Tunguliprir svikarar
Fyrir um 100 árum síðan fluttust þrír menn að Gaulverjabæ í Flóa sem kunnugir telja þá verstu sendingu sem komið hefur í þá friðsælu sveit.
Mennirnir stunduðu þá fjáröflunaraðferð að heimsækja vel stæða bændur í héraðinu, gefa þeim vel af koníaki og fá þá til að skrifa nafnið sitt á pappíra, víxla og skuldabréf.
Jón M. Ívarsson, sagnfræðingur frá Vorsabæjarhóli, hefur
tekið saman bók um málið og þar segir hann frá hvernig undirferli, svik og prettir óvandaðra manna léku bændur í hans heimasveit og víða um Suðurland.
Svikararnir stóðu afhjúpaðir fyrir alþjóð
„Atburðir urðu landsfrægir á sínum tíma og var um fátt meira talað þegar tjöldin féllu og fjársvikararnir stóðu afhjúpaðir frammi fyrir alþjóð,“ segir Jón, „og í munni almennings kallaðist þetta Gaulverjabæjarmálin.“
Í kynningu um bókina segir að háttalag mannanna þriggja, Jóns Magnússonar, Björns Gíslasonar og Erasmusar Gíslasonar, hafi allt verið löglegt en að fláttskapur hafi búið undir. Þegar víxlarnir og skuldabréfin féllu í gjalddaga komu innheimtulögfræðingar á staðinn og hirtu eignir þeirra sem skrifað höfðu
undir.
Margir létu ginnast
Að sögn Jóns létu margir hrekklausir bændur ginnast af fagurgala þessara manna og hlutu fjárhagslegt skipbrot fyrir bragðið. „Dæmi eru um menn sem misstu jarðir sínar og eignir og urðu gjaldþrota og í bókinni er sagt frá mönnum sem bundu enda á líf sitt þegar bófarnir voru búnir að koma þeim á kaldan klaka. Þó langt sé um liðið lifa enn í munnmælum ýmsar sagnir um mennina og þeirra tiltektir og margt er um þá að finna í dómsmálabókum sýslunnar.“
Frá þessu og mörgu öðru er sagt í þessari áhugaverðu bók sem sannar það enn og aftur að raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en nokkur skáldsaga. Jón gefur sjálfur út bókina og verður hún eingöngu til sölu hjá honum. Þeir sem hafa áhuga á að eignast bókina geta haft samband við höfundinn gegnum netfangið jonmivars@gmail.com eða í síma 861 6678.