki sér með sama óheiðarlega hætti og Norðurál.

Stjórnvöld sáu fyrir hættuna á misnotkun

Að nýta tvisvar endurnýjanlegan uppruna íslensku raforkunnar fer í bága við skuldbindingar EES-samningsins og stríðir gegn markmiði íslenskrar löggjafar og löggjafar Evrópusambandsins um upprunaábyrgðir.

Í skýrslu frá 2016 „Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi“ segir m.a. að vegna einangrunar íslenska flutningskerfisins og almennrar vitneskju um endur- nýjanlegan uppruna íslenskrar orku, væri hætt við að uppruninn yrði í reynd nýttur í viðskiptalegu tilliti bæði hér á landi (af orkunotendum sem hafa þó ekki keypt upprunaábyrgðir) og erlendis af kaupendum íslenskra upprunaábyrgða á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er mikilvægt fyrir ímynd Íslands og trúverðugleika, já jafnvel sjálfsmynd landsmanna, að uppruni endurnýjanlegrar orku sé ekki tvínýttur.

Landsvirkjun komi skikki á viðskiptavini sína

Það er löngu tímabært að Landsvirkjun krefjist þess að Norðurál – það fyrirtæki sem nýtir 25% af raforku landsins – segi satt til um uppruna þeirrar orku sem það nýtir í starfseminni.

Það er líka kominn tími til að viðurkenna að það fylgir því kostnaður að græða á upprunaábyrgðum fyrir raforku.

Þær eru ekki bara fundið fé eins og Landsvirkjun fullyrðir. Heiðarleiki, orðspor og raunverulegur árangur í loftslags- málum er í húfi.

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...