Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá fyrirlestri dr. Sergio Pérez Rosla þar sem hann fjallaði um innleiðingu hugvíkkandi efna í læknisfræði, meðferð, þjálfun og vöxt.
Frá fyrirlestri dr. Sergio Pérez Rosla þar sem hann fjallaði um innleiðingu hugvíkkandi efna í læknisfræði, meðferð, þjálfun og vöxt.
Líf og starf 31. janúar 2023

Breyttir tímar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Dagana 12. og 13. janúar var haldin í Hörpu ráðstefnan „Psychedelics as Medicine“. Markmiðið með ráðstefnunni, sem var á vegum Eden stofnunarinnar, var að upplýsa og fræða um hugvíkkandi efni og þau tækifæri sem felast í að leyfa og hefja geðmeðferðir með hjálp slíkra efna.

Á ráðstefnunni kom fram, svo ekki verður um villst, að viðhorf manna, ekki síst vísindamanna, til hugmynda um hugvíkkandi efni og notkun þeirra er að breytast. Í tengslum við ráðstefnuna komu til landsins nokkrir af þekktustu alþjóðlegum sérfræðingum og vísindamönnum heims á sviði rannsókna og meðferða með hugvíkkandi efni og héldu erindi.

Fyrirlesararnir fjölluðu um störf sín og rannsóknir á fjölbreytilegan hátt og kynntu niðurstöður sem gefa vísbendingar um árangur við notkun hugvíkkandi efna í baráttunni við geðheilbrigðisbresti á borð við þunglyndi, kvíða, áföll, fíkn og tengda sjúkdóma og raskanir.

Um tuttugu erlendir gestir voru meðal fyrirlesara, auk þess sem nokkrir Íslendingar tóku þátt í pallborðsumræðum. Meðal þeirra sem tóku þátt voru rithöfundurinn Michael Pollan, dr. Julie Holland, dr. Sherry Walling, dr. Páll Matthíasson og Héðinn Unnsteinsson.

Auk þess fóru sex fyrirlesarar af ráðstefnunni, Ben Sessa, Danielle Schlosser, Will Siu, Rick Doblin, Páll Mattíasson, Haraldur Erlendsson og lögreglufulltrúinn Sarko Gergeria á fund fulltrúa dómsmála- og heilbrigðisráðherra og Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns.

Sara María Júlíudóttir, stofnandi The Eden Foundation, prófaði hug- víkkandi efni árið 2017 og segir að það hafi breytt lífi hennar.

Einstök ráðstefna

„Við sem stóðum að ráðstefnunni vorum búin að vera að skipuleggja hana í rúmt ár,“ segir Sara María Júlíusdóttir, stofnandi The Eden Foundation, sem stóð fyrir „Psyche- delics as Medicine“ ráðstefnunni.

„Viðbrögð fyrirlesaranna við að koma til Íslands og taka þátt í ráðstefnunni voru ótrúlega jákvæð og nánast allir sem við töluðum við og gátu komið komu. Fyrir utan það að vera á Íslandi er ráðstefnan einstök að því leyti að í henni tóku ýmsir ráðamenn í þjóðfélaginu, lögreglumenn og fólk frá dómsmála- og heilbrigðisráðuneytinu og Fangelsismálastofnun þátt og það er nánast óþekkt á svipuðum ráðstefnum erlendis. Fyrir erlendu fyrirlesarana er það mikil viðurkenning og einstakt tækifæri til að koma rannsóknum sínum á framfæri.“

Alltaf haft áhuga á plöntum

Sara segir að áhugi sinn á plöntum nái allt til þess þegar hún var barn og var að hjálpa mömmu sinni að vökva pottaplöntur. „Ætli áhugi minn á að nota efni úr plöntum sem hugvíkkandi komi ekki upprunalega þaðan og að ég hef alltaf verið opin fyrir mystíkinni í kringum okkur og því sem við sjáum ekki.“

Það sem leynist í plöntum

„Árið 2017 fór ég til Gvatemala til að prófa eitthvað nýtt í lífinu og þá tók ég hugvíkkandi efni, sveppi og peyote-kaktus, í fyrsta sinn. Fyrir þá reynslu var ég með mikla fordóma fyrir öllu slíku en reynslan breytti lífi mínu og þá skildi ég á dýpri hátt en mig hefði getað órað fyrir hvað leynist í plöntum.“

Í framhaldinu hefur Sara lagt stund á nám í sál- og sálmeðferðarfræði með hugvíkkandi efnum.

Þorsteinn Úlfar Björnsson

Enduruppgötvun

Þorsteinn Úlfar Björnsson rithöfundur hefur í fjöldamörg ár bent í ræðu og riti á fáránleika þess sem hefur verið kallað stríðið gegn eiturlyfjum.

Hann segir að þrátt fyrir að ráðstefnur af þessu tagi séu að mörgu leyti endurtekningar fyrir þá sem hafa kynnt sér málið sé hann himinlifandi og það sé alltaf hægt að læra eitthvað nýtt

„Hér er ekki allt nýtt fyrir mér þar sem ég hef lesið mér mikið til um margar þessar rannsóknir og kynnt mér niðurstöður þeirra.

Ég hef einnig kynnt mér sögu hugvíkkandi efna í gegnum tíðina og í mínum huga er því ekkert nýtt að fólk hafi notað þau og allt tal um að við séum að uppgötva eitthvað nýtt vitleysa. Það voru allir á þessu fyrir 4.000 árum.“

Þórarinn Ævarsson

Mín reynsla tónar við það sem fyrirlesararnir segja

„Síðasta ár var mér erfitt og ég er að tjasla mér saman,“ segir Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ikea og Spaðans.

„Næsta skref hjá mér er heilsuhælið í Hveragerði enda ætla ég að nýta mér allt sem er íboði til að ná heilsu á ný, hvort sem það eru leirböð, heilun, nudd eða notkun á hugvíkkandi efnum.“

Þórarinn er himinlifandi yfir ráðstefnunni. „Fyrirlesararnir eru breiður hópur og mjög vel valdir og þeir tala til margra ólíkra hópa. Að mínu mati eru tvö áberandi sjónarmið sem koma fram. Annars vegar sjónarmiðið um varúð og hins vegar þeirra sem hafa stundað rannsóknirnar og þau stangast á við hræðsluáróðurinn sem oft er áberandi í umræðunni um hugvíkkandi efni.“

Þunglyndi og lyfjafíkn

„Mín saga er sú að ég var þungt haldinn af þunglyndi og var haldinn nýtilkomnum fíknisjúkdómi á læknaávísuð lyf og leið hreint út sagt hræðilega illa. Ég ákvað því að prófa hugvíkkandi efni, sveppi, MDMA og DMT, og losnaði við þunglyndið og lyfin nánast samstundis í framhaldinu og mín saga því hálfgerð kraftaverkasaga án þess að ég geti né vilji fullyrða nokkuð um reynslu annarra.“

Þórarinn segir að kosturinn við DMT sé að virkni þess sé stutt, um það bil tíu mínútur, og það því hraðvirkt. „Líkaminn framleiðir sama efni og þekkir það og efnið fer því hratt inn og hratt út og líkaminn þarf ekki að brenna DMT upp í lifrinni eins og til dæmis áfengi.“

Vonandi búinn með mitt

„Ég tel að það sem ég hef gert dugi fyrir mig og ég sé mögulega búinn með mín ferðalög á hugvíkkandi efnum og þurfi ekki meira. Löngunin til að halda þessu áfram er ekki til staðar, ólíkt því sem var þegar ég hætti að drekka áfengi á sínum tíma. Þá langaði mig í drykk, alveg eins og eftir að ég hætti að reykja, þá langaði mig í sígarettu.
Satt besta að segja er reynslan af hugvíkkandi efnum ekkert sérlega skemmtileg meðan á henni stendur og meira að segja erfið þegar maður er að takast á við áföll. En eftir á er hún mjög góð og satt best að segja æðisleg í mínu tilfelli. Mín reynsla tónar við það sem fyrirlesararnir eru að segja.“

Olivia Onyeador leggur stund á klínískar rannsóknir.

Efnin sem slík lækna ekki öll sár

„Ég kom til Íslands sérstaklega til að taka þátt í ráðstefnunni og ég sé ekki eftir því. Fyrirlesararnir hafa sett rannsóknir sínar vel fram og fyrirlestrarnir því áhugaverðir og góðir,“ segir Olivia Onyeador.

„Hér er eitthvað fyrir alla, fræðileg umfjöllun, persónulegar reynslusögur, pallborðsumræður og spurningar úr sal og þeir sem eru hér sem áheyrendur koma víðs vegar að og úr mörgum þrepum samfélagsins.“

Olivia er frá Maryland-ríki í Bandaríkjunum þar sem hún starfar við klínískar rannsóknir á lungum en vonast til í framtíðinni að leggja meiri áherslu á starf tengt sálfræði og sálfræði- meðferðum. „Eitt af því sem vakið hefur athygli mína er sú skoðun margra fyrirlesaranna að hugvíkkandi efni ein og sér komi ekki til með að lækna öll sár.

Til að efnin gagnist að fullu er því nauðsynlegt að taka þau undir leiðsögn manneskju sem hefur til þess þjálfun og getur stýrt reynslu þess sem efnið tekur þannig að hún verði jákvæð og nýtist á jákvæðan hátt.“

Dr. Páll Matthíasson, geðlæknir.

Full ástæða til að fara varlega

„Að mörgu leyti er þetta góð ráðstefna. Hér eru saman komnir margir af helstu forkólfum í vísindarannsóknum á sviði hugvíkkandi efna í heiminum til að ræða um hvað er nýjast í þessum fræðum og það er bæði fróðlegt og gagnlegt í mínum huga, segir dr. Páll Matthíasson geðlæknir.

„Það sem erindi þeirra sýna hefur komið fram í ýmsum fræðigreinum og er að rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna samþætt við sérsniðna viðtalsmeðferð getur hjálpað í glímunni við marga alvarlega geðsjúkdóma, eins og til dæmis þunglyndi sem ekkert annað hrín á.

Efnin ásamt viðtalsmeðferð virðast einnig geta hjálpað til í baráttunni við fíknisjúkdóma og áfallastreituröskun sem er gott.

Við verðum samt einnig að horfa til þess að margar þessara rannsókna eru enn í gangi og því ekki lokið og ekki enn komið í ljós hver áhrif þessara efna eru í stórum hópum sem eru ekki sérvaldir. Það er til dæmis enn erfitt að segja til um hverjar aukaverkanirnar geta orðið til lengri tíma og það er það sem rannsóknirnar sem nú eru að hefjast eiga að leiða í ljós. Ég tel að enn sem komið er sé ekki hægt að fullyrða neitt um hversu gagnleg þessi efni eru. Til þess þarf að bíða þar til niðurstöður úr þeim rannsóknum liggja fyrir,“ segir Páll.

MDMA leyft sem geðlyf

Á ráðstefnunni kom fram að MDMA verður leyft sem geðlyf í ákveðnum tilfellum í Bandaríkjunum árið 2024. Páll segir að eftir að lyfið verði leyft þar gefi það tóninn fyrir önnur lönd og telur að niðurstaðan verði á sama veg annars staðar. „Ég vil þó benda á að það eru alltaf að koma fram nýjar rannsóknir og þær geta haft áhrif á leyfisveitinguna.“

Væntingar geta haft áhrif á niðurstöður

„Að mínu mati er full ástæða til að fara varlega. Við vitum að eftir því sem rannsóknum fjölgar og að þeir sem eru að framkvæma þær eru ekki allir jafntrúaðir á ágæti meðferðanna og þeir sem þær fá heldur ekki sannfærðir um ágæti þeirra, að þá dregur úr þeim miklu áhrifum sem sjást í fyrstu litlu rannsóknunum.
Ég tel líka að jákvæðar væntingar þeirra sem taka þátt í fyrstu rannsóknunum geti haft jákvæðar niðurstöður á þær, enda slíkt vel þekkt úr öðrum rannsóknum.“

Leit að nýjum vopnum

„Ég held að leiðin til að ná árangri með þessum efnum sér sú sem þeir rannsakendur sem hér eru nota, það er að segja með rannsóknum og að afla upplýsinga.

Við erum að leita að nýjum vopnum ef svo má segja í baráttunni við illvíga sjúkdóma sem við þurfum betri meðferðir við. Ég vara eindregið við því að fólk sé að nota þessar meðferðir einhvers staðar úti í bæ. Í fyrsta lagi veit fólk ekki hvaða efniþaðeraðfáogtakaogíhvaða magni og hins vegar hefur komið fram í rannsóknum að við inntöku þessara efna geta komið fram miklar tilfinningar og vanlíðan. Því er nauðsynlegt að slíkar meðferðir fari fram í umsjón fagfólks sem hefur fengið til þess þjálfun og í vernduðu umhverfi,“ segir Páll.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar.

Ekki hvort, heldur hvenær?

„Skoðanir mínar á umfjöllunarefni ráðstefnunnar litast af bakgrunni mínum,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, sem tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni og setti fram skoðanir sínar á ákveðinn hátt.

„Ég hef starfað í fimmtán ár í stjórnsýslunni hér á landi og þar áður í fimm ár hjá Alþjóðaheilbrigðis- stofnuninni og þar sem ég hætti um áramótin get ég leyft mér að tala nokkuð frjálslega um skoðanir mínar.“

Fundur með Compass Pathways

Fyrir tveimur árum átti sér stað hér á landi samtal við Compass Pathways, sem vinnur að rannsóknum á sílósíbín til lækninga. „Ég og félagi minn buðum fulltrúum félagsins hingað og þeir funduðu meðal annars með Lyfjastofnun, formanni geðlæknafélagsins, DeCode, heilsugæslunni og fóru á fund forsetans og forsetafrúarinnar.

Hugmyndin var að fá Compass Pathways til að setja af stað slíka rannsókn hér á landi. Því miður varð ekkert úr því.“

Ný reglugerð nauðsynleg

Ein af þeim spurningum sem Héðinn varpaði fram í pallborðsumræðu á ráðstefnunni var hvað þyrfti til svo að þessi efni yrðu leyfð í lækningaskyni. Bændablaðið spurði Héðin sömu spurningar og hvað þyrfti til að þau yrðu leyfð hér á landi í sama tilgangi.

„Það sem þarf til, eins og staðan er í dag, er að fara með í gegn reglugerð sem heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans er tilbúið með og beðið er með að fari inn á samráðsgáttina.

Tillagan kemur til með að vera þar í tilsettan tíma og fá komment og síðan fer hún fyrir þingið og verði hún samþykkt opnast mögulega fyrir notkun í samúðarskyni, til dæmis í tilfellum alvarlegs krabbameins. Önnur leið er að bæta mögulega við inhverjum tilraunaverkefnum inn í geðheilbrigðisáætlun sem liggur fyrir heilbrigðisráðherra og þarf helst að fara fyrir ráðherranefnd, fjármála-, heilbrigðis-, félagsmála- og forsætisráðherra, um samræmingu mála. Þar þarf tillagan að fá umfjöllun og fjármagn og helst þarf að bæta við hana einhverjum tilraunaverkefnum í þessum fræðum.

Í þriðja lagi þurfum við að bíða eftir að heimurinn klári þessar rannsóknir og komi þessu í gegn og að lyfjaeftirlit samþykki notkun efnanna og það eru enn tvö til þrjú ár í það. Að mínu viti er ekki lengur spurning um hvort þessi lyf verða leyfð, heldur hvenær, enda gríðarleg framþróun sem á sér stað í rannsóknum á þessi sviði.“

Dr. Rick Doblin, dr. Will Siu og dr. Ben Sessa voru með erindi á ráðstefnunni.

Frumkvöðlastarf og breytingar

Meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni voru dr. Ben Sessa, dr. Will Siu og dr. Rick Doblin.

Ben Sessa sagði að að hans mati væri eitt það besta við þessa ráðstefnu að hún væri sú fyrsta af sínu tagi á Íslandi og að það gerði hana og það sem gerðist í framhaldinu gríðarlega spennandi. „Hér er um að ræða frumkvöðlastarf og það liggur í loftinu hugmynd um að hér sé eitthvað nýtt, spennandi og að það skipti máli um leið og það vekur vonir.

Ég átti, ásamt nokkrum öðrum, fund með fulltrúum stjórnvalda og lögreglunnar. Aðilarnir hlustuðu á það sem við höfðum að segja, spurðu góðra spurninga en pössuðu sig á að tjá sig ekki mikið sjálfir. Slíkir fundir með ráðamönnum eru sjaldgæfir og fundurinn vekur von um breytta stefnu stjórnvalda og vilja til breytinga.“

Fjórða sinn sem ég heimsæki Ísland

„Ég var mjög spenntur fyrir ráðstefnunni og að koma til Íslands,“ segir Will Siu. Þetta er í fjórða sinn sem ég heimsæki landið og það á sér sérstakan stað í hjarta mínu enda hluti af þroskaferli mínum. Það er eitthvað verulega sérstakt og kraftmikið við landið og fólkið og fólkið er fylgið sér á jákvæðan hátt. Í mínum huga er Ísland land nýrra hugmynda og breytinga.“

Will segist vera sannfærður um að hugvíkkandi efni eigi eftir að hafa í för með sér gríðarlega breytingar á því hvernig við meðhöndlum geðsjúkdóma í náinni framtíð. „Ráðstefnan sýnir, svo að ekki verður um villst, að hugmyndir fólks eru að breytast og að framtíðin er björt.“

Aukinn kraftur í umræðuna

Rick Doblin segist ekki efast um að ráðstefnan eigi eftir að hafa gríðarleg áhrif á umræðuna hér á landi og annars staðar í heiminum.

„Ég var einn þeirra sem sat fund með fulltrúum stjórnvalda og við ræddum meðal annars um hvernig hægt væri að koma með leiðbeinendur til Íslands til að þjálfa í meðferð með hugvíkkandi efnum. Fulltrúarnir á fundinum voru jákvæðir og sýndu meðal annars mikinn áhuga á því sem Sarko Gergeria lögreglufulltrúi hafði að segja og eftir fundinn finnst mér að á Íslandi ríki skilningur á því að það þarf að gera eitthvað róttækt til að fólk fái þá bestu þjónustu sem völ er á. Mitt mat er að ráðstefnan muni hleypa auknum krafti í umræðuna um hugvíkkandi efni og á sama tíma leiði hún af sér auknar rannsóknir.“

Lovísa Ólafsdóttir viðskiptafræðingur

Vekur von

„Það sem hefur komið fram á ráðstefnunni er lýðheilsumál og vekur hjá mér von ef rannsóknirnar standast. Auk þess sem það getur orðið verulegur efnahagslegur ábati af betri meðferðunum,“ segir Lovísa Ólafsdóttir viðskiptafræðingur.

„Ég geri fastlega ráð fyrir og held reyndar að ráðstefnan sé nú þegar búin að opna fyrir aukna umræðu hér á landi um möguleika hugvíkkandi efna til lækninga þegar kemur að geðsjúkdómum og ekki síst þunglyndi og alvarlegum áföllum.

Á ráðstefnunni hefur komið fram að ef niðurstöður rannsóknanna standast megi búast við að meðferðartími sjúklinga styttist og sé það rétt er af því verulegur efnahagslegur ábati. Hér er fólk úr öllum stigum samfélagsins, heilbrigðisgeiranum, prestar, viðskiptageiranum og frá lögreglunni að kynna sér málið og þá möguleika sem eru í boði.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.

Lögleiðing lyfjahamps mögulega aftur á dagskrá

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, lagði fram þingmál um lögleiðingu lyfjahamps á sínum tíma.

„Þegar ég fór með málið í þingsal voru móttökurnar ótrúlega dræmar og nánast engin þekking til staðar og skilningurinn á málinu samkvæmt því og þingfulltrúar á móti því án þess að gefa sér tíma til að skoða það nánar.“

Halldóra segir að í framhaldinu hafi hún á þeim tíma sannfærst um að hugmyndin um lögleiðingu lyfjahamps væri vonlaus barátta og í framhaldinu hafi hún snúið sér að því að fá CBD lögleitt.

Viðhorf fólks að breytast

„Ég setti mig í þá baráttu og að fá það löglegt að rækta iðnaðarhamp og hugsaði með mér að það væri fyrsta skrefið. Í dag finnst mér að viðhorf fólks hafi breyst og því mögulega kominn tími til að taka málið aftur á dagskrá. Upprunalega tillaga mín um lögleiðingu lyfjahamps gekk út á að almenningur mætti rækta hann til einkanota en það þótti ansi langt gengið. Persónulega er ég enn á þeirri skoðun. Jurtir og lyf sem geta reynst okkur vel og hafa lækningargildi og lina þjáningar eiga að vera almenningi aðgengileg. Ég tel að á sama tíma sé það glæpsamlegt ef við erum of sein að bregðast við ákalli fólks um aðgengi að úrræðum sem gætu reynst þeim vel.“

dr. Haraldur Erlendsson geðlæknir

Örugg, ekki eitruð eða ávanabindandi

„Geðheilbrigðismál á Íslandi eru í mjög alvarlegu ásigkomulagi,“ segir dr. Haraldur Erlendsson geðlæknir, „stór hluti fólks sem þarf á þjónustu að halda fær hana en þrátt fyrir það svarar hluti þess fólks ekki meðferð og á hreint út sagt ömurlegt líf.“

Haraldur segir að komin séu fram á sjónarsviðið lyf, MDMA og sílósíbín sem eru örugg, ekki eitruð og ekki ávanabindandi.

„Rétt notkun á þessum lyfjum er hreinlega að valda byltingu í líðan fólks frá því að vera með áratuga þunglyndi í að vera í lagi. Samkvæmt því sem kom fram á ráðstefnunni er nýlokið síðustu rannsóknunum á virkni MDMA á áfallastreitu í Bandaríkjunum og verður efnið komið á markað þar eftir rúmt ár.“

Haraldur lærði í Bretlandi og rak þar í sjö ár þjónustu fyrir konur með alvarlega áfallastreitu, auk þess sem hann hefur starfað á heilsuhælinu í Hveragerði og rekið eigin stofu.

„Í framhaldinu á að vera hægt að bjóða fólki sem á við geðraskanir að stríða upp á nýja gerð af meðferð, nánast kraftaverkameðferð, og ekki lengur stætt á því að veita alvarlega veiku fólki ekki þjónustu.

Mín skoðun er því sú að við verðum að hefja þessa meðferð sem fyrst og til þess að það sé hægt þarf að gera breytingar.

Helst vil ég sjá að þessi svokölluðu ofskynjunarlyf eða hugvíkkandi efni hverfi af lista yfir ólögleg efni. Í öðru lagi þurfum við að fá leyfi til að meðhöndla fólk með þeim og við bíðum eftir að fá ráðleggingu frá landlækni um undanþágumeðferðir, enda nú þegar til staðar hér á landi meðferðaraðilar og geðlæknar sem geta sinnt slíkum tilfellum.

Ef allt gengur vel er vel mögulegt að hefja þessar meðferðir hér á þessu ári.“

Skylt efni: hugvíkkandi efni

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...