Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kjúklingasláturhús Reykjagarðs á Hellu. Þar er slátrað um 50.000 kjúklingum á viku.
Kjúklingasláturhús Reykjagarðs á Hellu. Þar er slátrað um 50.000 kjúklingum á viku.
Mynd / HKr.
Líf og starf 9. apríl 2021

Reykjagarður 50 ára og með um 40% af kjúklingaframleiðslu landsins

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þann 20. febrúar síðastliðinn fagnaði Reykjagarður 50 ára afmæli. Í dag er Reykjagarður stærsti framleiðandi kjúklingaafurða á Íslandi og skilgreinir sig sem markaðsdrifið fyrirtæki í alifuglabúskap og matvælaframleiðslu. Félagið er í 100% eigu Sláturfélags Suðurlands.

Meginþættir starfseminnar felast í stofnfuglarækt, útungun, kjúklingaeldi, slátrun, vinnslu, fulleldun, sölu- og markaðsstarfi. Hjartað í starfseminni er í Rangárþingi, þar sem félagið rekur umfangsmikið eldi og stofnfuglarækt að Ámundarstöðum, í Meiri Tungu, Hellutúni og á Jarlsstöðum. Þá er útungunarstöð, sláturhús og vinnsla á Hellu. Auk þessarar starfsemi er fyrirtækið ýmist með á eigin vegum eða í samstarfi við aðra, kjúklingaeldi í Árnessýslu, Borgarfirði, Hrútafirði og í Grindavík. Þá er rekið framleiðslueldhús í Garðabæ og söludeild á Foss­hálsi í Reykjavík.  

Björgvin Bjarnason framleiðslustjóri og Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri í vinnslusal kjúklingasláturhússins á Hellu. 

Stolt af öflugri starfsemi

„Á þessum tíma­mótum erum við stolt af þeirri öfl­ugu starfsemi sem Reykjagarður sinnir í dag.  Verandi stærsti aðili í kjúklingaeldi, slátrun og vinnslu hérlendis. Við minnumst með hlýhug og þakklæti þeirra sem ruddu brautina, vörðuðu veginn og gerðu okkur að því sem við erum í dag. Við erum staðráðin í að feta veginn áfram upp á við,“ segir Guðmundur Svavarsson framkvæmdastjóri. 

Margir starfsmenn hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi

Guðmundur ber starfsfólki sínu og samstarfsaðilum afar vel söguna og að það sé harðduglegt og samviskusamt fólk. Þá hafi gengið vel að manna sláturhús og vinnslu og starfsmannavelta er lítil hjá Reykjagarði á Hellu. Þó stór hluti starfsmanna sé af erlendum uppruna, þá hafa þeir margir hverjir starfað hjá fyrirtækinu í áratugi og eru fyrir löngu orðnir íslenskir ríkisborgarar.

Heildar starfsmannafjöldi hjá Reykjagarði er í dag um 120-130 manns, þar af um 70–80 sem starfa á Hellu. Fagfólk er á öllum stigum framleiðsluferlisins, jafnt í eldi og vinnslu, sem hefur mikinn metnað og tryggir gæði og áreiðanleika vörunnar. Sérstaklega er gætt að velferð fuglanna, enda er góður aðbúnaður, ásamt hreinu vatni og hágæðafóðri lykillinn að góðum árangri í eldi og gæðum framleiðslu­varanna. 

Fjöldi samstarfs­aðila, verktaka og bænda eiga í nánu samstarfi við félagið.  Má þar nefna verktaka við flutninga, þrif, viðhald húsa og búnaðar, umsjón með fugli, húsum og búnaði og fleiru.

Um 40.000 Íslendingar snæða máltíð sem tengist Reykjagarði á hverjum degi  

Til gamans má geta þess að árleg fram­leiðsla jafngildir u.þ.b. 14-15 milljónum máltíða og má því segja að á hverjum degi árið um kring snæði u.þ.b. 40 þúsund Íslendingar máltíð, sem byggir á starfsemi Reykjagarðs.  Enda er slagorð Holta – „grunnur að góðri máltíð“.

Með um 40% af kjúklingaframleiðslunni

„Við erum að framleiða um 50 þúsund fugla á viku. Heildarframleiðslan á alifuglakjöti í landinu hefur verið á bilinu níu til tíu þúsund tonn. Hún var heldur minni á síðasta ári, eða 8.705 tonn, og af því vorum við með ríflega 40%. Síðan er Matfugl með annað eins og Ísfugl með nálægt 20%,“ segir Guðmundur.

Starfsmenn Reykjagarðs vinna af mikilli samviskusemi við vinnslulínuna þó stutt væri í grín og glens. Enda ekki á hverjum degi sem ljósmyndara er hleypt inn á þeirra vinnustað. Þeir eiga uppruna að rekja víða um heim, m.a. til Taílands, Kólumbíu og Austur-Evrópu, en eru margir orðnir íslenskir ríkisborgarar.

Sagan rakin til 1971

Reykjagarður hf. var stofnaður 20. febrúar 1971 af Jóni Vigfúsi Bjarnasyni, garðyrkjubónda á Reykjum í Mosfellssveit og konu hans, Hansínu Margréti Bjarnadóttur.

Árið 1978 hóf félagið eggja- og kjúklingaframleiðslu og árið 1982 keypti félagið alifuglabúið Teig í Mosfellsbæ. Þann 1. janúar 1987 kaupir félagið kjúklingarækt Holtabúsins hf. í Ásahreppi ásamt útungunarstöð og sláturhúsi á Hellu.  Árið 1990 festir félagið síðan kaup á þeim hluta Holtabúsins hf. sem eftir var. Árið 1991 seldi það eggja­framleiðslu sína og hætti þá sölu neyslueggja.

Árið 1996 festi félagið kaup á 1.400 fermetra húsnæði að Álafossvegi 40 í Mosfellsbæ, þar var til húsa skrifstofa, dreifingarstöð og birgðastöð þess. Dreifing var í höndum félagsins fram til september 2002 þegar samningur var gerður við Landflutninga um að sjá um dreifingu, en í mars 2004 tók Sláturfélag Suðurlands yfir dreifingu á vörum félagsins. Frá miðju ári 2007 hefur Eimskip/Flytjandi annast dreifingu allra vara fyrirtækisins. Skrifstofa félagsins flutti haustið 2003 að Fosshálsi 1 í Reykjavík.

Í ágúst 2002 keypti Sláturfélag Suðurlands (SS) 67% hlutabréfa í Reykjagarði af Búnaðarbanka Íslands, sem litlu fyrr hafði eignast félagið. Frá árinu 2007 er Reykjagarður alfarið í eigu SS og rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki þess með sjálfstæðan fjárhag, stjórn og  stjórnendur.

Eldi, slátrun og vinnsla á kjúklingi

Starfsemi Reykjagarðs hf. felst í eldi, slátrun og úrvinnslu á kjúklingi.  Fyrirtækið skilgreinir sig sem markaðsdrifið framleiðslufyrirtæki í matvælageiranum með sérhæfingu í alifuglakjöti.  Þekktasta vörumerki félagsins er HOLTA, en einnig markaðssetur félagið ferskar kjúklingaafurðir undir merkinu  KJÖRFUGL og fulleldaðar kjúklingaafurðir undir merkinu HEIMSHORN HOLTA.  Félagið vill vera þekkt fyrir gæði og áreiðanleika og starfar þar af leiðandi eftir öflugu og skilvirku HACCP gæðakerfi og skv. ýtrustu kröfum laga og reglugerða.   

Mikil þróun á 50 ára ferli

Guðmundur segir að mikil þróun hafi átt sér stað í matvælaframleiðslu á Íslandi frá því Reykjagarður hóf starfsemi sína. Fyrirtækið hafi kappkostað að fylgja þeirri þróun eftir.

„Þegar hefur orðið gríðarlega mikil vöruþróun á undanförnum árum. Sérstaklega eftir að heimilað var að selja ferskan kjúkling í verslunum sem áður mátti einungis selja frosinn. Þá gjörbreyttist umhverfið og farið var meira út í að selja meira unnar vörur. Í dag er stærsti hlutinn af fuglinum unninn í ýmsar afurðir, m.a. hlutaður niður í bringur, læri, leggi og fleira. Líka úrbeinaður og lagður í kryddlög sem hægt er að nota beint á pönnuna eða grillið. Þá er alltaf að stækka markaðurinn fyrir fullunnar og eldaðar vörur.“

Tæknivæðing er stöðugt að aukast í kjúklingasláturhúsinu á Hellu. Þar fer ekkert til spillis og hráefnið nýtt nánast að fullu. Til að tryggja að engin bein séu í bringum og öðru úrskornu kjöti var keypt gegnumlýsingartæki sem skannar kjötið áður en það fer á pökkunarlínuna.

Fullvinnsla á kjúklingafurðum er stöðugt að aukast

Við erum með framleiðslueldhús í Garðabæ sem útbýr allar okkar fullelduðu vörur. Þar er m.a. um að ræða það sem við köllum „Heimshornalínu“. Þar er um að ræða bláa línu sem er elduð vara en algjörlega ókrydduð. Rauða línan er elduð krydduð vara. Græna línan er svo fullelduð vara sem er í einhvers konar hjúp, raspi, kryddhjúp eða öðru.

Þessi starfsemi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Við leggjum mikið upp úr að vera með sérlausnir og góða þjónustu fyrir veitingahús og mötuneyti. Þannig getum við boðið þeim að fá til sín vöruna nánast fulleldaða sem gefur þeim kost á að vera með færra starfsfólk.“

Mikill kostnaður við að útiloka bakteríusmit

Guðmundur segir að sláturhúsið og vinnslan hjá Reykjagarði þurfi að standast mjög strangar, heilbrigðis-, öryggis- og gæðakröfur. Gagnvart stórum viðskiptavinum eins og KFC þurfi síðan oft að uppfylla sérkröfur umfram þær kröfur sem Matvælastofnun gerir. 

Forsendan fyrir því að hægt sé að selja hráan kjúkling frá framleiðendum í verslunum er að hann sé ekki mengaður af salmonellu eða campylobakteríum. Neytendur á Íslandi eiga þannig að geta gengið að algjörlega ómenguðu alifuglakjöti. Íslenskir neytendur búa því við gæði sem er alls ekki til að dreifa víða um lönd. Það þýðir um leið að framleiðslukostnaður á Íslandi verður mun meiri. Erlendis gera neytendur yfirleitt ráð fyrir að kjötið sé mengað og hegða elduninni samkvæmt því.  

Hér er smituðum fugli eytt, en erlendis fer hann í fullvinnslu

„Þetta setur þá kröfu á okkur að húsin verða að vera algjörlega frí við salmonellu og campylobacter, bæði eldishús, sláturhús og vinnsla. Ef salmonella kemur upp í eldishúsum, þá verðum við að „gasa“ þann hóp og brenna og síðan að dauðhreinsa húsin. Það getur líka þurft að skipta um innréttingar og jarðveg í kringum húsin.

Erlendis þá má fara með slíkan fugl til slátrunar og á sumum stöðum eru menn með sérstök sláturhús sem sinna slíku og þá fer kjötið eingöngu í fulleldaðar framleiðsluvörur.

Ef það kemur upp salmonella í sláturhúsi, þá þýðir það innköllun á allri framleiðslunni þann daginn af markaði.“

Samkvæmt þessu má allt eins gera ráð fyrir því að tilbúnir innfluttir kjúklingaréttir frá ýmsum heimshornum sem fást í verslunum á Íslandi séu unnir úr bakteríusmituðu kjöti. 

Guðmundur segir ekki nóg að frysta salmonellusmitað kjöt því bakterían lifi það af. Öðru máli gegni varðandi campylobacter sem getur að öðru leyti verið mjög erfiður viðfangs. Þó talsvert hafi verið um salmonellusmit í eldishúsum á síðasta ári, þá voru engin tilvik um campylobactersmit. 

Strangar vinnureglur til að útiloka að smitað kjöt fari á markað

Að sögn Guðmundar þá hefur Reykjagarður tekið upp mjög strangar vinnureglur til að reyna að útiloka að salmonellusmitað kjöt geti borist til neytenda. Segir hann að varið hafi verið tugum ef ekki hundruðum milljóna í ráðstafanir til að koma í veg fyrir salmonellusmit. Það er kostnaður sem erlendir keppinautar þurfa öllu jöfnu ekki að glíma við.

„Við tökum sýni um leið og slátrun hefst á morgnana á milli klukkan 5 og 7. Ekið er rakleitt með sýnin til rannsóknar hjá Sýni í Kópavogi. Þeir rannsaka sýnin með PCR greiningu sem tekur innan við sólarhring að framkvæma. Við fáum því niðurstöður til okkar áður en vörunum er dreift til viðskiptavina og getum því stöðvað þær ef þær reynast mengaðar. Síðan við tókum þetta kerfi upp hefur aldrei komið upp tilvik um salmonellu í okkar sláturhúsi og ekki komið til innköllunar.“

Guðmundur nefnir að salmonella geti verið mjög lúmsk og erfið viðureignar. Þannig hafi komið upp smit á einu búinu fyrir nokkrum áratugum sem barst þangað með fiskimjöli frá Suður-Ameríku. Þar var um að ræða salmonellu Agona, sem á að heita tiltölulega meinlaus en hér á landi sé enginn greinarmunur gerður á því um hvaða afbrigði af þeim þúsundum sem þekkjast sé að ræða og tekið mjög strangt á öllum tilvikum. Reyndar hafa komið upp víðtæk smit með salmonellu Agona í Evrópu sem ollu miklum titringi í löndum eins og Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi á árunum 2014, 2016, 2017, 2018 og 2019. Þótti matvælaöryggisyfirvöldum ESFSA ástæða til að gefa út sérstakar leiðbeiningar í júlí 2018 vegna þessa.

Oft tekst ekki að finna orsakir fyrir salmonellusmiti. Það getur borist inn í búin með fóðri eða mögulega með starfsfólki. Í einhverju tilviki grunaði menn t.d. að smit hafi borist með gruggi úr jarðvegi þegar verið var að gera við vatnsleiðslu. Þegar starfsmaður þvoði hendur sínar upp úr þessu vatni hafi hann mögulega borið smit áfram inn í húsið. Það þarf því stöðugt að vera á varðbergi. 

Gracjan Dominik Cieslowski flokksstjóri og Arnfinnur Bragason verkstjóri.

Góður árangur á Íslandi vekur athygli í útlöndum

Á alifuglabúum, svínabúum og nautgripaeldisstöðvum erlendis er víða farin sú leið að nota sýklalyf í óheyrilegu magni til að reyna að halda sýkingum niðri og um leið virka lyfin sem vaxtarhvati. Hér er þetta bannað.

Guðmundur segir að útlendingar furði sig á því að vaxtarhraði í íslenskum kjúklingum sé síst minni og jafnvel meiri en þekkist á erlendum búum. Fyrir utan að hér séu fuglarnir heilbrigðari þó ekki sé verið að nota lyf eins og gert er víðast erlendis. Telur hann nokkra þætti geta skýrt þetta eins og minni þéttleika fugla í húsunum, vandaðri byggingar, smitvarnir og heita vatnið sem geri mönnum kleift að hafa fuglana alltaf á þurrum gólfum.

„Heita vatnið er lykilþáttur í þessu að mínu mati. Húsin eru í flestum tilfellum vel einangruð og kynt með heitu vatni og í þeim eru gólfhitakerfi. Byggingarnar eru því þurrari og sagga ekki þannig að fuglinum líður betur. Hitaveitan er að mínu mati sá þáttur sem skiptir sköpum,“ segir Guðmundur. 

Fuglaflensa veldur áhyggjum

Sláturhúsið á Hellu getur ekki tekið við fugli til slátrunar sem ekki er alinn við ströngustu aðstæður til að forðast smit. Þannig má ekki slátra í húsinu fugli sem fær að ganga frjáls úti í umhverfinu því jarðvegur og gróður getur verið verulega smitaður af salmonellu. Þá segir Guðmundur að alifuglaræktendur hér á landi sem og í Evrópu séu nú mjög uggandi vegna útbreiðslu á fuglaflensu. Hún hafi fundist víða um Evrópu og m.a. í Skotlandi og geti hæglega borist hingað með farfuglum. Því sé mjög mikilvægt að allir séu á varðbergi. Þeir sem eru með eldi á hænsnfuglum sér til gamans verði þá líka að fara sérstaklega varlega.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...