Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Skúli Hreinn Guðbjörnsson og Guðrún Esther Jónsdóttir í fjósinu á Miðskógi.
Skúli Hreinn Guðbjörnsson og Guðrún Esther Jónsdóttir í fjósinu á Miðskógi.
Mynd / smh
Líf og starf 5. maí 2023

Fyrsta kjúklingabú Dalamanna

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Nautgripabændurnir á Miðskógi í Dölum hafa gert samning við Reykjagarð um uppbyggingu á kjúklingaeldi á bænum. Í samningnum er gert ráð fyrir að bændurnir reisi eldishús fyrir um 13 þúsund kjúklinga til að byrja með, sem geti skilað um 180 tonna ársframleiðslu af kjúklingakjöti. Reykjagarður mun leigja af þeim húsið, kaupa þjónustu við eldið og afurðirnar af bændunum. Verður Miðskógur þar með fyrsta kjúklingabúið í Dölum.

„Þetta kom þannig til að í haust auglýsti Reykjagarður eftir samstarfsaðila á Suðurlandi, til að koma inn í greinina,“ útskýrir Skúli Hreinn Guðbjörnsson, tilvonandi kjúklingabóndi á Miðskógi, sem hefur rekið þar kúabú og nautaeldi ásamt konu sinni, Guðrúnu Esther Jónsdóttur, frá 2015.

„Forsendurnar sem Reykjagarður gaf upp fyrir slíkt eldi voru þær að þar þyrfti að vera hitaveita, þriggja fasa rafmagn, hreint drykkjarvatn, vegtenging og ljósleiðari.

Ég hugsaði með mér að hér væri allt til staðar; af hverju væri ekki hægt að hafa þetta í Dölunum eins og á Suðurlandi? Ég sendi þeim bara póst og þeir bitu á agnið,“ bætir Skúli við.

Búið í haginn fyrir heimkomu dóttur og tengdasonar

Spurður um ástæður þess að nautgripabændur gefi þessum möguleika gaum, segir Skúli að það hafi í raun verið spurningin hjá þeim hjónum hvernig þau gætu breikkað rekstrargrundvöll búsins og þannig opnað leið fyrir dóttur þeirra og tengdason, Sunnevu Hlín Skúladóttur og Jóhannes Örn Pálmason, til að flytja til þeirra í Dalina frá Dýrastöðum í Norðurárdal. „Þau voru með bæinn á leigu og samningur þeirra er að renna út núna í maí. Þau langar til að halda búskap áfram og við buðum þeim þennan valkost; að kaupa sig inn í búreksturinn okkar og reka með okkur bæði kjúklingaeldið og kúabúið. Þau flytja til okkar núna um miðjan maí með krakkana sína sem ná þá í lok skólaársins.“

Skúli segir að engin skýr verkaskipting verði í rekstri búanna, en unga fólkið muni byrja á því að reisa íbúðarhúsnæði við hlið þeirra Skúla og Guðrúnar. „Síðan ætlum við bara að byrja sem fyrst á framkvæmdum við eldishúsið. Það er verið að teikna það núna en við þurfum að fara í jarðvegsskipti á þeim stað þar sem það mun rísa. Við erum að skoða hvaða leiðir við munum fara í að byggja það; hvort það verði staðsteypt eða hvort við kaupum einingar. Við sjáum um byggingaframkvæmdina en Reykjagarður sér alveg um allan eldisbúnað, eins og fyrir fóður og vatn. Við sjáum svo um allan daglegan rekstur,“ útskýrir Skúli.

Þetta sé fyrirkomulag sem henti vel fyrir báða aðila og Reykjagarður viðhafi á öðrum bæjum.

Stefnt er að því að framleiðsla verði hafin á kjúklingabúinu fyrir næstu áramót en Skúli segist horfa dálítið til októbermánaðar í þeim efnum.

Guðrún Esther Jónsdóttir, Skúli Hreinn Guðbjörnsson, Guðmundur Svavarsson frá Reykjagarði, Jóhannes Örn Pálmason og Sunneva Hlín Skúladóttir.

Ekki svo ólíkar búgreinar

Guðrún segir að þótt kúabúskapur og kjúklingaeldi kunni að virðast ólíkar búgreinar, séu þær þó í raun ekki svo ólíkar. „Við erum að vísu að annast ólíkar dýrategundir en grunnreglurnar eru þær sömu; það þarf að fylgjast vel með skepnunum, að aðbúnaður sé góður og heilbrigði. Það er mikil binding sem felst í því að ala bæði kjúklinga og nautgripi, mikil nákvæmisvinna hvort tveggja.“

Kjúklingabúið á Miðskógi verður 13. búið sem framleiðir fyrir Reykjagarð og með smærri búum. Það verður eina búið með eingöngu eitt eldishús.

„Reykjagarður lagði reyndar til við okkur að við reistum strax tvö hús – af því að það er mikil og aukin eftirspurn eftir íslenskum kjúklingi,“ segir Skúli. Alifuglakjöt er enda komið með mjög sterka stöðu á íslenska kjötafurðamarkaðnum, með um þriðjung markaðshlutdeildar á síðasta ári, en um 9.500 tonn af kjúklingakjöti var framleitt hér á landi á síðasta ári.

Skúli telur ýmsa möguleika vera til staðar varðandi blöndun búgreina líkt og þau gera. „Ég held að það sé eitthvað sem bændur þurfi að skoða í meira mæli til að auka sína afkomumöguleika. Ég er ekki hrifinn af verksmiðjubúskap – vil hafa þetta í fjölskylduvænum einingum. Það geta líka verið alls konar samlegðaráhrif – við munum til dæmis geta nýtt hænsnaskítinn okkar sem áburð á okkar tún,“ segir hann og segist aðspurður ekki vilja útiloka aðrar aukabúgreinar eins og garðyrkju. Ef um vandaðan búrekstur sé að ræða geti þetta allt unnið vel saman.

Skúli með hamborgara beint frá Miðskógi í Dölum.

Fyrri ábúandi náfrændi Guðrúnar

Ábúðarsaga þeirra Skúla og Guðrúnar er fremur stutt á Mið­ skógi. „Esther er fædd og uppalin á Saurbæ í Dölum, en ég er uppalinn á Vatnsnesinu í Húnavatnssýslu. Við hittumst á Hvammstanga og bjuggum þar alveg til 2004. Þá fluttum við á Akranes og þar var ég verslunarstjóri í Húsasmiðjunni í 11 ár. Ég frétti svo af því að þessi jörð væri hugsanlega til sölu þótt hún væri það ekki formlega. Ég hafði sambandi við bóndann sem vildi í fyrstu ekki selja mér af því að hann væri ekkert að hætta. Síðan fórum við að ræða ættfræði og komumst að því að hann er náskyldur Guðrúnu og það kann að hafa ráðið úrslitum um að hann ákvað að selja okkur loksins. Og þetta var 1. maí 2015,“ segir Skúli.

Hann segist hafa verið uppalinn í sveit til rúmlega tvítugs þar sem blandaður búskapur var með kindur, kýr og hross. „Búskapurinn var í blóðinu okkar og við kunnum afskaplega vel við þetta líf og kýrnar. En kýrnar hafa alltaf kunnað mun betur við Guðrúnu en mig. Hún er svo natin við þær, enda horfa þær alltaf til hennar,“ segir Skúli.

Skylt efni: kjúklingabú

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...