350 milljóna evra styrkur
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Áætlanir eru um að leggja um 350 milljónir evra í sjóð sem verður útdeilt til kúabænda í löndum Evrópusambandsins. Þetta eru rúmlega 47 milljarðar íslenskra króna. Aðildarlöndin hafa leyfi til að tvöfalda þá upphæð.
Danir fá 70 milljónir danskra króna í „hjálparpakka“, eða tæplega 1,3 milljarða íslenskra króna, fyrir þarlenda mjólkurbændur. Að auki verður haldið eftir um 150 milljónum evra (20 milljörðum íslenskra króna) í sjóði sem bændur innan Evrópusambandsins geta sótt í. Upphæðin sem fer til Dana verður notuð til að minnka framleiðsluna. Peningarnir eiga að nýtast öllum búgerðum, hvort heldur sem um lítil eða stór bú er að ræða.
Niels Lindberg Madsen, Evrópusambandssérfræðingur hjá dönsku bændasamtökunum Landbrug & fødevarer, er áhyggjufullur yfir því að löndin megi tvöfalda upphæðina því erfitt sé fyrir Dani að keppa við það. Þeir verði því óhjákvæmilega undir í samkeppninni.