Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Séra Sigurður Ægisson við völvuleiði að Reykjum í Mjóafirði, í forgrunni.
Séra Sigurður Ægisson við völvuleiði að Reykjum í Mjóafirði, í forgrunni.
Mynd / Halldór Halldórsson
Menning 24. apríl 2023

Völvur og völvuleiði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í Eddukvæðum er talað um völvur, kynngimagnaðar konur sem taldar voru búa yfir margs konar vitneskju. Þekktust er umfjöllum um þær í Völuspá og Baldurs draumum, auk þess sem þeirra er getið víða í Íslendingasögunum. Völvur voru taldar geta séð ókomna atburði og örlög manna.

Séra Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, er að vinna að bók um völvur og völvuleiði á Íslandi. „Völvur voru konur sem tengdust norrænum átrúnaði eða svokallaðri ásatrú, sem er rangnefni, því Vanir komu líka við sögu. Fólk sem vildi fræðast um komandi tíma gekk meðal annars til slíkra kvenna. Þær voru fjölkunnugar og sögðu fyrir örlög manna og óorðna hluti. Af fornum heimildum má ráða að völvur hafi á 8., 9. og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar. Ég hef samt efasemdir um að slíkt hafi gerst hér fyrr en löngu síðar,“ segir Sigurður.

Rannsóknir á völvum

Fornleifafræðingar hafa verið að rannsaka völvur mikið erlendis, endurmeta eldri, þekkt kuml og grafa upp ný, þannig að mikil gróska er í þessum fræðum og verður eflaust lengi áfram.

„Þetta hófst upp úr 1995,“ segir Sigurður,“ ef ég man rétt. Þeim finnst líklegt að sumar þessara dysja séu í raun og veru völvuleiði, grafir þessara fornu sjáenda og í sumum tilvikum seiðkvenna, sem lesa má um í fornritum okkar. Þetta er mjög spennandi.

Völvur hafa bersýnilega verið mjög virtar áður fyrr og ríkulega búnar, enda þáðu þær laun fyrir þjónustu sína í perlum og slíku. Lýsingin á Þorbjörgu lítilvölvu, í Eiríks sögu rauða, styður þetta. Þetta á að gerast í kringum árið 1000 en er sennilega skráð um 1300. Þar segir meðal annars:

„Í þennan tíma var hallæri mikið á Grænlandi; höfðu menn fengið lítið þeir sem í veiðiferðir höfðu farið, en sumir eigi aftur komnir.

Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona; hún var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.

Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferð. Og með því Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búinn góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsafiðri.

En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tyglamöttul bláan og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.“

Þess má geta, að samkvæmt Grágás var kattarskinn margfalt verðmeira en refaskinn. Það segir ýmislegt.

Rúnasteinn á völvuleiðinu í Leyningshólum í Eyjafirði. Mynd / Sigurður Ægisson.

Völvuleiði á Íslandi

Sigurður segist hafa frá árinu 1985 verið að safna upplýsingum um völvuleiði á Íslandi. Oft er þar um að ræða hóla, steina, þúfur í túni eða óreglulegar þústir.

„Völvuleiðin eru mörg eystra og með suðausturströndinni en fækkar eftir því sem norðar og vestar dregur. Alls hef ég fundið í örnefnaskrám, bókum og í öðrum heimildum 63 völvuleiði á um 50 stöðum. Um flest þessara völvuleiða er lítið vitað, en örfáum fylgja þó sagnir, munnlegar eða ritaðar.

Þar kemur stundum fram, að sá, sem hressi við leiðið ef það er farið að láta á sjá, eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn. Kunnasta frásögnin af slíku er líklega frá Kálfafellsstað frá því skömmu fyrir 1900, í tíð séra Péturs Jónssonar, þegar mikið tré rak á fjörur landareignarinnar og úr því var reist timburhús á Kálfafellsstað, 14 álna langt og 7 álna breitt, einlyft með porti. Það stóð fram yfir 1950.

Mörg völvuleiðanna eru því miður týnd, og það fyrir ekkert svo löngu, mörg hurfu á 20. öld, sum í ógáti, önnur við ábúendaskipti og einnig vegna þess að land var brotið til ræktunar, og vitneskja um mörg önnur er að glatast, nema þá hin allra kunnustu, svo sem á Hólmahálsi í Reyðarfirði, í Einholti á Mýrum, í Norður-Vík í Mýrdal og á Felli og einhver fáein í viðbót, þar á meðal í Leyningshólum inni í Eyjafirði.

Tíminn er með öðrum orðum að hlaupa frá okkur hvað þetta varðar. Þetta er að glatast. Það má ekki gerast. Þetta eru menningarminjar.

Upplýsingar um völvuleiði

Upphaflega ætlaði Sigurður að skrifa BA-ritgerð í þjóðfræði um þessi völvuleiði, veturinn 1997– 1998, en af því varð ekki, aðallega sökum þess að honum varð ljóst að hann gæti ekki náð utan um þau öll á þeim tímapunkti. Lokaverkefnið varð því annað. Hins vegar skrifaði hann grein um þau í Lesbók Morgunblaðsins 1992, sem vakti athygli enda málið forvitnilegt. Hún bar yfirskriftina: Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi.

„Mig langaði hér að nota tækifærið að athuga hvort lesendur Bændablaðsins viti deili á einhverjum völvuleiðum og þá jafnvel hvort einhverjar nýrri sagnir tengjast þeim, eitthvað undarlegt sem átt hefði sér stað nærri þeim. Ekkert slæmt endilega, heldur eitthvað illskiljanlegt.

Ég veit sjálfur um nokkra slíka atburði og varð vitni að einum. En ég má ekki ljóstra of miklu upp á þessari stundu. Bókin er hins vegar væntanleg á markað í vetrarbyrjun.“

Sigurður biður fólk sem geti liðsinnt honum að senda sér tölvubréf á sae@sae.is eða hafa samband í síma 899-0278. „Ég tek fagnandi við öllum upplýsingum, jafnvel þótt ég kunni að vita af hinu eða þessu völvuleiðanna. Maður getur alltaf á sig blómum bætt. Og góð vísa er aldrei of oft kveðin.“

Skylt efni: menningarminja | völvur

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...