Merkingarkerfið Vegrún vísar ferðafólki veginn
Fyrir skemmstu var nýtt merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði kynnt í ráðuneytum umhverfis- og auðlinda og atvinnuvega- og nýsköpunar, en það hefur fengið heitið Vegrún. Það var hannað til að samræma merkingar, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna og auka gæði og öryggi á ferðamannastöðum.
Hugmyndin er að bæði opinberir aðilar og einkaaðilar geti nýtt sér hönnunarvinnuna í kringum Vegrúnu til að setja upp merkingar til að gera áfangastaði aðlaðandi. Vegrún segir fyrir um smíði merkinga og skilta, hvernig efni sé í þeim og hver stærð þeirra eigi að vera. Þá sýnir Vegrún hvernig koma á upplýsingum á framfæri með letri, lit og myndum. Vegrún er því ekki samsafn af tilbúnum merkingum heldur verkfæri til að nýta sér við að smíða merkingar sem falla að þörfum hvers og eins. Vegrún er hluti af verkefninu Góðar leiðir (godarleidir.is) um innviðahönnun ferðamannastaða og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Hönnunarteymið Kolofon&co sá um hönnunina á Vegrúnu, en Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur haft verkstjórn og samráð á milli þeirra aðila sem komu að verkefninu.