Húllumhæ á áttræðisafmælinu
Árið 1944 var Leikfélag Blönduóss formlega stofnað og starfaði nánast óslitið fram að aldamótum og sýningar settar upp með jöfnu millibili.
Nú, 2024, fagnar það áttatíu ára afmæli sínu og er ætlunin að halda veislu þann 2. nóvember næstkomandi í félagsheimilinu á Blönduósi sem hefur hýst leikfélagið um árabil.
Blómlegt leikstarf einkenndi Blönduós fyrr á tímum og áhugavert er að segja frá því að árið 1897 var fyrsta leiksýningin sett upp þar í bæ. Bar sú heitið „Kómedía“, og voru flytjendur liðsmenn „Leikfimifélags Blönduóss“. Í samtali við Evu Guðbjartsdóttur formann kemur fram að hana langi að endurvekja þennan kraft samfélagsins, en í fyrra var fjölskyldusýningin Dýrið og Blíða á fjölunum, sú fyrsta í níu ár.
„Lengi vel var frumsýnt annað hvert ár, þá í kringum páskana eða sumardaginn fyrsta, en síðastliðin ár hefur því miður dregið úr virkni félagsins. Gaman væri að fjölga meðlimum leikfélagsins svo og fólki sem hefur áhuga á að vinna bak við tjöldin – allir sem áhuga hafa eru því hér með boðnir velkomnir.“
Eva segir að þó ekki séu sýningar ár hvert sé ýmislegt brasað. Nú á næstu mánuðum er í bígerð að setja upp hæfileikakeppni, North-West got Talent, sem verður byggð á hinum vinsælu þáttum Britain‘s got Talent og fleiri slíkum. Íbúar Norðvesturlands mega því fara að hlakka til eða jafnvel undirbúa atriði.
Mikill undirbúningur er vegna stórafmælisins enda ýmislegt skemmtilegt í gangi og svo auðvitað kaffi og afmælisterta í boði.