Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Frá deildarfundi nautgripabænda.
Frá deildarfundi nautgripabænda.
Mynd / Róbert Arnar
Fréttir 26. febrúar 2024

Áherslumál við gerð nýrra búvörusamninga mótast

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Tollamál, starfsskilyrði bænda, framleiðslustýring og mögulegur innflutningur á nýju mjólkurkúakyni var meðal umræðuefna á deildarfundi nautgripabænda.

Hátt í fjörutíu bændur sátu deildarfund nautgripabænda dagana 12. og 13. febrúar sl. Framtíð framleiðslustýringarkerfis í mjólkurframleiðslu var rædd og tillaga samþykkt þess efnis að meta þurfi hvernig núverandi búvörusamningur hafi reynst bændum. Þá þurfi að skoða með hvaða hætti megi lækka kostnað við það framleiðslustýringarkerfi sem við lýði verður.

Þá var samþykkt tillaga um endurskoðun framkvæmdar úthlutunar tollkvóta. „Lágt verð tollkvóta getur haft mikil áhrif á birgðastöðu nautakjöts hér á landi. Haldi útboðin áfram á sömu leið má leiða líkur að því að offramboð verði á nautakjöti sem mun leiða til hruns á afurðaverði. Til að sporna við þessu mætti til að mynda setja lágmarksverð á tollkvóta. Við þær aðstæður myndi eftirspurn úti á markaði fremur stjórna innflutningi á nautakjöti heldur en kerfislegir hvatar til innflutnings,“ segir í rökstuðningi með samþykktri tillögu.

Vilja segja upp samningi við ESB

Fundurinn krafðist þess enn fremur að samningi Íslands og Evrópusambandsins með landbúnaðarvörur verði tafarlaust sagt upp. Í rökstuðningi er vísað til úttektar utanríkisráðuneytisins þess efnis að forsendur samningsins sé íslenskum bændum í óhag. „Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því við ESB í lok árs 2020 að tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður en síðan hefur lítið heyrst. Því er íslenskum stjórnvöldum sá einn kostur að segja upp núverandi samningi.“ Einnig var samþykkt tillaga sem ítrekar mikilvægi þess að tollvernd fylgi verðlagi, enda órjúfanlegur hluti af starfskjörum og starfsöryggi bænda.

Áherslumál nautgripabænda við gerð búvörusamninga eru tiltekin í samþykktri tillögu; stórauka þurfi fjármagn sem sett er í samningana, tollvernd verði að vera aukin til muna og auka þarf verulega stuðning við nautakjötsframleiðslu í gegnum sláturálag. Einnig vill fundurinn að hagræðingarkrafa verði tekin út. „Það að stuðningsviðmiðun hafi verið fryst frá árinu 2004/2005 hefur haft veruleg og neikvæð áhrif á rekstrarforsendur í mjólkurframleiðslu þar sem tekjur voru ekki tryggðar á móti,“ segir í rökstuðningi með tillögunni.

Þá er bent á að á meðan heildargreiðslumark í mjólk hafi aukist verulega hafi heildargreiðslur á greiðslumark rýrnað um tæp 59% af raunvirði. Því var samþykkt tillaga þess efnis að tryggt verði að greiðslur sem greiddar eru út á lítra af mjólk haldist óbreyttar á hvern lítra þótt heildargreiðslumark breytist milli ára. Fundurinn beindi enn fremur því verkefni til stjórnar BÍ að athuga hvort umboðsmaður Alþingis geti tekið til skoðunar hvort ríkisstjórnin brjóti lög með því að fara ekki eftir búvörusamningnum. Þá eigi stjórn BÍ að hefja samningaviðræður við afurðastöðvarnar um að taka upp merkið Íslenskt staðfest.

Einnig er það vilji fundarins að verulega verði aukið við það fjármagn sem fer í nýliðunar- og fjárfestingastuðning en þeir fjármuni verði ekki teknir af öðrum liðum. Þar að auki gagnrýnir fundurinn stjórnvöld harðlega fyrir þá mismunun sem viðhöfð var við framkvæmd greiðslna úr þeim potti sem stjórnvöld úthlutuðu í lok síðasta árs, en í rökstuðningi segir að ákveðinn hópur bænda hafi ekkert fengið og nefna sem dæmi nautgripabændur sem ekki halda holdakýr og ungir bændur sem tóku við rekstri frá 2012 til 2016. Önnur tillaga felur í sér áskorun um að hefja viðræður um að styrkja frekar þá bændur sem framleiða nautakjöt með eldi á nautkálfum undan íslenskum mjólkurkúm.

Skiptar skoðanir um nýtt mjólkurkúakyn

Fundurinn brýndi fyrir stjórn deildarinnar að leggja áherslu á að flýta vinnu við nýjan verðlags- grundvöll mjólkur og kjöts eins og kostur er. Þá var samþykkt að stjórn BÍ komi því skýrt til skila við stjórnvöld að það sé mikilvægt þegar málefni landbúnaðarins eru til umræður að Bændasamtökin séu höfð með í ráðum, með tilliti til reglugerðabreytinga, lagasetningar og gerð samninga sem lúta að landbúnaði sem og að hafið verði samtal við stjórnvöld um hvaða leiðir skuli fara og hvernig aðkoma ríkisins skuli vera að því að tryggja hagstæðari lánakjör til landbúnaðarins í heild.

Skiptar skoðanir voru um mögulegan innflutning á nýju erfðaefni í mjólkurkúastofninum en samþykkt var að stjórn NautBÍ kannaði áhuga bænda á innflutningi á nýju mjólkurkúakyni.

Fundurinn lýsti þungum áhyggjum af slakri kjörsókn stærstu deilda Bændasamtakanna, en hún var 26% hjá félagsmönnum NautBÍ og rúmlega 22% hjá sauðfjárbændum.

Einnig voru samþykktar ályktanir um reglulega félagsfundi, aðgengi rafrænna félagsfunda, um útlagðan kostnað fulltrúa við fundar- setu, um upplýsingaflæði til félagsmanna, verklagsreglur um nefndarstörf, um sameiningu deildarfunda og Búnaðarþings, um förgun á dýrahræjum, einfaldað regluverk um heimavinnslu afurða og heimslátrun. Þá samþykkti fundurinn að stjórn beiti sér fyrir því að samið verði við óháðan aðila sem bændur geti leitað til um ráðgjöf og aðstoð til að bregðast við þegar upp koma tilvik þar sem mjólkurgæði falla.

Skylt efni: nautgripabændur

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...