Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vegagerðin hefur heimild til að yfirtaka viðhald girðinga við umferðarþyngstu vegina, en almennt eiga landeigendur að halda veggirðingum fjárheldum.
Vegagerðin hefur heimild til að yfirtaka viðhald girðinga við umferðarþyngstu vegina, en almennt eiga landeigendur að halda veggirðingum fjárheldum.
Mynd / ÁL
Líf og starf 12. september 2023

Styrkir til viðhalds veggirðinga

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í umræðu um lausagöngu búfjár hefur oft verið bent á að fjöldi vega eru ekki girtir. Þar með skapast hætta á umferðaróhöppum, sem og erfiðleikar með að girða af lönd.

Guðmundur S. Pétursson, tæknifræðingur. Mynd / Aðsend

Guðmundur S. Pétursson, sem sér um girðingamál fyrir Vegagerðina á vestursvæði, segir stofnunina vinna á hverju ári að fjölgun veggirðinga sem og viðhaldi þeirra sem þegar eru í notkun. Hann segir Vegagerðina á vestursvæði fá tuttugu milljónir á ári í gerð nýrra girðinga. „Kílómetrinn kostar orðið 1.400 þúsund, þannig að þetta er ekki langur kafli.“ Nálægt 40 kílómetrar af vegum sé á biðlista á starfssvæði Guðmundar eins og er. Vegagerðin reyni að forgangsraða þannig að þegar lagt sé bundið slitlag sé girt beggja vegna vegar. Þá sé kostnaðurinn tvöfaldur.

„Í árdaga Vegagerðarinnar lagði hún vegi um landið hægri vinstri og það var ekkert girt, nema eitthvað lítið,“ segir Guðmundur. Á síðustu 20 til 30 árum sé hins vegar almennt girt meðfram vegum ef landeigandi óskar þess. Á allra síðustu misserum hefur Guðmundur orðið var við mikla aukningu landeigenda sem hafa áhuga á að fá veggirðingu, hvort sem þeir stundi sauðfjárbúskap eða ekki.

Þegar vegir eru endurnýjaðir eða nýir lagðir segir Guðmundur að ekki sé sjálfsagt að lögð sé girðing því frumkvæðið sé hjá landeigendum. Vegagerðin kosti lagningu girðingarinnar og gerist landeigandinn eigandi hennar. Eftir það hefur Vegagerðin ekkert með girðinguna að gera, heldur skal landeigandinn sinna öllu viðhaldi.

Þeir sem haldi girðingunni fjárheldri eigi rétt á styrk, sem nemur helmingi viðhaldskostnaðar. Guðmundur segir Vegagerðina fara í ítarlega vinnu til að reikna út hvað hver kílómetri kosti hverju sinni. Á sínum tíma var fenginn aðili til að kanna hvað girðingaverktakar eru lengi að setja upp girðingu að meðaltali. Enn fremur er nefnd á vegum Vegagerðarinnar sem uppfærir girðingakostnað árlega. Þegar aðstæður í landinu eru erfiðar er hægt að hækka áætlaðan kostnað um allt að tuttugu prósent.

Girðir bara einu sinni

Ýmis vandkvæði geti fylgt því að Vegagerðin hafi ekkert með girðingar að gera eftir að þær eru settar upp. Í vegalögum segi að Vegagerðin girði hverja girðingu bara einu sinni. Skemmist girðing algjörlega af viðhaldsleysi segir Guðmundur að það sé ekki í höndum Vegagerðarinnar að koma hlutunum í lag. Stofnunin geti ekki skikkað bændur til að halda girðingum við, heldur sé sveitarfélagsins að beita því valdi. Skipti jörð um eigendur, þá fylgi engar þinglýstar kvaðir hvað varðar viðhald á girðingum.

Þegar landeigendur óski eftir girðingu, segir Guðmundur að gerð sé krafa um að hægt sé að loka girðingunni í eitthvað. „Annaðhvort upp í fjall, kletta, á sem talin er fjárheld, eða aðra girðingu. Það þýðir ekkert að girða frá A til B ef rollurnar labba bara fyrir hornið.

Í gamla daga voru kindur á nánast hverri einustu jörð og þá náðu girðingar saman hjá bændum. Nú er þetta að slitna upp,“ segir Guðmundur. Ákveðin vandkvæði fylgi því þegar fjöldi jarða séu án búskapar.

„Það er mjög algengt að menn hætti að halda við girðingunni,“ segir Guðmundur. Ástæðurnar séu margar, til að mynda þegar bændur komist á aldur og bregði búi, eða flytji í burtu.

„Þá skapast þessi vandræði, því það þarf að halda við girðingu á hverju ári. Staurarnir ganga upp og snjór fer illa með þær.“

Helst ekki ristahlið

Guðmundur segir Vegagerðinni vera illa við ristahlið, því þeim fylgi fjölmörg vandamál og þau séu dýr. Séu girðingar meðfram vegi, þá eigi lögbýli rétt á að fá ristahlið á heimreiðina að bænum.

Séu ristahlið sett á landamerki milli jarða, þá séu þau yfirleitt á tengivegum. Úti á þjóðvegum er algengast að ristahlið séu við sauðfjárveikivarnarlínur. Þegar girt sé frá fjalli niður í fjöru, til að mynda á Vestfjörðum, er matsatriði hjá Vegagerðinni hvort hagkvæmara sé að setja ristahlið eða lengri girðingu. Ristahlið á tvöfalt bundið slitlag kosti sex til átta milljónir. 

„Þessi ristahlið sem hafa verið sett á malarvegi eru yfirleitt fjórir metrar. Þá er bara ein akstursleið í gegn og þá koma holur. Svo er voðalega oft snjóasöfnun, sem gerir þau ófær. Þegar einhver kemur með snjótönn eða blásara, þá þarf að hægja ferðina,“ segir Guðmundur. Þegar snjóruðningstækin fari of hægt yfir, þá kastist snjórinn ekki burtu, heldur safnist í skafla, sem auki snjósöfnun enn frekar.

Vegagerðin heldur við einstaka girðingum

Guðmundur segir Vegagerðina hafa heimild til að taka yfir viðhald veggirðinga meðfram vegum sem eru með umferð meiri en 300 bíla á dag. „Árið 1999 tók Vegagerðin yfir viðhald girðinga frá Hvalfjarðargöngum upp í Norðurárdal,“ segir Guðmundur. Þetta var gert í ljósi þess að ástand girðinga á þessu svæði var slæmt og keyrt hafi verið á hátt í þúsund kindur á hverju sumri á þessum vegkafla.

Jafnframt var brugðið á það ráð að fá verktaka í að sinna smölun á umferðarþyngstu vegunum í Borgarfirði, undir Hafnarfjalli og í kringum Akrafjall. „Engar girðingar eru hundrað prósent, þess vegna erum við að smala,“ segir Guðmundur. Smalarnir stugga við fénu tvær nætur fyrir hverja helgi, þegar umferðin er þyngst. „Það er algjörlega óðs manns æði að ætla að elta rollur yfir hádaginn, séu þær með vegum, því umferðin hægir ekki á og ökumenn jafnvel flauta og eru með dónaskap,“ segir Guðmundur.

Skylt efni: Vegagerð | girðingar

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...