Magnað Landsmót 2024
Landsmóti 2024 í Reykjavík er lokið, móti mikillar breiddar og mikilla gæða í hestakosti. Það má segja að Reykjavík hafi hljóðnað og hallað sér fram þegar kynbótahrossin voru sýnd, þvílíkur var styrkurinn í kynbótahrossum mótsins og klár staðfesting á þeim erfðaframförum sem við erum að upplifa í íslenskri hrossarækt.
Það voru 172 hross sem unnu sér þátttökurétt á mótinu og alls voru sýnd 166 hross af 44 knöpum. Ef fjöldi feðra sem stóð að baki þessum hrossum er skoðaður kemur í ljós að þeir voru 72, sem er drjúgur hópur. Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á mótinu, eða 16 talsins. Þá átti Draupnir frá Stuðlum 12 afkvæmi á mótinu, Álfaklettur frá Syðri- Gegnishólum, Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Þráinn frá Flagbjarnarholti áttu allir 10 afkvæmi. Þá átti Kveikur frá Stangarlæk 1 níu afkvæmi, þeir Skaginn frá Skipaskaga og Spuni frá Vesturkoti áttu sex afkvæmi, Ljósvaki frá Valstrýtu átti fjögur afkvæmi, Konsert frá Hofi, Skarpur frá Kýrholti og Kiljan frá Steinnesi áttu þrjú afkvæmi.
Einnig má segja að þetta hafi verið mót afkvæmahestanna. Margir af þeim hestum sem komu fram á Landsmóti í Reykjavík árið 2018 og stóðu þar í fremstu röð i einstaklingssýningum, komu fram á þessu móti til afkvæmasýninga og sýndu fram á ótvírætt gildi sitt til kynbóta. Var það afar ánægjulegt. Þetta eru þeir Álfaklettur frá Syðri- Gegnishólum, Þráinn frá Flagbjarnarholti og Adrían frá Garðshorni á Þelamörk. Þá var Kveikur frá Stangarlæk sýndur á mótinu árið 2018 og fékk einkunnina 10 fyrir tölt og var með góðan fjölda afkvæma á mótinu núna og einnig Draupnir frá Stuðlum sem átti næstflest afkvæmin á mótinu núna. Þá er gaman að geta þess að Eldjárn frá Skipaskaga stóð efstur í flokki fjögurra vetra stóðhesta á mótinu 2018 og var faðir hestsins sem stóð efstur núna í flokki fimm vetra stóðhesta, Hróks frá Skipaskaga.
Afkvæmasýningar stóðhesta voru afar skemmtilegar og eru í raun eitt verðmætasta sýningaratriðið í hrossaræktinni; að sjá hvernig hestgerð hestarnir eru að gefa og heildaryfirbragð þeirra. Þeir hestar sem hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á mótinu voru Álfaklettur frá Syðri- Gegnishólum sem stóð efstur og hlaut Sleipnisbikarinn, sem er æðsta viðurkenning i íslenskri hrossarækt. Þá var Skaginn frá Skipaskaga í öðru sæti, Hringur frá Gunnarsstöðum var í því þriðja og Kjerúlf frá Kollaleiru var í fjórða sæti. Alls voru sjö hestar sem hlutu fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á mótinu. Efstur var Þráinn frá Flagbjarnarholti og hlaut Orrabikarinn sem er veittur þeim hesti sem efstur stendur. Í öðru sæti var Adrían frá Garðshorni á Þelamörk, í þriðja sæti var Ísak frá Þjórsárbakka, í fjórða var Snillingur frá Íbishóli, í fimmta var Dagfari frá Álfhólum, í sjötta sæti var Lexus frá Vatnsleysu og í því sjöunda var Ljósvaki frá Valstrýtu.
Ef meðaltöl einkunna eru skoðuð sést hvað kynbótahrossin voru almennt vel gerð hvað sköpulag varðar en meðaleinkunn þeirra hrossa sem voru sýnd á mótinu var 8,42, sem er hreint magnað. Meðaleinkunn fyrir tölt var 8,65, sem er afar sterkt og margar listasýningar á tölti glöddu augað. Um 19% hrossa á mótinu voru sýnd sem klárhross með tölti. Þá má segja að staða skeiðsins sé afar sterk þessa dagana en alls voru hrossin 72 sem hlutu 8,5 fyrir skeið eða hærra. Þær systur Hildur frá Fákshólum og Væta frá Leirulæk hlutu einkunnina 10 fyrir skeið en þær eru undan Gnýpu frá Leirulæk, sem ber greinilega marga jákvæða erfðavísa fyrir skeiðgetu.
Landsmóti, afkvæmahestum mótsins og sýningarárinu í íslenskri hrossarækt verða gerð ítarlegri skil í blaðinu síðar.