Centaur-dráttarvél, árgerð 1934 er komin til Hvanneyrar
Það var hátíðarstund á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri laugardaginn 6. nóvember þegar Kristján Helgi Bjartmarsson þúsundþjalasmiður kom með Centaur-dráttarvél á kerru á Hvanneyri og færði safninu vélina til varðveislu.
Kristján Helgi hefur notað síðustu sjö ár við að gera vélina upp en hún var í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Dráttarvélin, sem hafði það hlutverk að leysa íslenska hestinn af hólmi í störfum sínum, kom fyrst að bænum Jódísarstöðum í Eyjafirði 1934 en fór síðan á Mælifell í Skagafirði þar sem Kristján Helgi ólst upp.
„Það er ómetanlegt fyrir söfnin að eiga slíka hagleiksmenn að eins og Kristján Helga, sem vinna óeigingjarnt starf til varðveislu tækniminja landsins,“ segir RagnhildurHelga Jónsdóttir, forstöðumaður safnsins.
Kristján Helgi og Ragnhildur tókust formlega í hendur eftir að vélin hafði verið afhent Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri.
Áður en vélin var sett inn á sinn stað í Halldórsfjósi fengu nokkrir að aka henni á hlaðinu á Hvanneyri, þeirra á meðal var Ragnhildur Helga. Þess má geta að Kristján Helgi hélt skrá yfir vinnu við Centaurinn og skilaði Þjóðminjasafninu skýrslu um framvindu og lok uppgerðarinnar. Ótal myndir, bæði fyrir og eftir viðgerð fylgdu skýrslunni.