Karíus & Baktus
Freyvangsleikhús þeirra Eyfirðinga hefur sjaldan legið á liði sínu er kemur að hressilegum sýningum.
Nú hafa þeir liðsmenn tekið upp á arma sína ævintýrið sígilda um þá félaga Karíus og Baktus eftir Torbjörn Egner, sem einnig er frægur fyrir verk á borð við Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi. Var sagan um tannálfana litlu sú fyrsta er höfundurinn gaf út, árið 1949, þá með hans eigin myndskreytingum.
Burstaðu í þér tennurnar ...
Segir sagan frá drengnum Jens sem verður fyrir þeirri ógæfu að fá holur í tennur sínar. Þar búa nefnilega litlar verur, þær Karíus og Baktus, sem una sér þar hið besta, bora í tennurnar og hamra hátt auk þess að hafa þar búsetu.
Jens barmar sér og kveinkar og heyrum við mömmu hans hvetja hann til þess að bursta í sér tennurnar. Kannast margir af eldri kynslóðinni við setninguna margfrægu; „BURSTAÐU Í ÞÉR TENNURNAR JENS“ – enda hefur sagan lifað nú í heil 73 ár.
Í gegnum tíðina hafa komið út hljómplata, kasetta og geisladiskur með sögunni enda hafa þessir litlu prakkarar notið mikilla vinsælda víða um heiminn.
Í leikhúsi Freyvangs eru leikararnir alls þrír talsins; Karíus, Baktus og sögumaðurinn. Karíus í höndum Orms Guðjónssonar, Baktus er Eyþór Daði Eyþórsson og sögumaður Jón Friðrik Benónýsson.
Hjá sögumanninum á sviðinu er líka píanóleikarinn Reynir Schiöth.
Formaður Leikfélags Freyvangs, Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, stýrir svo verkinu með glæsibrag en frumsýnt verður föstudaginn 26. nóvember.