Matargerð og menning skiptir máli við val ferðamanna á áfangastað
„Það hefur verið hugmynd um töluverðan tíma að koma upp matarstíg hér um slóðir og ánægjulegt að hann er nú orðinn að veruleika. Það er mikil framleiðsla á matvöru á svæðinu og full ástæða til að benda bæði ferðamönnum og heimafólki á hvað sé í boði. Matargerð og menning skiptir yfirleitt miklu máli við val ferðamanna á áfangastað og því er kjörið að vekja athygli á svæðinu með þessum hætti,“ segir Úlla Árdal, markaðs- og þróunarstjóri hjá Mývatnsstofu.
Stofan kynnti nýverið verkefnið Taste Mývatn, matarstíg sem beinir sjónum að framleiðslu og framboði á matvöru í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi ásamt því að hampa gömlum hefðum og standa þannig vörð um matarmenningu svæðisins.
Hjólin fóru að sögn Úllu að snúast þegar styrkur fékkst eftir áramót úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.
„Við vorum með skýra sýn, keyrðum verkefnið strax í gang og stefndum á að vera tilbúin með heimasíðu fyrir sumarið. Það gekk eftir, vefsíðan Tastemyvatn.is er komin í loftið,“ segir Úlla. Þar er sagt frá framleiðendum á svæðinu, hvar hægt er að nálgast vörur þeirra og hvaða veitingastaðir og verslanir bjóða upp á þær.
Hún segir að þó nokkrir hafi vottuð vinnslurými heima á sínum býlum og að Taste Mývatn gæti vonandi orðið til þess að fleiri sjái tækifæri í því að prufa sig áfram í að fullvinna sínar afurðir. Matarskemman á Laugum í Reykjadal býður einnig upp á góða og vottaða aðstöðu sem er öllum opin og margir nýta sér.
Leitum flest eftir staðbundnum matvælum
Á vefsíðunni er einnig sagt frá veitingastöðum sem bjóða upp á hráefni úr nærumhverfi og greinir frá hvaðan það kemur.
„Okkur langar að gera þessi tengsl milli framleiðenda og veitingastaða greinilegri og tilgreina nákvæmlega hvaðan kjötið, fiskurinn og grænmetið kemur, í þeim tilfellum sem það er mögulegt,“ segir Úlla.
„Við leitum flest eftir staðbundnum matvælum og það er mikilvægt að hafa gagnsæi og gera fólki ljóst hver uppruni hráefnanna er. Veitingastaðir hér um slóðir gera mikið af því að kaupa hráefni úr nærumhverfi og við vonumst til þess að matarstígurinn geti orðið fólki hvatning til að gera enn betur og styrkja þannig enn frekar við uppbyggingu hringrásarhagkerfis.“
16 veitingastaðir með og 10 framleiðendur
Úlla segir að Mývatnsstofa finni ekki fyrir öðru en jákvæðni og áhuga gagnvart verkefninu. Nú þegar séu 16 veitingastaðir og 10 framleiðendur með á heimasíðunni, „og við sjáum fram á að þeim fjölgi hægt og rólega eftir því sem fleiri prufa sig áfram í eigin framleiðslu,“ segir hún.
Í tengslum við matarstíginn er stefnt að því að halda nokkra bændamarkaði á ári og verða þeir hér og þar á svæðinu. Sá fyrsti var í Dimmuborgum í lok maí og gekk vonum framar að sögn Úllu.
Gamlar matarhefðir í heiðrum hafðar
Bendir hún á að gamlar matarhefðir svæðisins séu einnig í heiðri hafðar innan matarstígsins, enda Íslendingar almennt stoltir af sínum uppruna. Ferðamenn sækist líka eftir því að prófa „ekta“ íslenskan mat.
„Við þekkjum það líka sjálf þegar við ferðumst erlendis að vilja smakka eitthvað sem tengir okkur betur við landið og menningu þess,“ segir hún. Íslenskar matarhefðir einkenndust í fyrri tíð af neyslu dýraafurða og sérkennilegum geymsluaðferðum og þar segir Úlla að Þingeyingar séu engin undantekning.
Svæðið hefur ýmsa sérstöðu
Landbúnaður er mikilvægur á svæðinu og íbúar eru þekktir fyrir afbragðs reykingu, hvort heldur er á fiski eða kjöti. Þá má nefna að töluverð grænmetisræktun er í héraðinu og á Hveravöllum í Norðurþingi er jarðhiti nýttur til að rækta grænmeti í gróðurhúsum. „Svæðið hefur ýmsa sérstöðu þegar kemur að mat, það má nefna hverabakaða rúgbrauðið, reykta silunginn og bárðdælska grasölið.
Ég er nokkuð viss um að margir eru áhugasamir um að sjá hvernig silungur er taðreyktur í torfkofum eða hvernig jarðhiti er nýttur til að baka rúgbrauð. Það eru því mörg tækifæri til að sækja fram og við vonumst til að framleiðendur eða einhverjir áhugasamir sjái sér hag í að bjóða upp á matartengdar upplifanir sem gæti þá orðið viðbót við Taste Mývatn,“ segir Úlla.
Vonast til að þróa matarstíginn áfram
Hún nefnir að til að byrja með snúist verkefnið um upplýsingasíðuna, en vonast sé til að í framhaldinu verði hægt að þróa stíginn áfram í samvinnu við veitingastaði þar sem hver og einn gæti boðið upp á einn sérstakan „Taste Mývatn rétt“ sem byggði á gömlu hefðunum og væri eldaður úr staðbundnu hráefni.
„Á þann hátt gæti Taste Mývatn leitt gesti um einstakar matarhefðir um leið og ferðalangar skoða stórbrotna náttúru svæðisins. Það má líka nútímavæða og breyta réttum, prófa eitthvað nýtt,“ segir hún og nefnir sem dæmi réttinn Mýfluguna hjá Daddi’s pizza í Mývatnssveit en hún er með reyktum silungi, furuhnetum og rjómaosti.
„Ég er ekki viss um að það yrði biðröð í kæst egg enda breytast tímarnir og mennirnir með en samt veit maður aldrei.“