Hestamenn rífa upp stemninguna
Uppskeruhátíð hestamanna hefur verið haldin árlega af Lands- sambandi hestamannafélaga (LH) og Félagi hrossabænda.
Þátttaka hefur verið dræm síðastliðin ár en nú stendur til að rífa upp stemninguna.
Til margra ára voru uppskeruhátíðir hestamanna haldnar við góðar undirtektir í glæsilegum veislusal Hótel Broadway en eftir að staðnum var breytt hefur uppskeruhátíðin verið á hálfgerðum hrakhólum. Til nokkurra ára var hátíðin haldin í veislusal Gullhamra en ekki hefur náðst að búa til sambærilega stemningu þar líkt og áður var.
Á uppskeruhátíðum hafa hesta- menn komið saman og glaðst ásamt því að þeir knapar og hrossaræktarbú sem skarað hafa fram úr á árinu hafa verið veittar viðurkenningar fyrir glæstan árangur.
Skipulagning uppskeruhátíðar hestamanna er hafin og fyrir undirbúningsnefnd fer Edda Rún Ragnarsdóttir, stjórnarmaður LH. „Uppskeruhátíð hestamanna fer fram 18. nóvember í Gamla bíói. Snillingarnir Jógvan og Friðrik Ómar munu veislustýra og þeir hafa lofað að það verði mikið hlegið. Ásamt því munum við bjóða upp á þriggja rétta kvöldverð. Svo mun Sigga Beinteins trylla lýðinn ásamt DJ Atla sem skemmtir fram á kvöld.“
Edda segir að stefnan sé að færa hátíðina í nýjan búning en þó að halda í gömlu góðu hefðirnar sem hafa skapast. „Okkur langar að koma uppskeruhátíð hestamanna á þann stall sem áður var, það mun örugglega taka smá tíma, en við vonum innilega að hestamenn séu til í þetta verkefni með okkur. Það væri gaman að sameinast og gleðjast yfir góðum árangri okkar hestamanna á liðnu tímabili.“
Verðlaun hátíðarinnar í ár verða stórglæsileg, sérhönnuð af Inga í Sign. Miðaverði er stillt í hóf og er miðasala hafin á lhhestar.is.