Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sveigt af leið
Lesendarýni 15. nóvember 2019

Sveigt af leið

Höfundur: Sigurður Loftsson
Nýlega var skrifað undir samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, eða a.m.k. áfanga að þeim, sé innihald samkomulagsins rétt skilið. Ástæða er til að þakka því fólki sem að þessu vann fyrir hönd okkar bænda fyrir sín störf. Þau störf eru gjarnan vanmetin, sjaldnast þakklát og gjarnan háð duttlungum aðstæðna.
 
Sigurður Loftsson.
Í þessu samkomulagi er að finna nokkur nýmæli, svo sem afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þá er þar tæpt á ýmsum góðum málum sem taka á til skoðunar, s.s. aukinn stuðning við minni bú, aðgerðir á svæðum þar sem framleiðsla hefur dregist saman, rannsóknarstarf og skattaumhverfi í tengslum við kynslóðaskipti. Öll horfa þessi atriði til bóta og styrkja undirstöðu samningsins í heild. En í meginatriðum er þó með þessu samkomulagi sveigt af leið í nokkrum grundvallarþáttum frá upphaflegum samningi. Gefur það ástæðu til að horfa lítillega yfir það rekstrarumhverfi sem samningurinn snertir og umræddar breytingar taka til.
 
Snúið til baka
 
Ein helsta breytingin sem verður með þessu samkomulagi er að horfið er frá niðurfellingu greiðslumarks í mjólk. Er þetta í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslu meðal kúabænda sem fram fór fyrr á árinu, þar sem stór meirihluti greiddi atkvæði gegn niðurfellingu núverandi kvótakerfis í mjólkurframleiðslu. 
 
Í samkomulaginu er síðan tekið á fyrirkomulagi viðskipta með greiðslumark og er ástæða til að hrósa nefndinni fyrir þá ákvörðun að taka aftur upp fyrirkomulag kvótamarkaðarins sem tók gildi 2011. Það fyrirkomulag á að geta, ef rétt er að staðið, tryggt jafnræði milli kaupenda og seljenda og stöðugleika í verðþróun greiðslumarksins. Það er þó miður að samningsaðilar virðast ekki hafa gefið sér tíma til að gaumgæfa aðferðina betur og setja um hana skýrari skorður, þannig að frá henni séu engin frávik eða undanþágur. Þvert á móti eru í samkomulaginu atriði sem gefa tilefni til að ala á tortryggni gagnvart framkvæmdinni. 
 
Fyrir það fyrsta má nefna ákvæði um heimild ráðherra til að setja hámarksverð á greiðslumark. Ljóst er að slík ákvörðun hefur ígildi opinberrar verðlagningar þar sem að líkindum muni öll viðskipti með greiðslumark eftir það fara fram á því verði og gangverk markaðarins þar með verða óvirkt. Öllu verra er þó að hafa slíka ákvörðun hangandi yfir, enda virkar hún einungis sem spennuvaldur í viðskiptunum. 
 
Annan afar sérkennilegan hlut er að finna í samkomulaginu, en hann er sá að bann er lagt við tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila frá og með 25. október 2019. Eftir því sem best er vitað var lagt bann við þessum tilflutningi með reglugerð í júní 2018. Hvernig má vera að því sé breytt? Hvaða knýjandi ástæður voru til að breyta þeirri dagsetningu? Hvenær verða þær aðstæður komnar upp aftur?  
 
Kjörlendi kostnaðarauka
 
Þegar núgildandi samningur var undirritaður í febrúar 2016 var 12 mánaða sala á fitugrunni 132,8 milljónir lítra og 122,5 m. ltr. á próteingrunni. Þá var íbúafjöldi landsins 332.529 manns; sala á íbúa var 399 ltr. á fitugrunni og 368 ltr. á próteingrunni. Í dag eru íbúar landsins orðnir 356.991 og hefur því fjölgað um 7,4% frá undirritun, sala á fitugrunni er 145,3 m.ltr. og sala á próteingrunni 126,8 m.ltr.; reiknað á íbúa er salan 407 ltr. á fitugrunni, 1,9% aukning, en 355 ltr. á próteingrunni, 3,5% samdráttur. Þegar litið er til þróunar á fjölda ferðamanna á þessu tímabili sést að árlegur fjöldi þeirra fór úr 1,3 milljónum árið 2015 í 2,3 milljónir árið 2018; fjölgun um 82%. Samdráttur í sölu á íbúa er því umtalsverður á tímabilinu, sérstaklega í próteinflokknum þar sem margar framlegðarhæstu vörurnar eru. Það eru því blikur á lofti um það hvert greiðslumarkið verður næstu ár. Til að greiðslumarkskerfið geti gegnt hlutverki sínu þarf að hafa öfluga lagaumgjörð, sem tryggir að öll sú mjólk sem framleidd er umfram innanlandsþarfir fari til útflutnings. 
 
Á haustfundi Auðhumlu sem haldinn var á Flúðum nýlega kom m.a. fram að áætla megi innflutning mjólkurafurða síðustu misseri 4–6 milljónir lítra á ársgrunni, þar kom jafnframt fram að erfitt sé að nýta tollkvótana inn á ESB-svæðið og hagkvæmara sé að nota erlent hráefni til framleiðslu á íslensku skyri þar. Þá kom fram á umræddum fundi að skilaverð fyrir útfluttar mjólkurvörur skilaði 29 krónum fyrir umframmjólkurlítrann til framleiðenda. Þetta er að líkindum mun lægra skilaverð en erlendum kollegum var greitt fyrir hráefnið sem fór í innfluttu mjólkurvörurnar.  
 
Kostnaður við mjólkurframleiðslu á Íslandi er hár og háir greininni í samkeppni bæði heima og erlendis. Fyrir því eru margar ástæður, bæði landfræðilegar og veðurfarslegar, en einnig kerfislægar þar sem bændur þurfa að kaupa sér aðgang að sínum eigin heimamarkaði. 
 
Lítil hreyfing hefur verið á tilfærslu greiðslumarks síðustu ár, því verður að reikna með spennu í viðskiptunum þegar kvótamarkaðurinn verður opnaður og að það sjáist í verðinu. Hversu hátt það stígur er ekki gott að segja né hversu mikil skuldsetning greinarinnar í heild verður vegna þess. Æskilegt hefði verið að í þessu samkomulagi væri með einhverjum hætti ríkari áhersla á lækkun framleiðslukostnaðar.  En því miður virðist fremur lagt upp kjörlendi til hins gagnstæða. 
 
Flangsast með fjöregg
 
Um árabil hefur staða núverandi verðlagningarkerfis mjólkur verið óljós, skilvirkni þess ekki nægjanleg og pólitísk staða verið mjög að veikjast.  Í 12. grein gildandi nautgripasamnings er kveðið á um nýtt fyrirkomulag við verðlagningu sem taka átti gildi samhliða gildistöku samningsins, svokölluð tekjumarkaleið. Þessum hluta samningsins lauk þó löggjafinn ekki við afgreiðslu málsins á Alþingi haustið 2016 og hefur málið verið í undanslætti hjá samningsaðilum allar götur síðan.
 
Sú óvissa sem sköpuð hefur verið með þessu um verðlagningarfyrirkomulagið er afleit og því miður tekur hið nýja samkomulag með engum hætti á henni, heldur þvert á móti. Skipa á starfshóp til að útfæra hugmyndir að breyttu kerfi. Greina á tækifæri til frekari aðgreiningar á milli söfnunar og sölu hrámjólkur til vinnslu, með fremur óljósu markmiði um aukna samkeppni. Því til viðbótar er vakinn upp gamall draugur frá því fyrir síðustu aldamót, að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða. Starfshópurinn á að skila tillögum sínum innan sjö mánaða, verki sem ekki hefur tekist að koma af í tæp fjögur ár. 
 
Í hnotskurn er það þannig að kvótakerfið er gagnslaust án verðlagningar til bænda og sú verðlagning er gagnslaus sé mjólkuriðnaðinum ekki tryggðar tekjur til að mæta henni. Mjólkuriðnaðurinn er fjöregg greinarinnar, í gegnum hann fá kúabændur ríflega 60% tekna sinna. Umhugsunarvert er að skrifað sé undir samkomulag um framlengingu kvótakerfisins án þess að fyrir liggi hvernig eigi að fjármagna þau réttindi sem það gefur.
 
Galin stjórnvöld?
 
Lakasti þáttur þessa samkomulags er líklega að hætt er niðurtröppun „greiðslna út á greiðslumark“, en þær greiðslur áttu að hverfa út í lok samningstímans og færast á aðra liði samningsins. 
 
Það er afar umhugsunarvert að stjórnvöld skuli telja eðlilegt að undirrita ítrekað samninga, þar sem stuðningsgreiðslur sem ætlaðar eru starfandi bændum eru gerðar að söluvöru.
 
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er að finna metnaðarfull markmið landbúnaðinum til handa, þar sem m.a. er talað um heilnæmi, nýsköpun, verðmætasköpun, byggðafestu og sjálfbærni. Hvernig þessir þættir fara saman við að beina þriðjungi stuðningsgreiðslna mjólkurframleiðslunnar í framseljanlegar stuðningsgreiðslur er óskiljanlegt, jafnvel þó að það sé vilji greinarinnar sjálfrar. Því miður þjónar þessi aðferð einkum hagsmunum þeirra sem komið hafa sér vel fyrir og/eða ætla út úr greininni.
 
Í ljósi þeirra áskorana sem greinin stendur frammi fyrir á komandi árum og þeirra markmiða sem stjórnvöld hafa sett sér í umhverfis- og loftslagsmálum, hlýtur að teljast galið að gera þennan viðsnúning á samningnum, ekki síst þar sem hann bauð upp á aðra valkosti.
 
Sigurður Loftsson, Steinsholti.
Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...