Félagslíf og hagsmunir í forgrunni
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) er opið öllum þeim sem náð hafa 60 ára aldri, sem og mökum þeirra, yngri jafnt sem eldri. Er um stóran og skemmtilegan hóp að ræða, félagatal alls 14.600, sem bæði nýtur lífsins til hins ýtrasta við hin ýmsu skemmtilegheit auk þess að gæta hagsmuna sinna og kjaramála í samvinnu við Landssamband eldri borgara. Dýrleif Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri FEB, segir hér lítillega frá starfsemi félagsins, en hún hefur undanfarið verið með kynningu á því á starfslokanámskeiðum sem haldin eru á vegum fyrirtækja, þá ætlað þeim sem eru að stíga fyrstu skrefin í hóp eftirlaunaþega.
„Hluti af þessum námskeiðum er kynning á okkar starfsemi og sú staðreynd að fólk eldist ekkert við að ganga í félagið þó heitið vísi á háan aldur. Aldursfordómar viðgangast því miður enn þá, ekki síst innra með okkur sjálfum og vill fólk oft ekki fá stimpilinn „eldri borgari“.
En við hækkum öll í aldri og þarna er einungis verið að bjóða upp á félagsskap með jafnöldrum. Fólki sem er á svipuðum stað í lífinu og hefur svipuð áhugamál,“ segir Dýrleif.
Í Félagi eldri borgara Reykjavíkur og nágrennis er í raun þverskurður af þjóðfélaginu. „Fólk er á aldrinum sextíu ára til hundrað og því í raun um þrjár kynslóðir að ræða. Við getum stuðlað að því sem við viljum gera í félaginu, nýjum hugmyndum er vel tekið og því einskorðast félagslífið ekki að öðru en því sem okkur hugnast. “
Minnkandi virkni? Eða hvað?
Orðasambandið eldri borgari, eins og Dýrleif bendir á, er oft og tíðum bendlað við minnkandi virkni sem þjóðfélagsþegn en sú hugmynd er sem betur fer á undanhaldi. Að stíga skrefið frá vinnumarkaðinum þykir æ oftar vera aðlaðandi hugmynd, fremur en hitt, þar sem hægt er að njóta lífsins við hin ýmsu hugðarefni.
Landssamband eldri borgara eru svo regnhlífarsamtök sem standa að hagsmunamálum eldri borgara og eru meðlimir Félags eldri borgara í Reykjavík um helmingur þeirra eins og staðan er núna. Rennur ákveðinn hluti félagsgjalda allra félaga eldri borgara til Landssambandsins, sem á móti þjónustar þau á landsvísu.
„Baráttumál kjara og hagsmunir eru hátt á baugi enda minnka oft, því miður, réttindi þeirra sem stigið hafa af vinnumarkaðnum sökum aldurs.
Landssambandið stýrir slíkri baráttu, enda eiga félögin þarna sameiginlegt málefni sem vinna þarf með og sem varðar þau eðlilega afar mikið. Nokkrir fulltrúar sem koma frá okkur hér hjá FEB, svo og stærri félaganna á landinu, hafa staðið sem ein rödd ásamt Landssambandinu þegar kemur að hagsmunabaráttunni, enda af svo mörgu að taka þegar kemur að skerðingum,“ segir Dýrleif.
Landssambandið heldur svo ársfundi þar sem fulltrúar félaganna koma saman og bera saman bækur sínar, um 160 manns talsins.
„Rétt er að benda á að vefsíða þeirra veitir miklar og greinargóðar upplýsingar og má þar einnig finna afsláttarbók sem í boði er fyrir félaga á landsvísu.“
Öflug mæting, virkt félagslíf
Dýrleif segir, að á meðan faraldri Covid veirunnar stóð, hafi fulltrúar þó hafið að nýta sér fjarfundi Teams – yfir netið – og hefur það fundaform haldist, enda stundum auðveldara en að fara á staðinn og hentar gjarnan betur þeim sem búa utan byggðar. Hefur það orðið til fjölgunar funda og öflugri mætingar.
Öllum er frjálst að ganga til liðs við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og einnig mega allir landsmenn skrá sig í hvaða félag sem er, hvar sem þeir eru staðsettir á landinu. Að sama skapi má sækja félagsstarf og skemmtanir á landsvísu – félagsmenn fái þó afslátt á uppákomum og öðru innan síns félags vegna ársgjaldsins.
Sumir kjósa að vera í fleiri en einu félagi – borga ársgjald og fá þá afslætti á því sem í boði er. Félagsgjöld Félags eldri borgara í Reykjavík eru 5.000 krónur en vanaleg ársgjöld félaga á landsvísu eru á bilinu 2–3.000 krónur
Rétt er að taka fram að mikill rekstrarmunur er á félögunum þar sem önnur félög fá langflest mikinn styrk frá sínu bæjarfélagi meðan FEB fær enga reglulega rekstrarstyrki frá Reykjavíkurborg
Rúmur helmingur eldri borgara í Reykjavík í FEB
Dýrleif kemur inn á fjölda félagsmanna í FEB, mót hlutfallslegum fjölda íbúa höfuðborgarinnar.
Það er nokkuð hátt, eða 14.600 af þeim 26 þúsundum sem eru sextíu ára gamlir -og eldri, á Íslandi.
Stærstur prósentufjöldi félagsins eru einstaklingar á aldrinum 70–80 ára, eða nálægt 80% Reykjavíkurbúa á því aldursbili. Félagsleg virkni er öllum þörf og skemmtileg aukningin þarna, enda aldurshópurinn á undan, 60–70 ára, oft enn á vinnumarkaði en þar eru tæp 20% sem hafa gengið til liðs við félagið.
„Heimasíða félagsins er afar aðgengileg og sýnir m.a. það félagsstarf sem er í boði, hvaða námskeiðsnýjungum við höfum bryddað upp á auk almennra upplýsinga. Kór, klúbbar og ferðalög auk viðburðadagatalsins.“
Matreiðslunámskeið fyrir alvöru karlmenn
„Það er gaman að segja frá því að fyrir áramót héldum við í fyrsta sinn matreiðslunámskeið sem einungis var ætlað karlmönnum. Þeir eru þó nokkrir sem sjaldan eða aldrei hafa stigið fæti inn fyrir eldhúsdyrnar, en vegna breyttra aðstæðna þurfa nú að taka sér sleif í hönd.
Vel var mætt og fengu þátttakendur að velja hvað þá langaði að læra að matbúa. Kennarinn var Kristján E. Guðmundsson, áhugakokkur á sama reki og nemendurnir, og gekk þetta framar öllum vonum auk þess sem neytt var dýrindis málsverðar í hvert sinn. Við verðum með annað námskeið sem hefst núna 30. janúar og um að gera að skrá sig fyrir þá sem langar að spreyta sig við einfalda íslenska matseld,“ segir Dýrleif brosandi.
Ferðalög og gistingar á næstunni auk fjölbreytts félagslífs
„Árlega er farið í nokkrar dagsferðir. Einnig aðrar þar sem við gistum nótt og nótt. Við erum meira að segja með ferðaskrifstofuleyfi og getum því sett saman ferðir eftir hentugleika. Það eina sem á strandar er gistingin. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að næsta gistipláss sé laust árið 2024,“ segir Dýrleif hlæjandi.
„Nú er reyndar stór hópur á leið til Færeyja í tengslum við Íslendingasöguklúbbinn sem fer á söguslóðir í takt við efnið sem er verið að lesa – í þessu tilviki Færeyingasögu.
„Þegar kemur að ferðaskrif stofunni okkar, FEB-ferðum (sem er hjáheiti fyrir ferðaskrifstofu FEB) fórum við í vel á annan tug innan- og utanlandsferða yfir síðasta ár, bæði lengri og styttri ferðir – og á síðasta ári voru það u.þ.b. 500 félagsmenn sem fóru í ferðirnar með okkur, enda afar skemmtileg dægradvöl.
Auk annars félagsstarfs er það sem helst stendur upp úr, spænskunám, kór, gönguferðir og svo vikulegir dansleikir, en á hverju sunnudagskvöldi klukkan átta flykkjast hingað dansunnendur og sletta úr klaufunum. Þetta er fastur punktur hjá okkur og alltaf jafn vinsæll.
Við erum svo heppin að eiga húsnæðið hérna að Stangarhyl 4 og höfum því nægt rými er kemur að skemmtunum, Zumba-dans, stólaleikfimi eða öðrum uppákomum, og svo hefur reyndar salurinn verið leigður út fyrir fermingar eða annað.
En það er um að gera að drífa sig af stað ef áhugi er fyrir hendi, endilega að kíkja,“ lýkur Dýrleif máli sínu.
Öll eldumst við nú
Á vefsíðu Landlæknisembættisins kemur fram að einmanaleiki og tómarúm eiga ekki að vera fylgifiskar þess að eldast. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir merkjum um versnandi geðheilsu eldra fólks, svo sem minnisskerðingu, pirringi, svefnvanda, kvíða, depurð eða vanvirkni.
Í nútímasamfélagi eru umskipti ævistarfsins og fyrstu skrefin í heim eldri borgara oft vandmeðfarin, þó þessi þáttaskil séu óumflýjanleg. Fyrir suma eru skrefin kvíðvænleg og full óvissu, margir finna fyrir einmanaleika og depurð, jafnvel reiði.
Upplifunin um að vera eða verða byrði, gagnslaus og án tilgangs getur skotið upp kollinum, en ekki er óeðlilegt að finna fyrir slíkri vanlíðan við þessa breytingu. Við langvinna vanlíðan er þó mikilvægt að leita sér aðstoðar enda hvorki þunglyndi né kvíði eðlilegir förunautar ef um viðvarandi ástand er að ræða.
Þeir sem bera titilinn eldri borgari bera það þó oft með sér að nú séu bestu árin eftir og sjá fyrir sér að njóta þeirra til hins ýtrasta. Margir takast á við ný viðfangsefni, kynna sér eða læra eitthvað sem hefur lengi blundað í þeim og láta drauma rætast.
Að finna lífi sínu tilgang á jafnt við á öllum aldursskeiðum og felst farsæl öldrun meðal annars í því að rækta hæfileika sína, leggja áherslu á þau lífsgæði sem eru og tækifæri sem fylgja efri árum. Einhverjir sakna félagsskapar, enda tengsl við vinnufélaga rofnað að nokkru en þá er um að gera að líta sér nær og brydda upp á nýjum tengingum.
Samkvæmt Hagstofunni eru tölur þjóðarinnar á þá vegu að þegnar landsins, sextugir og eldri, eru alls 77.332 talsins. Vert er því að geta þess að víða um land má finna félög eldri borgara. Á landsvísu eru þau skráð alls 55 talsins og nokkuð mikil virkni er í þeim allflestum.
Þar má sækja félagsskap jafnaldra, kynnast nýju fólki og e.t.v. læra nýtt tómstundagaman.
Landssamband eldri borgara á Íslandi
Félagið var stofnsett árið 1989 og á sér því rúmlega þrjátíu ára sögu. Stofnun þess var að norrænni fyrirmynd en nokkrir í félögum eldri borgara á Íslandi höfðu átt í góðum samskiptum við samtök eftirlaunafólks Norðurlanda; Norrænu samvinnunefndina. Þótti samheldni og samstarf meðal félaga eldri borgara á landsvísu eftirsóknarverð og úr varð stofnun Landssambandsins hérlendis.
Sambandið hefur vissulega mótað réttindi og velferð eldri borgara yfir tíðina en á vefsíðu þess kemur fram að þarna er um að ræða sjálfstætt starfandi samtök sem vinna að „hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum aldraðra og kemur fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart Alþingi, ríkisstjórn, stjórnvöldum og öðrum sem sinna málefnum aldraðra fyrir landið í heild“.
Gætt er fyllsta hlutleysis er kemur að trú og stjórnmálum og stuðlar sambandið að „samvinnu félaga eldri borgara og að slík félög séu starfandi í öllum sveitarfélögum landsins“.
Til viðbótar er Grái herinn, sem áður var stofnaður sem deild innan Félags eldri borgara í Reykjavík, nú baráttuhópur mannsæmandi kjara með hagsmuni eldra fólks í forgrunni, enda ættu allir hópar þjóðfélagsins að geta notið bæði reisnar og virðingu til jafns.
Hagsmuna og kjara er þó ekki einungis gætt auk samþættrar félags- og heilbrigðisþjónustu, heldur er eldri borgurum boðið upp á öflugt félagslíf.
Sitjandi formaður í dag er mörgum kunnur, Helgi Pétursson að nafni, oft kenndur við hljómsveitina Ríó tríó. Aðspurður um stöðu félagslífs eldri borgara telur hann árið sem nú nýverið gekk í garð lofa góðu og mikið um að vera nú þegar atgengi Covid-veirunnar fer hallandi.
Áhugaverðar vefsíður:
www.leb.is (Landsamband eldri borgara) www.lifdununa.is (varðar líf og störf þeirra sem komin eru yfir miðjan aldur) www.graiherinn.is (Grái herinn)