Samstarfi fagnað
Skógræktarfólk og áhugafólk um skógarmenningu frá Íslandi og Noregi kom saman í Heiðmörk á dögunum til að fagna áratuga samstarfi þjóðanna í skógræktarmálum.
Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð þar ráðherrum landanna tveggja að leggja skógrækt lið með gróðursetningu.
Stuðningur Norðmanna við skógrækt á Íslandi á sér langa sögu. Forfeður margra þeirra trjáa sem best þrífast á Íslandi koma frá Noregi og hafa Norðmenn lagt mikið af mörkum til skógarmenningar á Íslandi, m.a. hafa þeir gróðursett um milljón trjáplöntur hér á landi.
Anne Beathe Tvinnereim, ráðherra alþjóðaþróunarmála og norrænnar samvinnu í ríkisstjórn Noregs, kom til landsins af þessu tilefni og gróðursetti í Heimaási í Heiðmörk fjallaþin, sem kannski mun þjóna sem Oslóartré Reykvíkinga í framtíðinni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra gróðursetti íslenskt birki, Heklu.
Að gróðursetningu lokinni fór fram móttaka í Zimsen-húsinu í Heiðmörk þar sem ráðherrarnir fengu gjöf frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, bókina Frændur fagna skógi eftir Óskar Guðmundsson. Bókin rekur sögu samskipta Norðmanna og Íslendinga með áherslu á skiptiferðir skógræktarfólks frá 1949 til 2000.