Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Eldgosið í Sundhnúksgígaröð þann 29. mars, um 40 mínútum eftir að gosið hófst.
Eldgosið í Sundhnúksgígaröð þann 29. mars, um 40 mínútum eftir að gosið hófst.
Mynd / Veðurstofa Íslands – Halldór Björnsson
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Höfundur: Páll Imsland, jarðfræðingur

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gangi í meira en þrjú ár og allt sem bendir til að þeir eigi eftir að ríkja með hléum a.m.k. næstu áratugina. Þegar hafa þessar hamfarir lamað Grindavík og ekki er fyrirséð hvenær líf og starf kemst þar aftur í eðlilegt horf, eða hvort það verður.

Mikið hefur verið gert í varnarmálum á svæðinu og mikil áhersla lögð á að allt sé gert í þeim málum sem mögulegt er. Tvenns konar aðgerðir standa upp úr, annars vegar beinar aðgerðir til varnar lífi og mannvirkjum, sem almannavarnakerfið stýrir, og hins vegar viðleitni til að skilja náttúruna í því augnamiði að auðvelda okkur að nýta hana sem allra mest áfallalaust, sem vísinda- og tæknifólk sér einkum um. Byggðir hafa verið garðar til varna og vatnskæling farið fram á rennandi hrauni og hefur hvort tveggja sýnt sig að virka vel á svæðinu og koma að gagni. Það ýtir undir bjartsýni og eykur von um að okkur muni takast að verjast vel og bera kannski einhvers konar sigur af hólmi.

Rannsóknir á náttúrunni eru nauðsynlegar til að afla þess skilnings og þeirrar reynslu sem nauðsynleg er sem undirstaða mannlífs og athafna í flókinni og mikilvirkri náttúru. Það hefur oft heyrst á náttúrufræðingum sem starfa á þessum vettvangi átakanna við náttúruna á Reykjanesskaganum, þeim verkfræðingum sem standa fyrir varnarframkvæmdum á svæðinu, framámönnum almannavarna í landinu, stjórnendum sveitarfélaga á Reykjanessvæðinu og stjórnmálamönnum, að allt verði að gera sem hægt er, sem getur aukið skilning okkar á þessari gerð atburða í náttúrunni og þar með virkni og árangri varnar- og viðbragðsaðgerða.

Ef til vill hefði verið best og ódýrast að yfirgefa Grindavík að fullu strax í upphafi atburða og láta náttúruna á svæðinu hafa sinn náttúrulega framgang, en það var ekki gert og hefur líklega í alvöru ekki hvarflað að nokkrum manni. Það er ekki eðli okkar að láta þannig undan án baráttu. Það er líka mikið í húfi sem mönnum líkar ekki að yfirgefa. Náttúra svæðisins bæði í sjó og á landi er of gefandi og dýrmæt til að yfirgefa hana þannig og láta ónýtta. Þetta á ekki bara við um Grindavík, heldur teygir hin ríka náttúra sig um Reykjanessvæðið allt.

Það er því ljóst að við munum halda baráttu gegn náttúruvánum á Reykjanesskaga áfram, bæði til varna og lærdóms, annað er ekki í blóði okkar.

Helstu varnaraðgerðir sem mögulegar eru gegn hraunflæði eru taldar vera þrennar: gerð varnarmannvirkja, garða og skurða, kæling á rennandi hrauni, einkum með því að sprauta á það vatni og bygging innri stíflu í rennandi hrauni með því að varpa sprengjum í hrauntauma og vakandi hrauntjarnir.

Garðabygging hefur sýnt sig að virka vel gegn hraunrennsli ef umrætt gos flytur heita þunnfljótandi kviku sem flæðir fram í fremur þunnum hrauntungum eins og flæðigos sem breiða út helluhraun yfirleitt gera. Ef þörf krefur má líka beita saman garðabyggingum og greftri skurða sem taka við hraunrennslinu. Þessar aðferðir eru framkvæmdar til þess að beina hraunrennsli í ákveðna farvegi brott frá því sem verja þarf og inn á svæði þar sem minna er í húfi. Þetta hefur verið reynt víða og er elsta dæmi um þessa viðleitni úr hlíðum Etnu fyrir nokkrum hundruðum ára. Í nágrenni Grindavíkur er góð reynsla af þessu og mikil vitneskja um efni og aðferðir er þegar komin fram og í gagnið á svæðinu.

Kæling hrauns er flókið mál og erfitt, ekki síst vegna þess hversu orkufrekt það er að dæla upp í móti. Þó hefur kæling verið við höfð á Reykjanesskaganum með árangri, þó í tiltölulega smáum stíl sé. Hins vegar var þessi aðferð notuð í Heimaeyjargosinu í stórum stíl og með miklum og góðum árangri. Þar var þó um allt annars konar hraunrennsli að ræða, kaldara og seigara hraun sem mjakaðist fram fremur en að renna. Þar voru einnig þær aðstæður að ekki þurfti að dæla sjónum neitt að ráði upp á við og auk þess ótakmarkaður aðgangur að kælisjó. Þar var unnið stórkostlegt verk á þessum vettvangi, en enn á eftir að vinna faglega og fræðilega úr þeirri reynslu sem þar aflaðist þannig að hún sé tiltæk og aðgengileg til eftirbreytni.

Þriðja aðferðin sem að ofan var minnst á, sprengingar í fljótandi hrauni, hefur lítið verið reynd og upplýsingar um virkni hennar eru ekki almennt tiltækar. Þessi aðferð byggist á því, að sé sprengjum kastað í fljótandi hraun tætist það og kólnar í leiðinni. Falli tætta efnið, sem kólnar og stífnar við tætinguna, aftur í sama farið, byggist upp í hrauntaumnum innri stífla, sem hindar greitt rennsli. Þessi einfalda hugmynd er sem sagt að mestu leyti óreynd enn og ekki mikið um gagnlegar upplýsingar um árangur. Líka má hugleiða þann möguleika að sprengja hraunjaðra þar sem hraun er að bunkast upp og byggja upp þrýsting. Með þessu má kannski í ákveðnum tilvikum létta á þrýstingi á óheppilegum stað og opna fyrir rennsli og hleypa hrauntaumi á heppilegra svæði.

Þetta er atriði sem við þurfum að snúa okkur að í næstu gosum á Reykjanesskaganum, að kanna áhrifin af sprengingum í hrauni, afla þekkingar og reynslu. Þetta er verkefni sem líklega myndi falla í hendur Landhelgisgæslunnar að framkvæma og nú verður að virkja hana til þessara verka í samvinnu við jarðvísindamenn og verkfræðinga þannig að við öðlumst reynslu og vitneskju um það hvort við getum í framtíðinni, bæði í restinni af Reykjaneseldum hinum nýju og í eldgosum í enn lengri framtíð, beitt þessari aðferð okkur til gagns.

Við höfum þegar sagt, að allt þurfi og eigi að gera sem hægt er til að öðlast skilnig á eðli eldvirkninnar og varnaraðferðum gegn henni. Við munum aldrei fyrirbyggja eldgos en við verðum að gera allt sem við getum til að geta lifað við þau í eins mikilli sátt og hægt er. Í þeirri sátt er fólgið að við verjumst og höldum þannig okkar hlut. Þessi tillaga mín um að við leggjum í þann kostnað og þá vinnu sem fólgin er í að gera sprengitilraunir í hraunálum og hraunvökum er sett hér fram í fullri alvöru og með þungri áherslu. Allt annað er kæruleysi. Boltinn er hjá yfirvöldum almannavarna í landinu, að sjá til þess að málið sofni ekki. Það er í raun furða að það skuli ekki þegar hafa komist á dagskrá og verið rætt opinberlega.

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...