Ráðunautur á flestum sviðum
Steinunn Anna Halldórsdóttir býr ásamt sambýlismanni sínum, Ágústi Marinó Ágústssyni, að Sauðanesi í Langanesbyggð. Auk þess að vera bóndi er Steinunn einnig ráðunautur í Norðurþingi á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.
Svæðið sem Steinunn sinnir er Langanesbyggð, Svalbarðshreppur og yfir í Öxarfjörð, Kelduhverfi og Vopnafjörð.
Búfræðikandídat frá Hvanneyri
„Ég er búfræðikandídat frá Hvanneyri og hef verið ráðunautur frá 2007, í fyrstu í Skagafirði en þetta er þriðja árið sem ég er á þessu svæði. Mitt sérsvið hjá RML er hrossarækt en þegar ég var á Hvanneyri tók ég ráðunautaréttindi í sauðfjár-, nautgripa- og hrossarækt.
Ég kom frá blönduðu búi, Brimnesi í Skagafirði, og vildi því kynna mér þetta allt saman.
Árin sem ég var ráðunautur í Skagafirði sinnti ég sauðfjár- og hrossarækt til að byrja með en sérhæfði mig síðan í hestunum enda Skagafjörður mikið hestahérað.
Eftir að ég flutti hingað víkkaði svo sviðið aftur og auk þess að vinna mikið í kringum hross sé ég einnig um lambaskoðanir á svæðinu og aðstoða bændur við skýrsluhald sé þess óskað. Í vor og haust bætist jarðræktin að hluta við með töku jarðvegs- og heysýna.“
Grænlendingar í verknámi
Steinunn segir að með búskapnum og starfinu sem ráðunautur sé því oft mikið að gera.
„Hingað koma stundum Grænlendingar í verknám í ár í senn og það léttir talsvert undir hjá okkur. Grænlendingarnir sem hingað hafa komið eru ótrúlega duglegir og frábær starfskraftur.
Við höfum reyndar verið hér tvö frá því í júní og stundum fullmikið fyrir mig að vera bóndi, húsmóðir og ráðunautur í 85% starfi. Draumurinn er að minnka smám saman vinnu utan heimilisins og sinna eingöngu bústörfum.“