Þann 22. ágúst 2022 voru kartöflugrös fallin í flestum landshlutum en ekki í Nesjum.
Þann 22. ágúst 2022 voru kartöflugrös fallin í flestum landshlutum en ekki í Nesjum.
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Höfundur: Ingileif Steinunn Kristjánsdóttir, doktor í landbúnaðarvísindum frá SLU.

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tuberosum (jurtin af náttskuggaættinni sem ber hnýði). Þessa ofurfæðu sem hægt er að lifa algjörlega á ef smá salt og smjör er fyrir hendi.

Kartaflan er náskyld tómataplöntunni og á hana kom ber sem hún sáir sér með í heimkynnum sínum.

Kartöflufræ gefa þá oft æði mislita uppskeru með kartöfluhnúða í öllum regnbogans litum stærðum og lögunum. Þegar talað er um afbrigði kartöflunnar er átt við framræktaða klóna sem erfðafræðilega eru allir eins.

Uppruni kartöflunnar er í Vesturheimi, það er í Suður- Ameríku þar sem Inkar höfðu lengi ræktað hana og enginn mátti borða dökkar fjólubláar kartöflur nema Inkaeinvaldurinn einn.

Kartöflurnar berast síðan yfir hafið til Evrópu með landafundunum miklu, fyrst til Spánar og Portúgals, þar sem hún var í fyrstu eingöngu sjaldfengið hnossgæti á konungsborðum. Og enginn þótti raunverulega aðalsborinn nema hann ætti pípukraga stífaðan með kartöflusterkju. Fljótlega liggur síðan leið hennar upp eftir álfunni. Menn voru víða að prófa sig áfram og gekk misvel. Árið 1743 er kartöflurækt komin á fulla ferð í Danmörku, en þangað barst hún með Húgenottum.

Vísi-Gísli Magnússon byrjar að gera tilraunir með ræktun á jarðeplum í Skálholti undir verndarvæng biskupsfrúarinnar dóttur sinnar um 1683.

Eggert og Bjarni sem fara um landið 1752 lýsa tilraunum með ræktun jarðepla á nokkrum stöðum, aðallega á Suðurlandi þar sem menn eru að prófa sig áfram með misjöfnum árangri í kálgörðum sínum, sem hér höfðu verið við lýði frá landnámi. Þeir geta ekki um jarðeplarækt í A-Skaft. En furða sig á því hvað kálgarðar eru hér vöxtulegir í nágrenni jöklanna.

Þetta er tímabil upplýsingarinnar og Danska landbúnaðarfélagið reynir að auka garðrækt meðal Íslendinga og sendir hingað bæði fræ og leiðbeiningarit. Ásamt því að tilskipun kemur frá danska kónginum um að garðrækt skuli stunda á stærstu býlum að viðlögðum sektum. Sr. Birni í Sauðlauksdal áskotnast hluti af sendingum landbúnaðarfélagsins og þann 28. september 1758 gefur hann út fyrstu leiðbeiningar um kartöflurækt á Íslandi, á íslensku. Á þessum tíma upplýsingar og innréttinga fer verstöðin Seyðisfjörður að rétta úr kútnum og þangað flytja nokkrir verkkunnandi menn, m.a. sænski beykirinn Peter Malmquist.

En þetta tímabil upplýsingarinnar stóð ekki lengi því 1783 byrja Skaftáreldar og Móðuharðindin fylgja í kjölfarið, þegar landsmönnum fækkaði niður fyrir 40.000.

Um 1800 fer aðeins að rétta úr kútnum aftur er varðar garðamat og eru kálgarðar taldir 293 á landinu öllu 1802. Ber þar hæst að nefna Garða og Bessastaði á Álftanesi, hjá Birni lyfsala í Nesi og Scheel fangaverði í Reykjavík og hjá Lever kaupmanni á Akureyri sem reisti þar myndarlegan hlaðinn kartöflugarð. Á næstu 30 árum tífaldast fjöldi matjurtagarða og jarðeplarækt fór að þykja til búdrýginda. Menn fóru að ná tökum á ræktuninni, forspírun, áburðargjöf o.fl. Þessi þekking breiddist út um allt landið og það fór að þykja fengur að komast yfir kartöflur til að stinga í jörðina. Oft voru þær keyptar af skútusjómönnum eða jafnvel komu úr strandi. Þetta leiddi til þess að mörg mismunandi yrki/afbrigði voru ræktuð víðs vegar um landið. Fyrstu heimildir um jarðeplarækt í Öræfum eru frá 1828 frá Hofi og höfðu þær kartöflur að öllum líkindum fengist úr strandi. Ein þeirra fyrstu til að setja niður jarðepli í Lóni var að líkindum Valgerður Ólafsdóttir, húsfreyja í Hlíð, strax fyrir 1850. Um 1880 eru það stórir matjurtagarðar í Dilksnesi að til þess er tekið. Nú fara búnaðarskólarnir að koma. Sá fyrsti í Ólafsdal 1880 og síðan Búnaðarskólinn á Eiðum 1883. Í þann skóla fer ungur maður af Berufjarðarströnd, Jón Jónsson Malmquist að nafni, um 1915. Á heimaslóðum hans keyptu menn oft kartöflur af frönskum duggurum og einstöku afbrigði reyndust betur en önnur og voru þá framræktuð og sum breiddust út. Var þetta lenska víða um land á 19. öld. Þannig að í lok aldarinnar eru þrjú afbrigði orðin þekkt um allt land. Gullauga uppskerumest, rauðar íslenskar sem þóttu bestar með saltfiskinum og bláar sem geymdust best fram á vorið, voru fremur uppskerurýrar. Þær bláu voru þó ræktar frá Ísafirði suður um allt land að Berufjarðarströnd.

Að námi loknu ræður Jón Malmquist sig suður í Nes í Hornafirði sem farkennari. Þar hittir hann síðan verðandi lífsförunaut sinn, heimasætuna í Hoffelli, Halldóru Guðmundsdóttur. Árið 1920 fæðist fyrsta barnið og það ár er sáð í 5 ha af korni á Hoffelli og allmargar 100 kg tunnur af jarðeplum fást um haustið. Í Hoffelli gekk ræktun unga búfræðingsins með ágætum og árið 1934 varð hann fyrstur til þess bæði að leggja inn kartöflur í kaupfélaginu og senda suður til sölu, þótt Hákon Finnsson á Borgum fylgdi þar fast á hæla honum. Þetta var í miðri kreppunni en eftirspurn var eftir þessari vöru og fékkst lengi sauðarverð fyrir 2 tunnur af jarðeplum.

Í Morgunblaðinu í mars 1937 er að finna auglýsingu, þar sem auglýstar eru kartöflur úr Hornafirði, þaðan sem kartöflusýkin hafði ekki borist. Sá ábati sem kartöfluræktin gaf á þessum tíma gerði Jóni kleift að kaupa 100 ha úr landi Árnaness og stofna nýbýlið Akurnes. Fleiri fylgdu í kjölfarið með kartöfluræktina og á flestum bæjum þótti gott að geta komið með slíkt innlegg í kaupfélagið. Varð þetta til þess að kartöfluhús kaupfélagsins er byggt 1950, þar sem núna er veitingastaðurinn Hafið.

Í Akurnesi er enn í dag rekið kartöflubú til mikillar fyrirmyndar af afkomendum Jóns, sonum og sonarsyni. Árið 1955 byggir ráðunauturinn Egill, sonur Jóns, nýbýlið Seljavelli í nágrenni Akurness. Hefur hann haldið áfram á sömu braut og frændgarður hans í Akurnesi og rekið þar mikið myndarbú, ekki síst með áherslu á kartöflu- og nautgriparækt. Ekki má heldur gleyma Miðskeri, sem skv. mínum heimildum er 3. stærsta kartöflubú í Hornafirði. En þar bjuggu afkomendur Jóns Malmquist um langa hríð. Þegar Sævar heitinn og Bjarney taka við auka þau enn á kartöfluræktina og heppnaðist vel að hafa hana með svínaræktinni, sem þá styrktu hvor aðra.

En alveg eins og þeir Eggert og Bjarni sem fara um landið 1752 furða margir sig á því hvað kálgarðar eru hér vöxtulegir í nágrenni jöklanna. Þá má segja að skilyrði til kartöfluræktunar séu hér hvað best á landinu, þar sem tiltölulega hlýtt er hér og frost koma hér oftast seinna á haustin en í öðrum landshlutum. Helsti vágesturinn var á árum áður kartöflumyglan, sem unir sér best í fremur röku og hlýju lofti. En nú í dag ráða menn við hana.

Í ár, þegar 90 ár eru liðin síðan bóndi lagði fyrst fyrir sig sölu á kartöflum hér úr Hornafirði, á, í mínum huga, þessi ræktun hér, vissulega framtíðina fyrir sér, með þeim dugnaði, þrautseigju og útsjónarsemi hornfirskra bænda sem hér hafa haft aðkomu að.

Helstu heimildir: Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu, Blálandsdrottingin eftir Hildi Hákonardóttur og Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...