Herbergjum fjölgað um 27 á Hótel Sögu
Nú stendur yfir lokafrágangur á breytingum á þriðju hæð í norðurálmu Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík. Þar er verið að búa til 27 ný gistiherbergi sem smíðuð eru inn í 1.000 fermetra fyrrverandi skrifstofurými.
Herbergin verða öll hin glæsilegustu og eftir breytingarnar eykst herbergjafjöldinn úr 209 í 236. Það er JÁVERK á Selfossi sem annast breytingar á hæðinni, en arkitekt er Ögmundur Skarphéðinsson hjá Hornsteinum arkitektum. Verkfræðiráðgjöf hefur verið í höndum VERKÍS.
Gert er ráð fyrir að herbergin verði tekin í notkun fyrri hluta júlímánaðar og liggur þegar fyrir fjöldi bókana. Framkvæmdatíminn við breytingarnar hefur verið mjög knappur, eða einungis um 6 mánuðir.
Elías Blöndal, framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf., sem er eigandi hótelbyggingarinnar, segir að framkvæmdir hafi gengið afar vel. Lögð sé mikil áhersla á að skipta við innlenda hönnuði og verktaka og eru allar innréttingar smíðaðar hér á landi. Þá var haft í huga að velja einungis vönduð efni við breytingarnar. Áhersla hefur einnig verið lögð á sjálfbærni, heiðarleika í viðskiptum og samfélagslega ábyrgð.
Þá er upprunaleg hönnun Hótel Sögu höfð til hliðsjónar. Meira að segja var leitað í smiðju Halldórs Jónssonar arkitekts, sem teiknaði fyrri áfanga Bændahallarinnar. Hann hannaði nefnilega stólana í bygginguna á sínum tíma og er sú hönnun nú notuð aftur og voru stólarnir að sjálfsögðu smíðaðir á Íslandi. Verða tveir slíkir í hverju herbergi.
Þá verða á herbergjunum myndir Lothar Grund úr upprunalega bæklingnum sem gerður var um Sögu. Hann gerði einnig stjörnumerkin sem eru í loftinu á Grillinu.
Skipt var um allt gler á hæðinni og var það unnið hjá Samverki glerverksmiðju á Hellu. Er glerið sérstaklega valið með orkusparnað og hljóðvist í huga. Fyrirhugað er að nota sams konar gler þegar gler í öðrum hlutum hótelsins verður endurnýjað.
Áhersla er lögð á heildarsvip hótelsins og gerð stefnumörkun um endurnýjun og viðhald á öðrum herbergjum. Haft hefur verið í huga tenging við söguna og landbúnað. Unnið hefur verið að margvíslegum öðrum verkefnum á hótelinu að undanförnu og fleira er á döfinni. Þar má t.d. nefna:
- Ný matstofa starfsmanna Bændahallarinnar á 2. hæð, sem tekin var í notkun í byrjun þessa árs.
- Endurnýjun gluggakerfis og annað viðhald utanhúss.
- Uppfærsla á öðrum hótelherbergjum.
- Hugmyndir um endurnýjun 1. hæðar.
- Hugmyndir um fleiri ný hótelherbergi.
- Endurnýjun innviða.