Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skálað á afmælisdaginn við upphaf ferðar.
Skálað á afmælisdaginn við upphaf ferðar.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 13. ágúst 2021

Gekk í sumar einn á 30 dögum þvert yfir Ísland frá austri til vesturs

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þorsteinn Bergsson, fyrrverandi sauðfjárbóndi á Unaósi í Hjaltastaðarþinghá, nú búsettur á Egilsstöðum, stóð í ströngu í sumar þegar hann gekk þvert yfir Ísland frá austri til vesturs á 30 dögum aleinn.

Hann leitaðist við að fylgja 65. breiddarbaugnum eins og kostur er og fór því ekki neina hefðbundna mannavegi. Þorsteinn svaraði nokkrum spurningum blaðsins en byrjum á honum sjálfum og fjölskyldu hans.

Búfjáreftirlitsmaður hjá Matvælastofnun 

„Já, ég bý á Egilsstöðum og fjölskylda mín er þar öll til heimilis. Börnin tvö eru komin á þrítugsaldur og ekki lengur heima að staðaldri. Sonurinn, Ingvar, vinnur við garðyrkju í Mosfellsdal og er að ljúka námi í garðyrkjufræði en dóttirin Ása er í íslenskunámi við Háskóla Íslands. Konan mín, Soffía Ingvarsdóttir, kennir stærðfræði við Menntaskólann á Egilsstöðum. Við vorum áður sauðfjárbændur á Unaósi í Hjaltastaðarþinghá en hættum búskap haustið 2017. Sjálfur vinn ég sem búfjáreftirlitsmaður hjá Matvælastofnun. Fyrst var ég þar í fullu starfi, en í fyrra bað ég um að lækka það niður í hálft starf sem ég myndi fyrst og fremst sinna á veturna, þ.e. skila þeim vinnustundum sem í hálfu starfi felast öllum á veturna. Starfið er líka þannig vaxið að oft er lítið að gera á sumrin. Því mátti segja að þetta væri hentugra fyrir báða aðila enda var þetta góðfúslega samþykkt.“

690 kílómetra ganga

Þorsteinn í kvöldkyrrð við Ytrikvísl á Tvídægru.

- Þú ert búinn að vera á skemmtilegu og athyglisverðu ferðalagi í sumar, hvernig gekk?

„Þetta var gönguferð yfir mitt Ísland frá austri til vesturs og gönguleiðin átti að fylgja 65. breiddar­baugnum sem nákvæmast. Þetta tók mig 30 daga, en inni í því var 50 km útúrdúr á reiðhjóli og tveir hvíldardagar. Samtals var gangan um 690 km að meðtöldum frávikum vegna göngu í náttstað sem stundum var spölkorn frá baugnum.“

Hugmyndin kom á útmánuðum

- Hvenær fékkstu hugmyndina að ferðinni og hvað kom til?

„Ég fékk hugmyndina á útmánuðum í fyrra, en hvers vegna get ég nú ekki sagt. Stundum lýstur bara einhverju niður í kollinn á manni og maður losnar ekki við það,“ segir Þorsteinn og hlær.

Alltaf ákveðinn í að ganga einn

- Hvernig skipulagðir þú ferðina og varstu alltaf ákveðinn í að ganga einn?

„Fyrst og fremst skoðaði ég loftmyndir og kort og nýtti mér þá helst Google Maps þar sem þar er auðvelt að finna staðsetningar í lengd og breidd og ágætan vef Landmælinga (loftmyndir.is) þar sem mæla má fjarlægðir á góðum kortum með þokkalegri nákvæmni. Þannig setti ég upp dagleiðir og náði að búa til áætlun sem ég svo hélt mig við í stórum dráttum. 

Ég var alltaf ákveðinn í að ganga einn, þar með gæti ég alltaf ráðið hraða mínum sjálfur og þyrfti ekki að þrátta við neinn um hvort ráðlegt væri nú að ganga á þetta fjall eða vaða þessa jökulá einmitt þarna. Ég er nefnilega þannig gerður að ég slæ oft undan ef aðrir sækja hlutina fast, jafnvel þótt ég viti að ég hafi rétt fyrir mér (þetta á að vísu ekki við um huglægar rökræður, t.d. um stjórnmál, þar er ég yfirleitt fastur fyrir, jafnvel svo að ýmsum þykir nóg um). Mér líður líka vel einum með sjálfum mér og reiknaði ekki með að finna neinn ferðafélaga sem ekki myndi reyna að hafa áhrif á tilhögun ferðarinnar og það kom því aldrei annað til greina en að fara einn.“ 

Óð árnar

- Þú fórst ekki hefðbundna mannavegi, hvaða slóðir gekkstu og af hverju vildir þú ekki fylgja mannavegum?

„Já, ég fór yfirleitt vegleysur, stundum lá leiðin utan í snarbröttum skriðum eða yfir fjallatinda, og ég reyndi bara að fylgja baugnum eins og kostur var. Fór eiginlega eftir máltækinu sem segir að þar sem er vilji, þar er vegur. Stundum varð ég þó að krækja fyrir algerar ófærur í fjöllum eða klettum og eins er bráðnauðsynlegt þegar komið er að vatnsmiklum ám að velja vaðið vel, en ég óð nær allar ár á leið minni nema Jökulsá á Fjöllum. Hana fór ég yfir á brúnni við Upptyppinga. Svo mikið var sjálfstraust mitt (eða ofdramb) orðið í viðureigninni við jökulvötnin að ég var hálfpartinn að sjá eftir að hafa ekki vaðið hana líka, því er ég gekk frá brúnni inn með henni að vestan sýndist mér hún sums staðar vel fær. Mannavegir nú til dags eru allir miðaðir við vélknúin tæki og ég vildi gjarnan vera laus við að slíkt spillti fyrir mér öræfakyrrðinni.“

30 til 35 kílómetrar á dag

- Hvað varstu að ganga langt á dag og hvernig veður fékkstu?

„Dagleiðirnar voru nokkuð mislangar, allt frá um 15 km og upp í 30-35 km. Ég miðaði þó við að þær væru helst ekki lengri en 25 km og reyndi að fara því eftir hversu auðvelt gönguland var um að ræða, í brattlendi voru dagleiðirnar styttri, en á rennisléttum auðnum miðhálendisins lengri. Lengst gekk ég líklega rúma 40 km. Það er alltof mikið og var eiginlega óvart vegna þess að útúrdúrinn til náttstaðar í fjallaskála reyndist lengri en ég hafði reiknað með.“

Hallbjarnarstaðatindur í Skriðdal, frá Þórudal. Þarna lá baugurinn yfir. 

Magnað veður

Þorsteinn ákvað við skipulagningu ferðarinnar að hann skyldi leggja upp á 57 ára afmælisdegi sínum, þann 27. júní. Þá var nýlega hafinn mikill góðviðriskafli á Austurlandi, sem segja má að standi enn að einhverju leyti. Enda var veðrið hreint með ólíkindum gott frá austurströndinni og að miðju landsins í göngunni hans. „Já, hitinn fór oft vel yfir 20 stig og stundum þótti manni hreinlega nóg um. Ég bar með mér drjúga vigt af ytri skjólfötum, fannst hreinlega ekki verjandi að fara einsamall um miðhálendið í 800-900 m hæð án þess, en því hefði ég alveg getað sleppt.

Eftir að ég fór frá Laugafelli var engin ofurblíða lengur, en veður þó að mestu þurrt og yfir fáu að kvarta nema þá helst allstífum vestan- og suðvestanvindi sem ég fékk auðvitað í fangið þar sem leið mín lá alltaf í hávestur. En eftir að ég kom yfir Tröllakirkju og í Dalasýslu fór ég að fá á mig bleytu og þoku. Aðeins einu sinni, á fyrsta náttstað mínum í Dölum (innst í drögum Haukadals) þurfti ég að taka saman tjald mitt haugblautt.

Eftir það var ég kominn í byggð og gisti á gistiheimilum, þannig að þetta gerði lítið til. Næstsíðasta daginn (25. júlí) fékk ég svo ekta slagveður að hætti Snæfellsnessins, en þá brá ég mér í lopapeysu og sjóstakk utan yfir og var hinn brattasti. Hitastigið á leiðinni fór sjaldan undir 10 gráður, jafnvel þegar ég var í 1.000-1.200 m hæð,“ segir Þorsteinn.

Akurtraðir undir Eyrarfjalli. Göngulok í augsýn hjá Þorsteini.

Gefur út bók um ferðina 

̶ Hvað er maður að hugsa þegar maður gengur einn í 30 daga?

„Já, auðvitað flýgur margt í gegnum hausinn og ég hafði sannarlega ætlað mér að hugsa enn fleira og festa á blað. Ég hafði með mér vasabók og skrifaði ýmislegt, enda stendur til að gefa út bók um ferðina.

En þar varð meira um náttúrufars- og landlýsingar en ljóðagerð, heimspeki og samfélagsmál, sem átti þó að vera mun meira af. Ef til vill get ég þó bætt úr því seinna þegar bókin tekur á sig skýrari mynd og bý þá að ýmsu sem um hugann fór. Líklega var áætlunin of stíf og ef ég ætti að gera þetta aftur myndi ég ætla mér viku til viðbótar.

Svo verð ég líklega að viðurkenna að 57 ára skrokkur er ekki 27 ára, jafnvel þótt hausnum finnist það. Með öðrum orðum þá tók ferðin einfaldlega svo mikið á að ég hafði ekki eins mikla orku í pælingar og ég reiknaði með. Ég þurfti alloft að streða til að halda áætluninni, setti það í fyrsta sæti og hugsaði um fátt annað á meðan. Ég var þó yfirleitt í góðu skapi eins og ég er oftast þegar ég er einn og lét ekki erfiðið buga andann.“ 

Göngutjald og fjallaskálar

- Hvar svafstu?

„Fyrstu vikuna var þetta eins og raðganga, ég lauk göngunni einhvers staðar nálægt bílvegi, Soffía kom og sótti mig og ég gisti heima (5 nætur). Furðu margir fjallaskálar eru nærri 65. baugnum og ég nýtti mér þá eftir föngum. Þar voru alls 11 gistinætur og hefðu mögulega getað orðið fleiri, en stundum var ég orðinn of lúinn til að bæta á mig 5-10 km útúrdúr og ákvað frekar að tjalda.

Ég var með lítið göngutjald meðferðis eftir að ég fór úr Hrafnkelsdal og gisti alls 8 nætur í því. Fimm nætur gisti ég á gistiheimilum, aðallega í Dölum og á Snæfellsnesi, og eina nótt þáði ég gistingu á bóndabæ (Aðalbóli í Hrafnkelsdal) að gömlum sið,“ segir Þorsteinn.

Lifrarpylsa, harðfiskur og smjör

̶ Hvað borðar maður helst á svona ferðalagi?

„Já, þú segir nokkuð, lifrarpylsa, harðfiskur og nóg af smjöri (sem ég brúka með þessu hvort tveggja) voru uppistaðan í göngunestinu. Ég er ekki sérlega hrifinn af innfluttum þurrmat sem er ætlaður í svona, en hafði þó einhverja óveru af slíku. Aftur á móti sótti ég mikið í þurrkaða ávexti, súkkulaði og hnetur, sem er hefðbundið orkufóður göngumanna. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að borða þegar ég er á göngu, en hélt að það myndi kannski breytast þegar um svona langa ferð væri að ræða. Það gerðist nú ekki og oft nennti ég hreinlega ekki að borða. Enda hurfu utan af mér 7 kíló sem ég hafði með í upphafi en þeirra sakna ég nú ekki. Meltingin virtist hafa gott af þessu og ég man aðeins eftir einum degi (24. dagleið göngunnar, sem reyndar var ein sú stysta) þar sem mér fannst ég orkulaus.“

Tjaldstæði í 1150 m hæð sunnan í Dyngjufjöllum þar sem Þorsteinn svaf. Vattsfell í baksýn. 

Lúnir fætur

- Hvað var erfiðast við ferðina?

„Erfiðast var nú líklega hvað hún var löng og hvað stóri bakpokinn var þungur (25 kg+) á meðan ég var með hann. Síðustu dagana voru fæturnir orðnir ansi lúnir, einkum hásinarnar. Svo tók það stundum á að elta bauginn utan í fjallahlíðum, skárra var þegar hann lá beint yfir fjöllin. Síðustu daga ferðarinnar var ég orðinn mun linari í þessu en í upphafi og leyfði mér meira að segja að þiggja bílfar fyrir tvo firði á Snæfellsnesi (Álftafjörð og Kolgrafafjörð), leið sem ég átti samkvæmt reglum ferðalagsins að rölta (eða hjóla).“ 

Alltaf verið duglegur að ganga

- Hefur þú alltaf verið mikill göngugarpur?

„Já, ég hef aldrei sporlatur verið, svo mikið er víst. Við hjónin gengum töluvert mikið á fjöll og fórum ýmsar styttri ferðir á okkar yngri árum og tókst áreiðanlega að koma því inn hjá börnunum okkar að oft þarf ekki annað en fæturna til að koma sér á milli staða, jafnvel þótt um einhverja tugi kílómetra sé að ræða. En ég hygg að lengsta gönguferð sem ég fór á undan þessari hafi varla verið meira en fjögurra daga, þannig að þarna var ég nú að fara inn á nýjar slóðir.“ 

Seiglan dugði

- Ertu ekki stoltur af því að hafa afrekað gönguna og gekk hún betur eða verr en þú áttir von á?

„Jú, jú, sannarlega og mér þykir vænt um þegar fólk er að óska mér til hamingju með það. Eiginlega gekk hún betur en ég átti von á, en þá er ég fyrst og fremst að tala um veðrið sem var óvenju gott. Ekkert gekk verr, nema að ég reiknaði með að skrokkurinn myndi stælast og styrkjast þegar á liði, þannig að allt yrði léttara eins og gerst hefði fyrir 30 árum. Það gerði hann nú ekki, æskuþrótturinn er greinilega eitthvað að láta undan, en í staðinn er komin seigla sem dugði alveg til að skila mér á leiðarenda,“ segir Þorsteinn.

Ætlar ekki að ganga hringinn

- Hvað tekur nú við, ætlar þú að ganga hringinn í kringum landið eins og Reynir Pétur gerði?

„Nei, ekki hef ég nú áhuga á að ganga hringveginn. Frekar myndi ég kjósa að hjóla einn hring, það gæti verið gaman. Hins vegar var þetta líka svo skemmtilegt að það væri hálfgerð synd að gera ekki eitthvað fleira í þessum dúr áður en ellin fer að banka á dyrnar fyrir alvöru. Tveir aðrir breiddarbaugar liggja yfir landið allt, sá 66. og sá 64. og þótt báðir fari styttri vegalengd á landi en sá 65., gæti verið áhugavert að reyna við annan hvorn þeirra.

Það sýnist mér þó af ýmsum ástæðum nokkuð flóknara og þarfnast betra skipulags og jafnvel meiri aðstoðar. Það er þó alls ekki nauðsynlegt, ef maður vill halda sig við þennan leik, að um heila tölu sé að ræða. Lengdarbaugarnir gætu líka verið áhugaverðir, en þá hef ég lítið skoðað. En ég slæ engu föstu að svo stöddu,“ segir Þorsteinn glottandi.

Vilji er allt sem þarf

- Er eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

„Já, ég vil hiklaust mæla með svona verkefnum, ekki síst fyrir þá sem finnst þeir ekki nógu duglegir að skipuleggja hlutina og framkvæma síðan eftir áætlun. Þegar manni hefur tekist eitthvað svona hlýtur niðurstaðan að vera sú að vilji sé allt sem þarf og þetta stælir viljastyrkinn. Einungis þarf að gæta þess að vera viss um það fyrirfram að hafa tryggt sér þann stuðning frá öðru fólki sem maður gæti þurft á að halda og ganga ekki út frá neinu sem gefnu í þeim efnum. Annars bara upp með sokkana og af stað,“ segir Þorsteinn kampakátur með afrek sumarsins.

 

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...