Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Útskriftarnemar vorið 2018.
Útskriftarnemar vorið 2018.
Mynd / Farskólinn á Norðurlandi vestra
Líf og starf 1. desember 2020

Bændur á Norðurlandi vestra duglegir að afla sér nýrrar þekkingar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Það sem okkur þykir skemmtilegast er að sjá hvað Matarsmiðjan - beint frá býli hefur þróast í jákvæða átt frá því hún var kennd árin 2018 og 2019. Það eru æ fleiri bændur að koma með vörur inn á markað og fólk er mjög duglegt að afla sér nýrrar þekkingar og sækja ný námskeið. Það er óhætt að segja að það sé heilmikil gróska hjá bændum hér á Norðurlandi vestra,“ segir Halldór B. Gunnlaugsson, en hann er verkefnastjóri í Farskólanum – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. 

Hann skipuleggur og heldur utan um námskeið til bænda ásamt öðrum verkefnum. Halldór er kennari að mennt og hefur auk þess lokið námi í viðskipta- og markaðsfræði. Farskólinn býður upp á fjölda námskeiða af ýmsu tagi. Það er óhætt að segja að matarsmiðjan hafi lukkast vel og meðal annars leitt til þess að bændur eru nú duglegir að sækja námskeið.

Námskeiðin eru að jafnaði vel sótt, hér eru þátttakendur á námskeiði um fars-, pylsu- og bjúgnagerð.

Fyrir þá sem vilja framleiða eigin vörur beint frá býli

Halldór segir að í byrjun árs 2018 hafi Farskólinn boðið upp á fyrrnefnda matarsmiðju en hún er 80 klukkustundir að lengd og kennd eftir námskrá sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gefur út. „Þetta nám er hugsað fyrir þá sem hafa áhuga á að framleiða eigin vöru beint frá sínu býli, eða eins og segir meðal annars í námskránni: „að námsmenn öðlist innsýn í helstu verkferla er snúa að einfaldri matvælaframleiðslu“. Við héldum þetta fyrsta námskeið í Skagafirði og það sóttu alls 18 manns, allt Skagfirðingar. Námskeiðið tókst frábærlega, að okkar mati, og margir af þeim sem tóku þátt eru nú komnir með eigin vörur á markað og sífellt fjölgar í þeim hópi,“ segir hann. 

Sams konar námskeið var haldið í Húnavatnssýslum árið 2019 og sóttu það 15 manns. Það var haldið til skiptis á Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd og tókst sömuleiðis með miklum ágætum. Þátttakendur á því námskeiði eru líkt og nágrannar þeirra í Skagafirði komnir með vöru í sölu.  Báðar matarsmiðjurnar voru kenndar í góðu samstarfi Farskólans, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd. 

Hnífar og hnífabrýningar er dæmi um námskeið sem Farskólinn býður upp á.

Halldór segir að hluti matar-smiðjunnar sé verkleg kennsla og greina megi að þátttakendur hafi mest gagn og gaman af þeim hluta. Því hafi sú hugmynd vaknað í kjölfar fyrri smiðjunnar að bjóða bændum upp á stök námskeið þar sem farið væri ítarlegar í það sem boðið var upp á í verklegum tímum matarsmiðjunnar. Strax haustið 2018 voru sjö námskeið í boði og sem dæmi um áhugann var námskeið í að úrbeina kind haldið fjórum sinnum, til að mæta eftirspurninni.

Tólf námskeið í boði í haust og mikill áhugi frá fleirum en bændum

Sem dæmi um námskeið sem hafa verið haldin og vel sótt má nefna: að úrbeina kind og folald, hrápylsugerð, kæfu- og patégerð, fars-, pylsu- og bjúgnagerð, ostagerð og fleira. Nú, haustið 2020, eru til dæmis í boði tólf námskeið. Þar má nefna  hnífabrýningar, sögun og hlutun á lambaskrokk, að þurrka og grafa kjöt, söltun og reykingu og heit- og kaldreykingu á fiski, kjöti og villibráð. Í sum námskeiðin komast færri að en vilja vegna góðrar aðsóknar. Reynt er að bæta við námskeiðum ef þannig háttar til en  einnig hefur fólk getað treyst á að komast á námskeiðið að ári liðnu. Þetta er þriðja haustið sem þessi námskeið eru haldin og engan bilbug að finna á mönnum, en öll þessi námskeið eru haldin í samstarfi við Vörusmiðjuna á Skagaströnd. 

Lögð er áhersla á að vanda til verka og hafa hópa fámenna. Hér er einn hópur sem var að læra að úrbeina kind.

Vöndum til verka og stillum verði í hóf

„Við leggjum mikla áherslu á að vanda til verka og höfum hópana því fámenna. Við miðum flest námskeið við 6 þátttakendur en þannig nær kennarinn að sinna öllum vel,“ segir Halldór og segir SSNV hafa styrkt verkefnin veglega og þannig gert Farskólanum kleift að stilla verði í hóf. 

Fram til þessa hefur Farskólinn einbeitt sér að námskeiðum sem snúa að úrvinnslu á kjöti en Halldór segir fjöldann allan af hugmyndum í vinnslu sem snúa að öðrum þáttum. Nefnir hann í því sambandi ræktun óhefðbundinna nytjaplantna,  námskeið sem nýtast ferðaþjónustubændum og tölvunámskeið af ýmsu tagi. „Þau námskeið sem við höfum boðið upp á hafa gengið afskaplega vel og fólk víða að hefur sótt þau enda má segja að allir séu velkomnir. Upphaflegi markhópurinn miðaðist við bændur á Norðurlandi vestra en fljótlega kom í ljós að fólk utan héraðs sýndi þessum námskeiðum mikinn áhuga. Við munum halda áfram að bjóða upp á þessi námskeið, svo lengi sem áhuga er fyrir þeim,“ segir Halldór. 

Skoðum allt sem nýst getur bændum

Farskólinn fékk á liðnu vori styrk úr Þróunarsjóði til að undirbúa og tilraunakenna nýja 80 klukkustunda námskrá fyrir matarsmiðju, þar sem áhersla verður lögð á að uppfræða bændur og aðra áhugasama um allt annað en kjötframleiðslu og vinnslu sem við teljum okkur vera að gera góð skil. Sem dæmi um það sem gæti verið í nýrri námskrá er t.d. möguleikar á afurðum úr jurtum, berjum, sveppum, hampi og fíflum svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður komið inn á möguleika á fiskeldi og möguleika bænda á framleiðslu á eigin orkugjafa, hvort sem er til að knýja vélar eða rafmagnsframleiðslu fyrir eigið býli.  „Við skoðum eiginlega allt sem okkur dettur í hug og teljum að geti nýst bændum,“ segir Halldór, „en vinna við þetta nýja námsframboð er að hefjast þessar vikurnar og mér sýnist þetta geta orðið skemmtileg matarsmiðja.“

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...