Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Serghii Kish fer fyrir hönd Sherp til Grænlands til þess að kenna nýjum eigendum á notkun tækisins.
Serghii Kish fer fyrir hönd Sherp til Grænlands til þess að kenna nýjum eigendum á notkun tækisins.
Mynd / ÁL
Líf og starf 4. október 2022

Úkraínsk torfærutæki með viðkomu á Íslandi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Tveir Sherp N 1200 torfærubílar sem framleiddir eru í Kiev komu við í Reykjavíkurhöfn á dögunum.

Tveir úkraínskir Sherp torfærubílar komu við í Reykjavíkurhöfn á leið sinni lengst norður í Grænland. Þar verða þeir notaðir við jarðfræðirannsóknir vegna vísbendinga um miklar birgðir af kopar. Til þess að verjast ágangi ísbjarna, hafa þessir bílar verið útbúnir með sérstökum grindum fyrir öllum gluggum.

Þetta eru bílar sem eru hannaðir til notkunar við erfiðustu aðstæður, hvort sem er við heimskautin, í frumskógum eða eyðimörk. Bílarnir sem komu hingað verða notaðir við leit að koparríku málmgrýti við 82. breiddargráðu á austurströnd Grænlands. Sherp bílarnir hafa verið framleiddir síðan 2012 af úkra-ínsku fyrirtæki.

Fram að innrás Rússa í Úkraínu voru þeir framleiddir í tveimur verksmiðjum, þ.e. einni í Úkraínu og annarri í Rússlandi. Eftir innrásina fluttist öll framleiðslan til Kænugarðs. Flestir íhlutirnir eru framleiddir af Sherp, en gírkassinn er framleiddur af Renault í Frakklandi og vélin af Doosan í Suður-Kóreu. Samkvæmt Serhii Kish, starfsmanni Sherp, hafa þeir framleitt yfir 1.000 stykki frá því að bíllinn kom fyrst á markað árið 2012. Stærsti markaður Sherp er í Kanada, en þangað hafa verið seldir 300 bílar. Serhii hefur fylgt mörgum Sherp bílum á áfangastaði sína til þess að kenna nýjum kaupendum á notkun þeirra. Meðal annars hefur hann farið til Suður-Súdan, Brasilíu og Indlands í sínum störfum.

Kanye West og SÞ meðal kaupenda

Þrátt fyrir að útlit Sherp minni á herjeppa þá eru þeir ekki notaðir sem slíkir. Þeir eru markaðssettir sem tæki fyrir björgunarsveitir, slökkvilið, hjálparstofnanir, rannsóknarteymi o.fl. Sameinuðu þjóðirnar nota til að mynda 15 Sherp við friðargæslu og matvælaaðstoð í Suður-Súdan.

Rapparinn Kanye West er mikill aðdáandi og hefur hann verslað sér tíu stykki af Sherp Pro 1000, sem er aðeins minni en N 1200 bíllinn. Í tónlistarmyndbandinu við lagið Closed on Sunday eftir West má sjá bílalest af Sherp trukkum flytja nokkra broddborgara yfir óblítt landslag.

Á bílnum er límmiði þar sem tekið er sérstaklega fram að hann hafi verið framleiddur í Kænugarði á stríðstímum.
Styttri en Polo – breiðari en vörubíll

Á myndum lítur bíllinn út fyrir að vera stærri en hann sannarlega er – reyndin er samt sú að hann er ákaflega stuttur á meðan hann er mjög hár og breiður. Lengdin er t.a.m. ekki nema 4.002 mm, sem þýðir að hann er 70 mm styttri en Volkswagen Polo. Hæðin er 2.825, sem er einum metra hærra en Toyota Land Cruiser. Breiddin er svo 2.520 mm sem er aðeins breiðara en flestir vörubílar.

Dekkin á bílnum eru svo engin smásmíði, en þau eru 180 sentímetrar eða 71 tomma í þvermál. Í hverri felgu er svo 58 lítra eldsneytistankur sem er beintengdir við aðaltankinn sem er 95 lítrar. Samtals er því rými fyrir 327 lítra af dísil. Ökumaðurinn getur auðveldlega hleypt úr dekkjunum innan úr ökumannshúsinu. Þegar nauðsynlegt er að auka þrýstinginn aftur er pústið tengt við dekkin.

Skriðstýrður

Sherp er ekki með beygjubúnað eins og flestir bílar, heldur er akstursstefnunni stjórnað með því að bremsa hjólum á annarri hvorri hliðinni. Inni í bílnum er því ekki hefðbundið stýrishjól, heldur er haldið í tvær stangir sem stjórna bremsunum á sinni hliðinni hver. Í gólfinu er svo kúpling og inngjöf, og gírstöngin er á milli sætanna. Hámarkshraði á landi er 40 km/klst. og 6 km/klst. á vatni.

Mikill kopar í jörðu

Eigandi bílanna tveggja er ástralska námufyrirtækið GreenX Metal, sem eru að hefja leit að kopar í Independence Fjord, við norð- austurhorn Grænlands. Þeir verða með 15 starfsmenn á svæðinu til að byrja með. Það eru m.a. jarðfræðingar, vélvirkjar, veiðimenn og einn snjósérfræðingur.

Ekki hefur verið unninn kopar úr jörðu á þessu svæði áður, en jarðfræðirannsóknir hafa bent til mikilla birgða. Independence Fjord er fjarri allri mannabyggð, en næsta fólk er að finna á örlítilli herstöð, Station Nord (íbúafjöldi: 5), sem er í 155 km fjarlægð í beinni loftlínu til suðausturs.

Þarnæsta byggð er svo veðurstöðin Danmarkshavn (íbúafjöldi: 8), sem er í 600 km fjarlægð suður af Independence Fjord.

Innflutningur til Íslands í burðarliðnum

Steingrímur Matthíasson hjá Skutli ehf., sem hefur flutt inn Tinger Armor torfærutækin frá Rússlandi, ætlar að hefja innflutning á Sherp. „Eftir að stríðið hófst þá lokaðist á þann möguleika að flytja inn fleiri Tinger. Hins vegar virðast þeir hjá Sherp hafa heyrt af mér og athuguðu hvort ég hefði áhuga á að flytja inn þeirra vörur í staðinn. Ég vonast til þess að það gangi eftir á næstu mánuðum,“ segir Steingrímur.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...