„... smalinn er alkominn heim“
Líf og starf 4. nóvember 2024

„... smalinn er alkominn heim“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Stephan G. Stephanssyni.

Hann fæddist árið 1853 á Kirkjuhóli í Skagafirði og hlaut nafnið Stefán Guðmundur Guðmundsson. Til fimmtán ára aldurs bjó hann í Skagafirði en flutti þá í Þingeyjarsýslu þar sem hann vann fyrir sér í vinnumennsku uns fjölskyldan flutti til Vesturheims árið 1873. Hann ólst upp í fátækt og átti ekki kost á skólamenntun sökum bágra kjara en varð síðar vel menntur af eigin rammleik.

Fyrstu fimm árin vestra bjó Stefán í Wisconsin í BNA, þar næst að Görðum í N-Dakóta og var þar í áratug. Loks flutti hann til Alberta-fylkis í Kanada þar sem hann bjó alla daga síðan. Hann kvæntist Helgu Sigríði Jónsdóttur laust fyrir 1880 og varð þeim átta barna auðið, þar af komust sex upp.

Stefán starfaði í byrjun við skógarhögg og járnbrautalagningu en um fertugt einbeitti hann sér að búskap. Land nam hann þrisvar sem bóndi og þótti vel af sér vikið enda fór mestur tími hans í bústritið. Hann breytti nafni sínu til hægðarauka á enska tungu.

Fyrsta ljóðakver Stefáns kom út árið 1894 og í kjölfarið komu frá honum margar ljóðabækur, flestar gefnar út í Reykjavík. Meginverk hans verður að teljast Andvökur I–VI sem út kom á árunum 1909–1938. Andvökur draga nafn sitt af því að Klettafjallaskáldið, eins og Stefán er oft nefndur, átti erfitt með svefn í Vesturheimi og flest ljóð hans því samin á nóttunni.

Hann orti gjarnan ádeilukvæði og tók þá málstað lítilmagnans gegn auðvaldi og ógnarstjórn, stríði og kirkjuvaldi. Einnig skrifaði hann fögur ættjarðarljóð, innblásin af söknuði og rómantík, auk þess sem andi Íslendingasagna var honum aldrei fjarri í skáldskapnum.

Stefáns kom aðeins einu sinni upp til Íslands aftur, árið 1917, og fór þá hringferð um landið.

Hús Stefáns og Helgu í Alberta stendur enn á heimilisjörð fjölskyldunnar, skammt frá þorpinu Markerville. Húsið (Stephansson House) hefur verið gert upp og í dag er það sögustaður á vegum Albertafylkis (Alberta Provincial Historic Site). Á sumrin (maí-ágúst) er það opið almenningi.

Stefán lést árið 1927.

Smalavísa 

Hann fæddist við jötu, hann fóstruðu krær,
og fjárhúsin vóru hans uppeldis-bær,
en þó urðu smalanum kynnin sín kær
sem keisarahöllin mun þér.

Því það skaltu vita, þó veran sé þröng
í vistinni þeirri, er fjárgatan löng
um hálendið: frjálsræðið, sólskin og söng,
sem sumargjöf smalanna er! 

Því það skiptir engu, þó átt hafi stríð
við örðugar brekkur, við þokur og hríð,
því heiðríkjan indæl og útsýnin víð
var engum svo fagnaðarkær.
Því smalinn á dalinn sinn, fjörur og fjöll,
allt fagrablik dagsins af brún o‘n á völl –
og björt eins og vinfengi er eignin hans öll,
sem unnustu dálát hver bær.

Hann gekk yfir tinda, en hjallana hann
í hlíðinni miðri sér þekkasta fann,
því þar skín í ljósmáli allt, sem hann ann:
hans eigið og sveitin hans víð.
Og hugsana ljósbreiður líða þar hjá
sem lagðsíðar hjarðir um fjallaskörð há,
og dátt óma ljóðin frá löngun og þrá
sem lóukvök neðan úr hlíð.
Hann hefur svo glaðværa einveru átt.
Hann óskar þess stundum – en hugsar það lágt,
því lítil er óskin að hrópa hana hátt
um hérað og fjallanna geim –:
„Þú hlíð varst mér ljúfust! Er leiðin mín þver,
ég leifa vil síðasta byrgið mitt hér,
því hér hef ég smíðað svo smátt sem það er –
og smalinn er alkominn heim.“

Ort 1903, Andvökur, 1. bindi, bls. 258–9, Bókaútgáfa Menningarsjóðs útg. 1953.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...