Fjölbreytileikanum fagnað í kartöflufræi
Á Slow Food-hátíð í Grasagarðinum á dögunum mátti sjá á einum básnum fjölskrúðugar kartöflur, sem reyndust hafa verið ræktaðar upp frá fræi – sem er mjög óvanalegt í almennri kartöfluræktun.
Í hefðbundinni kartöfluræktun er notast við útsæði, eins og margir þekkja, sem er í raun einræktun (klónun) á einni kartöflu og skiljanlega verða afkomendur hennar því einsleitir. Í kartöfluræktun af fræi er hins vegar um að ræða afkomendur kynæxlunar.
Allir eiginleikar mismunandi á milli fræja
Til að kynna þessa tegund kartöfluræktunar voru þær Svanhildur Sigfúsdóttir, garðyrkjufræðingur í Grasagarðinum, og Dagný Hermannsdóttir mættar við Kaffi Flóru þar sem hátíðahöldin fóru fram. Dagný, sem kunn er af súrkálsframleiðslu sinni undir vörumerkinu Súrkál fyrir sælkera, segir að þegar unnið sé með fræ í kartöfluræktun geti útkoman orðið gríðarlega fjölbreytt því systkini geti jú orðið mjög ólík.
Áhugi Dagnýjar á þessari tegund kartöfluræktunar vaknaði fyrir rúmlega áratug, þegar hún komst í kynni við fjólubláar kartöflur á markaði í Nýju-Mexíkó. Hún komst að því að það var vandkvæðum bundið að panta til Íslands ný kartöfluyrki en mögulegt væri að kaupa fræ og flytja inn.
Í kjölfarið byrjaði hún að grúska og komst í samband við mikinn kartöflufrömuð, sem lét hana fá sín fyrstu fræ sem hún hefur síðan byggt sína ræktun á. „Af þessum fræjum spruttu mjög óvenjulegar og litríkar kartöflur, þar sem erfðaefnið er mjög ólíkt þeim kartöflum sem við ólumst upp við. En það er ekki bara litir og lögun sem er áhugavert við kartöflurnar, því fjölmargir eiginleikar eru mismunandi frá einu fræi til annars – og bragðgæðin sömuleiðis.“
Hvert fræ er mögulegt nýtt yrki
Að sögn Dagnýjar er um stórskemmtilegt tómstundagaman að ræða. „Það er auðvitað mjög gott að borða afraksturinn og svo er mikill bónus að vera með lifandi genabanka í görðum landsmanna. Hvert fræ er nefnilega í raun mögulegt nýtt yrki og það má segja að „teningunum sé kastað“ þegar fræinu er sáð, því allir eiginleikarnir geta komið upp ef þeir leynast í erfðaefni foreldranna.
Í hverju kartöflualdini eru því ótrúlegir möguleikar því hvert og eitt þeirra inniheldur á bilinu 100- 300 fræ. Ef við sáum þessu er hvert fræ nýr einstaklingur, nýtt yrki,“ útskýrir Dagný.
Ýmsar áskoranir
En jafnframt því að vera einstaklega gjöful ræktunaraðferð að mörgu leyti, fylgja henni ýmsar áskoranir og vandamál, að sögn Dagnýjar, sem hefðbundnir kartöflubændur kjósa að vera lausir við. „Einhver fræjanna munu ekki spíra og önnur skila ekki uppskeru – þó flest geri það.
Einhver verða kannski mjög bragðvond en önnur mjög bragðgóð, flest einhvers staðar á milli. Sum verða mjölmikil, önnur vaxkennd, sum skila litlum kartöflum, önnur stórum. þær geta orðið mismunandi í laginu, mismunandi á litinn, bæði hýðið og að innan. Þær geymast misvel. Sumar afburðavel, aðrar illa og allt þar á milli. Sumar eru gjarnar á að fá ýmsa kvilla og plöntusjúkdóma sem herja á kartöflur eins og kláða, en aðrar ekki og hafa jafnvel góða mótstöðu.“
Dagný segir að eina leiðin til að fá úr því skorið hvaða yrki séu góð sé að sá fræjunum úr vænlegri plöntu, grisja úr það sem ekki reynist vel og halda svo áfram með þau álitlegu. Það ferli sé einmitt hluti af ánægjunni við þessa ræktun. „Það er svo spennandi að sjá fjölbreytnina og ekki síst að setja þessar kartöflur svo niður að vori og komast að því hvaða yrki er þess virði að halda upp á áfram og hver ekki.
Öll kartöfluyrki sem við þekkjum í dag, eins og Gullauga og Rauðar íslenskar, eru þannig til komin að einhver ræktaði upp af fræi og þetta yrki stóð á einhvern hátt upp úr og var því haldið við og fékk útbreiðslu.
Það er alltaf spennandi að sjá hvað kemur upp úr moldinni á haustin, enda er eitt það skemmtilegasta við þetta hversu litríkar kartöflurnar verða og njóta sín vel í mismunandi matreiðslu. Bæði er litafjölbreytnin mikil en eins eru litamynstrin mjög mismunandi og fallegt að sjá í mismunandi kartöfluréttum. Svo eru dökkfjólubláar og dökkrauðar kartöflur fullar af andoxunarefnum og því alveg bráðhollar.
Í dag eru stórfyrirtæki og háskólar stöðugt að þróa ný yrki til að mæta þörfum markaðarins.“
Óformlegur félagsskapur
Að sögn Dagnýjar er óformlegur félagsskapur starfandi í kringum þetta áhugamál og á Facebook-síðunni Kartöflurækt af fræi skiptist fólk á skoðunum um þetta hugðarefni sitt.
„Við erum þrjú sem vorum dugleg við þetta fyrstu árin og höfum mest unnið að þessu innan Garðyrkjufélags Íslands, ég, Jóhanna Magnúsdóttir á Dalsá og Jón Guðmundsson – sem er þekktur ávaxtaræktandi á Akranesi.
Við héldum nokkrar kartöflusýningar og ég flutti erindi um ræktunina. Gegnum árin hef ég gefið talsvert af kartöflufræi í fræbanka Garðyrkjufélagsins svo áhugasamir hafi góðan efnivið að vinna með. Það er ekkert hlaupið að því að fá áhugaverð kartöflufræ sem henta vel hér á landi. Ýmsir fleiri eru farnir að gefa kartöflufræ í bankann svo það er auðvelt að nálgast spennandi fræ ef fólk hefur áhuga á að prófa þetta.
Grasagarðurinn kom svo inn í þetta fyrir nokkrum árum og Svanhildur Sigfúsdóttir garðyrkjufræðingur, Hjörtur Þorbjörnsson grasafræðingur og Björk Þorleifsdóttir, upplýsingafulltrúi Grasagarðsins, hafa sinnt þessu með miklum sóma síðan.
Þau rækta upp af fræi á hverju sumri og eru líka að halda við ýmsum áhugaverðum yrkjum.
Einnig höfum við haldið Dag kartöflunnar hátíðlegan undanfarin ár þar sem við sýnum afraksturinn og fræðum áhugasama.“