Auðnutittlingur
Auðnutittlingur er lítill og fíngerður fugl af finkuætt. Hann er langalgengasta finkan sem verpur hér á landi. Auðnutittlingar eru fræætur og hefur fjölgað hér með aukinni skógrækt. Þeir eru afar félagslyndir, geta verið algengir gestir þar sem fuglum er gefið og geta hóparnir orðið nokkuð stórir. Þeir hænast auðveldlega að fólki þar sem þeim er gefið og geta jafnvel byggt upp svo mikið traust að þeir borði úr lófanum á fólki. Það hefur verið vinsælt að gefa þeim sólblómafræ en þeirra helsta fæða sem þeir sækja í eru birkifræ og má segja að þeir byggi tilveru sína hér á birkifræi. Það geta því verið nokkuð öfgakenndar sveiflur í stofninum eftir því hvernig árferði hefur verið fyrir þroska birkifræja. Auðnutittlingurinn er staðfugl og finnst svo að segja um allt land þar sem er skógrækt.