Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkraínu má enn finna vörur þess í matvöruverslunum.
Lög um matvæli tiltekur engar kröfur um hámarks endingartíma matvara. Standa skal að framleiðslu og dreifingu matvæla þannig að þau valdi ekki heilsutjóni né að blekkingum sé beitt í viðskiptum með þau. Ef grunur leikur á að ekki sé farið að ákvæðum lagareglna um matvælaöryggi og merkingar matvæla þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig.
Enn má sjá úkraínskan kjúkling í matvöruverslunum. Kjúklinginn má nálgast heilan frystan en einnig uppþíddan og úrbeinaðan í kryddlegi.
Síðasta sending af kjúklingi frá Úkraínu kom hingað til lands í maí árið 2023, fyrir meira en ári síðan. Kjúklingakjötið kom hingað til lands frosið. Ekki er tiltekið hvenær kjúklingnum var slátrað. Fram kemur á pakkningu frosna kjúklingsins að honum hafi verið pakkað 3. mars árið 2023 og síðasti söludagur tiltekinn þann 7. september næstkomandi.
Matvælafyrirtækin meta endingartíma
Löggjöf í kringum matvælaöryggi nær ekki utan um hámarksaldur fyrir búvörur. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er grundvöllurinn alltaf sá að matvæli þurfi að vera örugg og neysluhæf. Framleiðendur matvöru þurfa að merkja hann með „best fyrir“ dagsetningu út frá sínu mati á endingartíma.
„Allar dagsetningar eiga að miða við að vara sé örugg til neyslu og það er metið í hverju tilfelli af matvælafyrirtækjum,“ segir í svari við fyrirspurn um geymslutíma frystra búvara. Í svarinu kemur einnig fram að vissulega geti gæði vöru sem er frosin lengi minnkað, sérstaklega ef hitasveiflur verða á vörunni, en matvælalöggjöfin gangi nánast eingöngu út frá öryggi vöru.
„Löggjöfin setur engan beinan hámarkstíma á aldur/notkun. Framleiðendur (eins og sá sem framleiðir frosinn kjúkling) merkir hann með „best fyrir“ dagsetningu út frá sínu mati á endingartíma,“ segir í svari MAST við fyrirspurn.
Þurfa ekki að merkja kjötið sem þítt
Þegar matvæli hafa verið fryst fyrir sölu og eru seld þídd skal, samkvæmt merkingarreglugerð, heiti matvælanna fylgja tilgreiningin „þídd“. Hins vegar gildir sú krafa ekki um innihaldsefni í lokaafurð, matvæli þegar frysting er tæknilega nauðsynlegt skref í framleiðsluferli þeirra eða þegar þíðingin hefur ekki neikvæð áhrif á öryggi eða gæði þeirra. Krafan um að merkja kjöt þítt á því ekki við um kryddlegið kjúklingakjöt sem er uppþítt ári eftir innflutning.
Stendur ekki undir kostnaði
Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs hf. og formaður búgreinadeildar alifuglabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir að frystivara sem hraðfryst er fersk og heilnæm eigi að þola átján mánuði í frysti, að því gefnu að henni sé pakkað í umbúðir sem verja hana og hún geymd við réttar aðstæður.
„Eðlilegt er að slík vara sé markaðssett frosin og fari í eldun strax eftir uppþíðingu. Sé slík vara markaðssett uppþídd skerðast gæði og geymsluþol. Þá eiga neytendur rétt á að vita að svo sé ekki. Uppþídd vara er viðkvæm og það er ábyrgð þess sem framleiðir slíka vöru að sá líftími sem vörunni er gefinn standist.“
Hann segir harla ólíklegt að ársgamall uppþíddur íslenskur kjúklingur finnist á markaði enda eigi framleiðendur alla jafna ekki svo gamla vöru í birgðum sem eru í dreifingu.
Guðmundur furðar sig á því að enn sé í boði að kaupa svo gamla innflutta vöru. Hann tekur dæmi um frosinn kjúkling frá Úkraínu sem nýlega var auglýstur á stórtilboði hjá tiltekinni verslanakeðju.
„Það er greinilegt að salan er ekki að ganga sérlega vel þrátt fyrir að hún hafi ítrekað verið á brunaútsölu. Hún er nú á tilboði, „meðan birgðir endast“. Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi þetta endist en það sýnir okkur að íslenskir neytendur treysta þessari erlendu vöru ekki og sniðganga hana í búðum þótt verðið sé lágt.“
Hann bendir enn fremur á að innflytjendurnir séu ekki að fá mikið fyrir sinn snúð.
„Kostnaðarverð kjúklingsins var samkvæmt gögnum Hagstofunnar 403 kr/kg komið í höfn. Þá er eftir allur kostnaður við uppskipun, innanlandsflutning og geymslu. Verið er að bjóða meira en ársgamlan kjúkling hér á 494 kr/ kg, sem jafngildir 445 krónum án virðisaukaskatts. Ljóst er að 42 kr/kg stendur ekki undir kostnaði við geymslu í heilt ár, flutninga og annað. Því virðist þetta vera selt í örvæntingu undir kostnaðarverði. Ólíklegt þykir mér að menn myndu sætta sig við slíka álagningu á íslenskum kjúklingi,“ segir Guðmundur.