Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Minnisvarði um Gunnu fótalausu
Líf og starf 30. ágúst 2016

Minnisvarði um Gunnu fótalausu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Á kvennadaginn 19. júní  var afhjúpaður minnisvarði við minjasafni Kört í Trékyllisvík um kvenskörunginn og alþýðuhetjuna Guðrúnu Bjarnadóttur, eða Gunnu fótalausu, eins og hún var jafnan kölluð.


Í kynningu vegna afhjúpunar minnisvarðans segir að fötluðum ungum konum hafi ekki verið margir vegir færir á 18. öld en Guðrún ruddi sér sína eigin braut. Hún mætti miklum mannraunum af einstökum styrk og varð bátasmiður, bóndi og jarðeigandi.

Kal á báðum fótum

Rakel Valgeirsdóttir þjóðfræðingur, sem unnið hefur að uppsetningu minnisvarðans, segir að Guðrún Bjarnadóttir (1770–1859) hafi fengið viðurnefnið Gunna fótalausa 15 ára gömul þegar hún kól svo illa að taka varð neðan af báðum fótum hennar.

„Guðrún fæddist í Sunndal í Bjarnafirði en flutti ung með foreldrum sínum í Kollafjörð. Fljótlega eftir að móðuharðindin brutust út leystist heimili foreldra hennar, sem áttu þrjú börn, upp. Í mars 1785, þegar Guðrún er fimmtán ára, leggja hún og móðir hennar á Steinadalsheiði og líklega ætlað yfir í Breiðafjörð þar sem talið var að auðveldara væri að draga fram lífið og fleiri bjargir í boði.

Að öllu jöfnu tekur um þrjá tíma að ganga yfir Steinadalsheiði en mæðgurnar lenda í aftaka byl og voru fastar þar í þrjá sólarhringa. Móðir Guðrúnar lést og skildi stúlkan lík hennar eftir. Sjálf kól Guðrún svo illa á fótunum að sagan segir að hún hafi komið skríðandi niður að bænum Brekku í Gilsfirði.

Kalið á fótum Guðrúnar var svo slæmt að talið var nauðsynlegt að taka neðan af þeim báðum við ökkla, eða ristalið eins og sagt er í samtímaheimildum.

Vel gefin og menntuð

„Fyrst eftir aðgerðina er eins og Guðrún hverfi af sjónarsviðinu um tíma þar til henni skýtur aftur upp kollinum á Finnbogastöðum í Trékyllisvík og þá búsett hjá bróður sínum.

Alls staðar þar sem minnst er á Gunnu fótalausu, eins og hún var kölluð eftir aðgerðina, er sagt að hún sé vel gefin og líklegt er að hún hafi hlotið einhvers konar menntun þar sem henni var komið fyrir. Af heimildum að ráða er líka greinilegt að hún hefur ætlað sér eitthvað annað í lífinu en að verða niðursetningur, þrátt fyrir fótamissinn og fötlun sína.

Gunna lærði bátasmíði og smíðaði allt upp í sexæringa og flest bendir til að hún hafi lært það eftir að hún kom að Finnbogastöðum. Í heimildum frá þeim tíma segir að hún hafi gengið á stúfunum.

Hún var hjá bróður sínum á Finnbogastöðum í nokkur ár en giftist síðan manni frá Bæ í Trékyllisvík og saman kaupa þau Munaðarnes við Ingólfsfjörð. Eiginmaður Gunnu dó fimm árum eftir að þau giftu sig en þau virðast hafa efnast vel áður en maðurinn lést enda er sagt að hann hafi verið með eindæmum aðhaldssamur.

Eftir andlátið kemur að Munaðarnesi ungur vinnumaður frá Felli sem heitir Jón og reyndist Guðrúnu vel. Hann lærði af henni smíðar og er seinna sagður bestur smiða á Ströndum. Eftir að Jón kvongast býr Guðrún hjá honum og eiginkonu hans á bænum Reykjarnesi sem var við Reykjarneshyrnu.

Gunna fótalausa lést á nítugasta aldursári árið 1859 eftir að hafa verið blind og heyrnarlaus í tæp þrjátíu ár,“ segir Rakel Valgeirsdóttir þjóðfræðingur.

Skylt efni: Strandir | Gunna fótalausa

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...