Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Baunagras yfirtekur melgresi. Baunagrasið, eins og aðrar belgjurtir, bindur köfnunarefni og eykur þar með frjósemi jarðvegs.
Baunagras yfirtekur melgresi. Baunagrasið, eins og aðrar belgjurtir, bindur köfnunarefni og eykur þar með frjósemi jarðvegs.
Mynd / Magnús H. Jóhannesson
Fréttir 21. október 2015

Baunagrasið er vænlegur landgræðslukostur

Höfundur: smh
Árið 2003 hófst verkefni á vegum Landgræðslu ríkisins á nokkrum uppgræðslusvæðum, sem felst í tilraunum með þrjár tegundir belgjurta; baunagras, umfeðming og giljaflækju. Guðmundur Halldórsson rannsóknarstjóri og Magnús H. Jóhannsson sviðsstjóri fóru á dögunum að kanna árangurinn. Í ljós kom að þessar belgjurtir gefa góða raun, en gæta þarf að beit á þessum svæðum þar sem búfé þykir þykja þessar tegundir einstaklega eftirsóknarverðar.
 
Guðmundur segir að Landgræðslan hafi frá því um 1990 notað belgjurtir í landgræðslu í verulegum mæli, nánast eingöngu lúpínu. 
 
Guðmundur Halldórsson skoðar fallega birkiplöntu.
„Gróðursnautt land á Íslandi er afar snautt af nitri sem er ein helsta hindrunin fyrir því að land grói upp. Smávegis af nitri fellur til með úrkomu og dálítið er bundið af örverum í jarðvegi og jarðvegsskán. Þetta gæti verið á bilinu eitt til fimm kíló af nitri hverni hektara á ári. Nýlegar rannsóknir á vistkerfum lands, sem er að koma undan jökli, sýna að það taki þrjú til fimm hundruð ár að byggja upp eðlilegan niturforða jarðvegs. Þörfin fyrir nitur er því mikil í íslenskum jarðvegi. Það er varla til sá gróðurblettur á landinu sem ekki bregst við áburðargjöf með nitri með jákvæðum hætti,“ segir Guðmundur.
 
Belgjurtirnar eru gagnlegar að mörgu leyti
 
„Fosfór er að sama skapi mikilvægur en gerir gróðri lítið nema að nitur fylgi með. Þær eru því mikilvægar belgjurtirnar, sem með aðstoð örvera á rótum þeirra binda nitur úr andrúmslofti. Nóg er til af því, enda er andrúmsloft um 78 prósent hreinn nitur. Alaskalúpína er án efa best þekkta belgjurtin hér á landi sem notuð hefur verið til uppgræðslu á undanförnum áratugum. Frærækt af henni hófst í stórum stíl árið 1988 og hefur staðið óslitið síðan. Henni hefur verið sáð víða um land bæði af Landgræðslu ríkisins, öðrum stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum. Þekja lúpínusáninga sem Landgræðslan hefur staðið fyrir er nú um 18 þúsund hektarar. En fleira er matur en feitt kjöt – og það eru til fleiri tegundir belgjurta en alaskalúpína; hvítsmári, fuglaertur, umfeðmingur, giljaflækja og baunagras eru belgjurtir sem finnast um allt land og verðskulda meiri athygli,“ segir Magnús.
 
Baunagrasið vænlegur kostur
 
Sem fyrr segir voru settar út tilraunir á vegum Landgræðslunnar árin 2003 og 2004, þar sem prófaðar voru umfeðmingur, giljaflækja og baunagras við mismunandi aðstæður á uppgræðslusvæðum. „Mælingar nú í haust sýndu að lifun var góð. Hvorki umfeðmingur né giljaflækja breiddu mikið úr sér, en baunagras kom talsvert á óvart. Að meðaltali hafði hver baunagrasplanta dreift sér um 5 fermetra svæði. Þessar plöntur henta ekki til heilsáninga í ógróið land, líkt og lúpínan, en markviss gróðursetning á þeim í nýuppgrætt land eða land þar sem þarf að styrkja gróður gæti verið vænlegur kostur til að auðga landið nitri og stuðla að frekari gróðurframvindu. Þeirri aðferð hefur raunar verið beitt í Þórsmörk, þar sem hvítsmári hefur verið gróðursettur í rýrt land með góðum árangri. Allar þessar plöntur eru viðkvæmar fyrir beit og því þarf nýting þeirra að vera samfara beitarstýringu. Fyrir landgræðslustarfið í heild eru belgjurtir og rannsóknir á belgjurtum mikilvægar. Áburðarkostnaður er mikill og plöntur sem auðga vistkerfi að nitri og auðvelda aðgang að fosfór eru því mikilvægar,“ segir Magnús.
 
Spurður um stöðu landgræðslu á Íslandi almennt segir Guðmundur að á landinu séu 350 skilgreind landgræðslusvæði, mjög misstór. Það stærsta, Hólsfjöll; sé yfir 100 þúsund hektarar.. Svæði þar sem um er að ræða uppgræðslur með áburðargjöf einvörðungu eða áburðargöf og sáningu landgræðsluplantna eru um 200 þúsund hektarar. Þar af eru aðgerðir innan verkefnisins Bændur Græða Landið um 30 þúsund hektarar. Síðan eru um 150 þúsund hektarar sem hafa gróið upp í kjölfar beitarfriðunar án þess að gripið hafi verið til annarra aðgerða. Þar fyrir utan eru mjög stór svæði þar sem aðgerða er þörf en þær ekki hafnar eða hafa skilað litlum árangri. Undanfarin ár hefur Landgræðslan grætt upp fjögur til fimm þúsund hektara  á ári, mest í samstarfi við verkefnið Bændur Græða Landið. Þetta er mikill samdráttur frá því sem var á árunum í kring um 2000, enda hafa fjárframlög til stofnunarinnar ekki haldist í hendur við aukinn kostnað.“
 
Mikill árangur náðst á rúmlega 100 ára tímabili
 
„Sé litið til vel hundrað ára sögu landgræðslu hefur mikill árangur náðst. Á Rangárvöllum mátti heita að samfelldur uppblástursgeiri næði allt frá sjó norður í Sprengisand; þorp eins og Þorlákshöfn, Kópasker, Sandgerði og Vík í Mýrdal voru í verulegri hættu vegna ágangs sands og vegurinn yfir Mýrdalssand lokaðist í um 20 daga á ári sökum sandfoks. Þetta heyrir sögunni til. Nú nýverið hefur landgræðslan lokið við að taka saman yfirlit um svæði þar sem þarf að grípa til landgræðsluaðgerða og eru þau vítt og breitt um landið,“ segir Guðmundur um það sem hefur áunnist á vegum Landgræðslunnar. „Mestu vandamálin eru hinsvegar nú sem fyrr eldgosabeltið. Þar er jarðvegur víða mjög illa farinn eða horfinn með öllu og þar er enn langt í land að fullnægjandi árangur hafi náðst. Þar er einnig yfirvofandi hætta af öskufalli sem gæti riðið veikri gróðurþekju að fullu og þar með sé ekkert sem bindur öskuna. Mesti skaðinn er yfirleitt ekki sjálft öskufallið, heldur rof af völdum ösku sem gróður nær ekki að binda,“ segir Guðmundur. 
 
Melgresi, túnvingull og lúpína öflugastar landgræðsluplantna
 
Öflugustu landgræðsluplönturnar eru að sögn Guðmundar melgresi, túnvingull og lúpína. Einnig er nokkuð notað af vallarsveifgrasi sem er sáð í blöndu með túnvingli. Helsta landgræðsluaðgerðin er hinsvegar að dreifa áburði án nokkurrar sáninga, „heimaplönturnar“ sjá svo um að græða upp landið, svo eiginlega má segja að það séu þær plöntur sem eru mikilvirkustu landgræðsluplönturnar. Þar sem sáð er í landið er mest notað af túnvingli í blöndu með vallarsveifgrasi í  hlutföllunum 70 á móti 30. Ef um er að ræða foksand er hinsvegar melgresi langduglegasta landgræðslutegundin. Lúpínan hefur reynst vera mjög dugleg landgræðsluplanta en hefur sína ókosti.“

Skylt efni: Landgræðsla | belgjurtir

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...