Kia er á algjöru flugi þegar kemur að hönnun. Þessi bíll er í grunninn sá sami og hefur verið á markaði í nokkur ár, en virðist vera splunkunýr ef horft er á hann að framan.
Kia er á algjöru flugi þegar kemur að hönnun. Þessi bíll er í grunninn sá sami og hefur verið á markaði í nokkur ár, en virðist vera splunkunýr ef horft er á hann að framan.
Mynd / ál
Líf og starf 31. október 2024

Sparneytinn sjö manna jepplingur

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu Kia Sorento Plug-in Hybrid. Hér er á ferðinni stór sjö manna jeppi sem hefur nýlega farið í gegnum ærlega andlitslyftingu.

Að framan er Sorento mjög ferskur og hélt undirritaður fyrst að um splunkunýjan bíl væri að ræða. Um leið og horft er á ökutækið frá hlið sést að þetta er í grunninn sami bíll og hefur verið á markaði í nokkur ár. Kia er á algjöru flugi þegar kemur að hönnun og hefur þeim tekist að gera smekklegan bíl enn betri. Jepplingurinn er kraftalegur á að líta þó svo að þetta sé enginn fjallajeppi.

Framljósin eru lárétt ljósrönd og kemur ein rönd niður í vinkil fyrir miðju. Þar liggja fjórir led-ferningar samsíða. Grillið er með sama grunnformi og á öllum Kia- bílum undanfarinn áratug en afar stórt að þessu sinni. Afturendinn er keimlíkur Sorento síðan fyrir andlitslyftingu, en Kia hefur hresst aðeins upp á afturljósin.

Breytingarnar að aftan eru minni.

Hefðbundin innrétting

Innréttingin er öll mjög nútímaleg á að líta en útfærslan er mjög hefðbundin. Það er greinilegt að dýrustu efnin hafa ekki verið notuð, en allt lítur þetta vel út og er ágætlega þægilegt í viðkomu. Hér eru alls konar takkar á víð og dreif og er gírinn valinn með snúningsrofa á miðjustokknum. Þar fyrir aftan eru hnappar til að velja akstursstillingar sem eru allt frá því að vera sérhæfðar fyrir sparakstur yfir í að bjóða upp á betri torfærueiginleika. Enn aftar á miðjustokknum eru takkar fyrir meðal annars hita í stýrinu, handbremsu og til að virkja 360 gráðu myndavélarnar.

Fremst í miðjustokknum er bakki til að leggja farsíma í þráðlausa hleðslu. Þar fyrir aftan eru tveir glasahaldarar og undir armpúðanum er lokað hólf. Hanskahólfið er rúmgott og fóðrað að innan. Hurðavasarnir eru prýðilegir.

Stýrið er með ágætis áklæði en undirritaður var ekki alveg sáttur við skarpar brúnir sem eru á plastinu sem notað er í neðstu pílárana. Í efri rimlunum eru sömu takkar og eru í flestum Kia og Hyundai-bílum. Vinstra megin er hægt að stjórna margmiðlun og síma, á meðan að hægra megin er átt við hraðastilli og akstursaðstoð. „Mute“ hnappurinn er í miklu uppáhaldi, en með því að halda honum inni í nokkrar sekúndur slokknar á viðvörunarhljóðinu sem heyrist annars í þegar ekið er yfir hámarkshraða.

Fyrir framan ökumanninn er stór skjár með öllum helstu upplýsingum um aksturinn. Þar við hliðina er snertiskjár af sömu stærð. Stýrikerfið í honum er ágætlega einfalt og er stutt af flýtihnöppum sem eru ögn neðar í innréttingunni. Til að komast að miðstöðinni þarf að breyta áðurnefndum flýtihnöppum en þetta tiltekna svæði er samnýtt til tveggja hluta. Eina stundina er annar snúningshnappurinn til þess að hækka í útvarpinu og hina stundina til að auka hitann.

Innréttingin er nútímaleg og vel útfærð.

Pláss fyrir sjö

Framsætin eru rafdrifin í þessari útfærslu, ásamt því að vera rúmgóð og nokkuð þægileg eins og er að vænta af stórum jepplingi.

Þrír fullorðnir komast fyrir í aftursætunum með sóma og fá tveir farþeganna hita í sætin rétt eins og þeir sem sitja fremst. Í afturrúðunum er innbyggt sólskyggni sem fellur eflaust vel í kramið hjá barnafjölskyldum. Aftursætisfarþegarnir fá glasahaldara í hurðaspjöldunum, flöskugeymslu í hurðavösunum og tvo glasahaldara í viðbót í armhvílunni.

Í þriðju sætaröðinni er nóg pláss fyrir tvo fullorðna einstaklinga í skamma stund, að því gefnu að önnur sætaröðin hefur verið færð aðeins fram á þar til gerðum sleða. Sætin eru það lág að hnén eru lengst uppi og höfuðplássið nokkuð takmarkað. Til að komast aftast þarf smápríl og því réttast að hugsa um þriðju sætaröð sem viðbót.

Skottið er risastórt ef þriðja sætaröðin hefur verið felld niður í gólfið. Þá er hægt að leggja aðra sætaröðina niður með hnöppum við skotthlerann sem gerir geymsluplássið eins og í sendibíl.

Öftustu sætin eru nothæf en þröng fyrir fullorðna.

Gott grip og mjúk fjöðrun

Til að ræsa bílinn er ýtt á hnappa, rétt eins og í hefðbundnum dísil- eða bensínbílum. Fjöðrunin er ágætlega mjúk og nær bíllinn góðu gripi með fjórhjóladrifinu. Felgurnar eru ekki óhóflega stórar, sem þýðir mýkri fjöðrun og betri hljóðvist. Þessi bíll stendur sig vel í ferðalögum innanbæjar, í langferðum og á grófum malarvegum.

Akstursaðstoðin í þessum bíl er greinilega af eldri kynslóð en til að mynda í Kia EV9 eða Hyundai Ioniq 6. Þó svo að kveikt sé á akreinaaðstoðinni er ekki hægt að láta bílnum eftir stjórnina, því þá fer hann að slaga á milli hvítu línanna. Því ætti helst að hugsa um þetta kerfi sem eitthvað sem grípur inn í frekar en eitthvað sem léttir verulega á akstrinum. Skynvæddi hraðastillirinn virkar hins vegar svo gott sem fumlaust og er notadrjúgur í mikilli umferð.

Skottið rúmar mikinn farangur.

Að lokum

Eins og áður segir er þetta tengiltvinnbíll sem blandar saman 1,6 lítra bensínvél og rafmótor. Saman gefa þessi tvö kerfi 248 hestöfl og á bíllinn að geta keyrt allt að 57 kílómetra á rafhlöðunni. Þetta er hentugt farartæki fyrir þá sem hafa aðgang að hleðslu ýmist heima eða á vinnustað, því hámarkshleðslugetan er 3,3 kílóvött og tekur þrjá tíma og 25 mínútur að fylla tóma rafhlöðu.

Með straumi á batteríinu er hægt að halda bensíneyðslunni mjög í skefjum, en meðaleyðslan stígur ansi hratt þegar rafhlaðan tæmist. Bensínvélin fer í gang í flestum ökuferðum, en hún er notuð til að framkvæma hita fyrir miðstöðina.

Ökumaðurinn verður ekki var við nein þyngsli frá rafhlöðunni, en þyngdarmunurinn á dísilbílnum og tvinnbílnum eru ekki nema rúm hundrað kílógrömm. Tengiltvinnbíllinn getur dregið allt að 1.010 kílógrömm, á meðan dísilbíllinn ræður við 2.500 kíló.

Ef litið er til alls þess búnaðar sem er í bílnum, hversu vel allt er útfært og hve áreiðanlegir allir bílar frá þessum framleiðanda eru, má segja að Kia Sorento sé á góðu verði. Nýir fjórhjóladrifnir sjö sæta tengiltvinnjepplingar liggja ekki á hverju strái, nema talsvert dýrari.

Helstu mál Sorento eru í millimetrum: Lengd, 4.815; breidd 1.900; hæð 1.700. Sjö manna Kia Sorento Plug-in Hybrid kostar frá 9.790.777 krónum með vsk. í Style útfærslu. Bíllinn í þessum prufuakstri var af Luxury útgáfunni, en þeir bílar kosta 10.490.777 krónur með vsk. Hægt er að fá Premium útfærslu sem kostar einni milljón meira. Nánari upplýsingar fást hjá Öskju, sem er með umboð fyrir Kia á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Sparneytinn sjö manna jepplingur
Líf og starf 31. október 2024

Sparneytinn sjö manna jepplingur

Bændablaðið fékk til prufu Kia Sorento Plug-in Hybrid. Hér er á ferðinni stór sj...

Limrur og léttar hugleiðingar
Líf og starf 31. október 2024

Limrur og léttar hugleiðingar

Þorsteinn G. Þorsteinsson er höfundur nýrrar bókar, Limrur og léttar hugleiðinga...

Húllumhæ á áttræðisafmælinu
Líf og starf 30. október 2024

Húllumhæ á áttræðisafmælinu

Árið 1944 var Leikfélag Blönduóss formlega stofnað og starfaði nánast óslitið fr...

Heil vika til eflingar íslenskri sauðfjárrækt
Líf og starf 30. október 2024

Heil vika til eflingar íslenskri sauðfjárrækt

Þann 5. október síðastliðinn lauk ævintýralegri viku sem haldin var að frumkvæði...

Fjölmenningarhátíð í Aratungu
Líf og starf 29. október 2024

Fjölmenningarhátíð í Aratungu

Menning hinna ýmsu landa verða í forgrunni á fjölmenningarhátíð í Aratungu í Blá...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 28. október 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn Jákvæð breyting verður í vinnumálum vatnsberans sem gefur honum rýmr...

Framfaraskref fyrir barnshafandi konur
Líf og starf 28. október 2024

Framfaraskref fyrir barnshafandi konur

Kvenfélagasamband Íslands hefur gefið heilbrigðisþjónustunni nýjan hugbúnað.

Kjói
Líf og starf 23. október 2024

Kjói

Kjói er lítill ránfugl af skúmsætt. Eini ættingi hans hér er sjálfur skúmurinn s...