Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigurður Ægisson, prestur og þjóðfræðingur.
Sigurður Ægisson, prestur og þjóðfræðingur.
Líf og starf 24. nóvember 2020

Svifið á vængjum þöndum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Presturinn og þjóðfræðingurinn Sigurður Ægisson hefur haft áhuga á fuglum frá því hann man eftir sér auk þess sem hann hefur lengi haft áhuga á sögu, þjóðfræði og almennri náttúrufræði. Sig­urður sendi nýlega frá sér bók sem heitir Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin.

Sigurður, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði og býr þar, segir að hann hafi unnið að þessu nýjasta ritverki sínu meira og minna í rúm 25 ár. „Í bókinni eru teknir til skoðunar allir íslensku, reglubundnu varpfuglarnir, 75 að tölu, auk fjögurra annarra tegunda eins og haftyrðils, hverafugls, keldusvíns, snæuglu, í hérlendri og erlendi þjóðtrú. Auk þess sem birt eru ljóð og annað forvitnilegt efni sem þeim tengist, þar á meðal ríflega 1.000 alþýðuheiti íslenskra fugla.“

Bústaður guðdómsins

Í aðfaraorðum bókarinnar segir Sigurður að mannkynið hafi löngum dáðst að fuglunum og hæfileika þeirra að geta svifið vængjum þöndum um loftin blá og komist þannig nær ríki himnanna, þar sem guðdómurinn átti oftar en ekki að vera með bústað sinn.

„Í vitund fólksins urðu þeir á einhverjum tímapunkti að sendiboðum úr efra, hálfheilagir eða þaðan af meira, og því bráðnauðsynlegt að geta ráðið í hverju þeir voru að reyna að koma til skila með kvaki sínu, flugi eða öðru atferli. Með tímanum varð úr þessu mikið og flókið kerfi og ekki á færi nema útvalinna, til dæmis presta eða samsvarandi, að lesa í táknmálið.

Leifar þessa má greina í þjóðtrú fyrri alda, sem og nútímans. Ef hrafninn, til að mynda, kom úr þessari áttinni eða hinni, eða sat þarna og gargaði svona eða hinsegin, merkti það allt eitthvað sérstakt og gerir enn í hugum margra, jafnt hér sem erlendis.

Snemma tóku menn að leita skýringa á hinum ólíku mynstrum á búki fuglanna og um það varð í aldanna rás til aragrúi sagna. Oft réð litur hamsins einnig miklu til um hvaða dóm þeir fengu, hvaða augum þeir voru séðir.

Þessu riti er ætlað að beina kastljósinu inn í þennan gamla og forvitnilega veruleika, án þess að koma með tilgátur um hvernig á þessu eða hinu standi, nema í einstaka tilviki.“

Hefur lagt sig eftir fuglaheitum

„Árið 1995 fór ég að safna efni í fuglabók sem kom út ári síðar og fékk nafnið Ísfygla. Þar birtust meðal annars um 700 alþýðu- eða aukaheiti fuglanna okkar, ýmist tekin úr handritum, prentuðum bókum eða af tungu fróðra manna og kvenna, auk annars þjóðfræðiefnis. En sökum þess að hver og ein fuglategund hafði ekki nema eina opnu til ráðstöfunar, varð margt af slíku efni út undan. Ég fór því bráðlega að huga að útgáfu annarrar bókar, sem nú er loksins komin á þrykk, um 25 árum síðar, og þar sem bæst hafa við ríflega 300 aukaheiti fuglanna, auk margs annars. Ég hef ekki lagt mig eftir því að skilgreina hvar á landinu viðkomandi fuglaheiti tíðkuðust, það er líka annað mál og flóknara og þarfnast nánari rannsóknar.“

Í íslenskri heimild frá 18. öld segir að fuglinn halkíon verpi í bláhafi á ís og geri sér hreiður úr fiskbeinum á sjö dögum fyrir sólhvörf á vetri, þau eru nánar tiltekið 20.–23. desember, og liggi síðan á jafnmarga daga á eftir. Mynd eftir ítölsku listakonuna Elenu Panetta, gerð sérstaklega fyrir bókina.

Ekki allt fallegt

Sigurður segir að eins og gefi að skilja sé ekki allt fallegt sem við blasi í gímaldi árþúsundanna, en það er samt haft með að einhverju leyti, til að skekkja ekki heildarmyndina. „Annað væri sögufölsun, enda ósanngjarnt að nota siðferðilegan mælikvarða nútímans á það sem á öldum áður þótti eðlilegt og var stundað dagsdaglega og kinnroðalaust.“

Hann segir að sig langi að halda upplýsingaöfluninni áfram og þætti vænt um að fá upplýsingar um ef lesendur eiga í fórum sínum enn önnur heiti en þessi sem honum hefur tekist að grafa upp. Heimildir að baki þessum aukaheitum, sem hann varðveiti í gagnagrunni, séu ekki tíundaðar í bókinni því þær skipti hundruðum og myndu lengja hana töluvert.

Viðmið Náttúrufræðistofnunar

„Ég ákvað að nota viðmið Náttúru­fræðistofnunar Íslands þegar kom að því að velja hvaða tegundir yrði fjallað um, en þar á bæ er litið svo á að 75 verpi hér reglubundið. Við þá tölu bætti ég haftyrðli, keldusvíni og snæuglu og hinu séríslenska fyrirbæri, hverafuglum.

Annars hafa rúmlega 400 tegundir sést á landinu og einhverjar reynt varp og sumar þeirra munu eflaust innan fárra ára bætast á þennan opinbera lista. Þar mætti nefna dvergmáf, eyruglu, fjallkjóa, fjöruspóa, gráþröst og skógarsnípu. Einnig hefði verið fróðlegt að leyfa geirfuglinum, sem og umferðarfarfuglum eins og blesgæs, margæs, rauðbrysting, sanderlu og tildru, að fljóta með, en það verður að bíða aukinnar og endurskoðaðrar útgáfu á komandi árum.

Íslensku fuglarnir eiga sér margir hverjir vetrarheimkynni erlendis. Bræður þeirra og systur er auk þess að finna víða um heim. Myndirnar í bókinni, útbreiðslukortin og þjóðtrúarefnið eiga að undirstrika tengslin og þessa dreifingu.“

Ef veður hamlar mönnum för yfir opið hafsvæði, skal að kvöldi dansa og syngja og hrópa: „–álêk“ eða: „A–adlek“ í þá átt, sem úr blæs, segja Grænlendingar. Hávellurnar eru nefnilega góðviðrisfuglar. Og að morgni er orðið stillt. Pennateikning eftir grænlenska listamanninn Jens Rosing. Úr Finn Lynge: Fugl og sæl — og menneskesjæl, 1981.

Bækur um náttúru- og guðfræði

Sigurður er höfundur bókanna Ísfygla: íslenskir fuglar: aves Islandicæ , Íslenskir hvalir, fyrr og nú, Íslenskar kynjaskepnur, Hvalir, Icelandic trade with gyrfalcons: from medieval times to the modern era, Íslenska Biblían: ágrip rúmlega fjögurra alda sögu, og Gústi: alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn. Auk þess ritstýrði hann Á sprekamó: afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúr-fræðingi sjötugum, 11. júní 2005 og Örnólfsbók: afmælisrit tileinkað Örnólfi Thorlacius 75 ára. Sigurður hefur einnig skrifað fjölda greina í innlend og erlend tímarit.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...