Samstarfi fagnað
Skógræktarfólk og áhugafólk um skógarmenningu frá Íslandi og Noregi kom saman í Heiðmörk á dögunum til að fagna áratuga samstarfi þjóðanna í skógræktarmálum.

Anne Beathe var leyst út með bókinni Frændur fagna skógi eftir Óskar Guðmundsson, sem rekur sögu samskipta Noregs og Íslands.
Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð þar ráðherrum landanna tveggja að leggja skógrækt lið með gróðursetningu.
Stuðningur Norðmanna við skógrækt á Íslandi á sér langa sögu. Forfeður margra þeirra trjáa sem best þrífast á Íslandi koma frá Noregi og hafa Norðmenn lagt mikið af mörkum til skógarmenningar á Íslandi, m.a. hafa þeir gróðursett um milljón trjáplöntur hér á landi.
Anne Beathe Tvinnereim, ráðherra alþjóðaþróunarmála og norrænnar samvinnu í ríkisstjórn Noregs, kom til landsins af þessu tilefni og gróðursetti í Heimaási í Heiðmörk fjallaþin, sem kannski mun þjóna sem Oslóartré Reykvíkinga í framtíðinni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra gróðursetti íslenskt birki, Heklu.
Að gróðursetningu lokinni fór fram móttaka í Zimsen-húsinu í Heiðmörk þar sem ráðherrarnir fengu gjöf frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, bókina Frændur fagna skógi eftir Óskar Guðmundsson. Bókin rekur sögu samskipta Norðmanna og Íslendinga með áherslu á skiptiferðir skógræktarfólks frá 1949 til 2000.
