Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Lokaverkefni skrúðgarðyrkjunemanna Jóhanns Böðvars Skúlasonar, Einars Arnar Jónssonar og Kristínar Snorradóttur við Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands var að setja upp matjurtagarð í Viðey í anda garðs Skúla Magnússonar frá 1753.   Mynd / Ágústa Er
Lokaverkefni skrúðgarðyrkjunemanna Jóhanns Böðvars Skúlasonar, Einars Arnar Jónssonar og Kristínar Snorradóttur við Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands var að setja upp matjurtagarð í Viðey í anda garðs Skúla Magnússonar frá 1753. Mynd / Ágústa Er
Líf og starf 13. júní 2018

Matjurtagarður í anda Skúla fógeta

Höfundur: Vilmundur Hansen

Þrír lokaársnemar í skrúð­garðyrkju við Garðyrkju­skóla Landbúnaðar­háskóla Íslands unnu í vor að gerð matjurtagarðs í Viðey í samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur. Garðurinn er í anda matjurtagarðs Skúla Magnússonar landfógeta, sem var frumkvöðull og hvatamaður matjurtaræktunar á Íslandi.

Um miðja 18. öld urðu tímamót í sögu Íslands með tilraunum til að reisa við og nútímavæða atvinnuvegi þjóðarinnar. Á tímabilinu sem kennt er við Innréttingarnar var reynt við ullarvinnslu, veiðarfæragerð, útgerð og vinnslu á brennisteini. Auk þess sem stundaðar voru jarðræktartilraunir.

Skúli Magnússon landfógeti var helsti boðberi upplýsingarinnar hér á landi og helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna. Skúli hafði aðsetur í Viðey eftir að hann tók við stöðu landfógeta og reyndi fyrir sér með ræktun ýmissa matjurta.

Flytja þurftir mikið af ræktunarmold, timbri, grisjunarviði og verkfærum út í Viðey til þess að hægt væri að búa garðinn til.   Mynd / Einar Örn Jónsson.

Garður í anda garðs Skúla

Lokaverkefni skrúðgarðyrkju­nemanna Einars Arnar Jónssonar, Kristínar Snorradóttur og Jóhanns Böðvars Skúlasonar við Garðyrkjuskóla Landbúnaðar­háskóla Íslands var að setja upp matjurtagarð í Viðey í anda garðs Skúla Magnússonar. Verkefnið er unnið í samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur. Helga Maureen Gylfadóttir, starfsmaður safnsins, átti hugmyndina en tengiliður við safnið var Guðmundur D. Hermannsson, verkefnastjóri Viðeyjar.

Garðurinn er annars vegar hugsaður til að heiðra minningu frumkvöðlastarfs Skúla og halda á lofti þeim gróðurtilraunum sem hann stóð fyrir og á garðurinn í framtíðinni að vera hluti af sýningunni sem tengist Viðeyjarstofu.

Einar segir að ekki sé vitað með vissu hvernig garður Skúla leit út í raun eða hvaða efnivið hann notaði í garðinn og því hafi verið notaður nútíma efniviður í hann, borð í karma og akríldúkur til að skýla plöntunum. „Við vitum aftur á móti hvað hann ræktaði vegna þess að það liggur eftir hann plöntulisti og við miðuðum okkar plöntuval við þann lista.

Listi Skúla er ekki endanlegur en við vitum að hann ræktaði talsvert af kartöflum, sjö mismunandi tegundir af káli, tvær tegundir af radísum, rófur,  kryddjurtir og tóbak. Kúmen, sem nú vex villt í eyjunni, er einnig frá Skúla komið og í eyjunni er örnefnið Tóbakslaut sem ber bjartsýni landfógetans gott vitni og talið að hann hafi ræktað tóbaksjurtina þar.

Við fylgjum listanum lauslega og þar sem ekki er vitað hvaða yrki Skúli var að reyna ræktum við nútímasortir og við ræktum þrjár tegundir af káli en ekki sjö.“

Efni og verkfæri voru flutt sjóleiðina með pramma út í eyjuna.   Mynd / Einar Örn Jónsson.

 

Hugmyndin komin frá Borgarsögusafninu

 

„Hugmyndin að gerð garðsins kom frá Borgarsögusafni og er í anda hugmyndar þar sem nemar í skrúðgarðyrkju við Garðyrkjuskólann settu upp sögugarð á Árbæjarsafninu fyrir nokkrum árum.
Borgarsögusafnið greiddi fyrir aðföng og það efni sem þurfti til að gera garðinn og flutning þess út í Viðey en við hönnuðum garðinn og lögðum til vinnuna við gerð hans sem nemendaverkefni.

Við þurftum að flytja talsvert af efni út í Viðey vegna garðsins. Mig minnir að það hafi verið átta stórir sekkir af mold auk smíðatimburs og það tók meiri tíma en við höfðum ætlað í upphafi. Í stíga og undir ræktunarkarmana notuðum við fjörugrjót sem þurfti að sortera talsvert til að fá réttar stærðir.

Við hönnun garðsins höfðum við lækningajurtagarðinn á Seltjarnarnesi til hliðsjónar og hugmyndir manna um það hvernig garðar litu út um miðja átjándu öld. Upphaflega stóð til að framlengja mön sem er ekki langt frá garðinum og nota hana sem skjólgjafa en það reyndist ekki gerlegt þar sem erfitt er að komast í gott jarðefni í eynni án þess að valda óþarfa raski.

Matjurtagarðurinn sem kenndur er við Skúla Magnússon, landfógeta í Viðey. Matjurtagarðurinn sem kenndur er við Skúla Magnússon, landfógeta í Viðey.    Mynd / Einar Örn Jónsson.

Í staðinn kom upp sú hugmynd að byggja skjólgrindur úr trjágreinum og stofnum sem féllu til við grisjun garða og átti Kristín heiður að endanlegri útfærslu og gerð hennar. Grindurnar eru þannig gerðar að reknir eru niður staurar hlið við hlið og greinar lagðar á milli þeirra og girðingin var ekki fyrr komin upp en hún sannaði ágæti sitt í vestanhríð sem skall á.

Okkar aðkoma að garðinum er lokið sem slíkri nema hvað við gerðum umhirðuáætlun fyrir safnið til að auðvelda starfsfólki þess framhaldið.“

Frumkvöðull og forgöngumaður

„Auk þess sem vinnan við gerð garðsins var skemmtileg var ekki síður áhugavert að kynna sér hvað Skúli var að gera í tengslum við matjurtarækt fyrir rúmum 260 árum.

Skúli var helsti hvatamaður þeirrar matjurtaræktarbylgju sem fór af stað með tilkomu Innréttingarinnar. Hann hóf ræktun á matjurtum í Viðey 1753 og var þá búinn að panta fræ að utan. Skúli hafði í gegnum Innréttingarnar forgöngu að því að dönsk yfirvöld fóru að hvetja landsmenn til að rækta matjurtir.

Ákefð Skúla sýnir sig í því að hann vildi ganga mun lengra en dönsk yfirvöld í að skikka ábúendur jarða yfir ákveðinni stærð til að rækta matjurtir og refsa þeim fyrir sem ekki gerðu það. Dönsk yfirvöld milduðu tóninn og gáfu út vinsamleg tilmæli til ábúendanna um að prófa sig áfram.

Við megum ekki gleyma því að yfirvöld í Danmörku lögðu sitt af mörkum til að efla matjurtarækt í landinu með því að hvetja menn til dáða með því að veita þeim sem náðu að rækta ákveðið magn af matjurtum verðlaun.

Danski kóngurinn var reyndar mjög áhugasamur um að efla matjurtarækt á Íslandi og var það öðrum þræði liður í að tryggja matvælaöryggi landsmanna enda hungurfellir algengur hér á landi á þessum tíma. Hann sendi út boð til Íslands árið 1754 um að Íslendingar kæmu sér upp matjurtagörðum og skyldu sýslumenn fylgja boðinu eftir.

Örnefnið Tóbakslaut ber bjartsýni land­fógetans gott vitni og talið er að hann hafi ræktað tóbaksjurtina þar.     Mynd / Einar Örn Jónsson.

Samt sem áður gekk framan af erfiðlega að fá almenning til að taka þátt í ræktuninni. Þegar upp var staðið voru það fyrst og fremst embættismenn og stórbændur sem höfðu bolmagn til að standa undir svona tómstundaiðju eins og litið var á ræktunina á þeim tíma.

Það er áhugavert að margir landsmenn töldu hyggilegra að fara til fjalla og tína grös en að stunda ræktun og borða matjurtir sem þeir töldu í sumum tilfellum jafngilda því að éta gras eða skepnufóður.“

Misjafn gangur í ræktun Skúla

Þrátt fyrir góðan vilja og að ræktunartilraunir Skúla sé upphafið af þeirri matjurtarækt sem á sér stað á landinu í dag gekk ræktunin hjá Skúla misjafnlega. Sumar tegundir, eins og grænkál og kartöflur, gáfust vel. Hann fékk verðlaun frá Friðriki V. Danakonungi fyrir kartöflurækt, en önnur ræktun gekk ekki eins vel.

„Skúli var duglegur að deila kartöfluútsæði og kálplöntum til annarra og ýtti þannig undir ræktun.

Síðar reyndi hann fyrir sér með trjárækt og hún gekk vægast sagt ekki vel. Hann reyndi meðal annars að rækta hrossakastaníu, perutré og ask í Viðey, sem eru báðar viðkvæmar tegundir hér og því nánast dauðadæmdar frá upphafi. Auk þess sem það komu nokkrir kaldir vetur í röð eftir að hann setti trén niður og er talið að það hafi gengið endanlega af þeim dauðum.

Skúli náði betri árangri með rifs og stikkilsber sem eru hvort tveggja tegundir sem við plöntuðum sem framtíðar skjólgjafa fyrir matjurtabeðin.“

Skúli var atorkumaður

Einar segir að þrátt fyrir að ekki sé vitað hversu stór matjurtagarður Skúla Magnússonar í Viðey hafi verið sé alveg ljóst að um mikið framtak var að ræða með þess tíma verkfærum. „Skúli var greinilega atorkumaður og frumkvöðull í matjurtaræktun á Íslandi og vonandi mun garðurinn í Viðey vekja athygli á starfi hans,“ segir Einar Örn Jónsson skrúðgarðyrkjumaður að lokum.

Tegundir í matjurtagarði Skúla fógeta
 
Berjarunnar
Stikilsber Ribes uva crispa 
Rauðrifs/Garðarifs Ribes rubrum‘Jonkheer Van Tetz’
 
Grænmeti 
Hvítkál Brassica oleracea var. capitata f. alba 
Grænkál Brassica oleracea var. acephala
Mizuna-kál Brassica napa var. nipposinica.
Rauðrófa Beta vulgaris esculenta 
Gulrófa Brassica napus var. Napobrassica
Radísur/hreðkur Raphanus sativus radicula (2-3 teg)
Kartöflur Solanum tuberosum  
 
Krydd
Sellerí Apium graveolens
Karsi Lepidium sativum
Timían Thymus vulgaris
Dill Anethum graveolens
Tóbak Nicotiana rustica

Skylt efni: Viðey | tóbakslaut | garðaminjar

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...