Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklayfja
Fréttir 25. nóvember 2020

Alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklayfja

Höfundur: Guðrún Lind Rúnarsdóttir, fagsviðsstjóri lyfjamála hjá Matvælastofnun. Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir súna og lyfjaónæmis hjá Matvælastofnun.

Dagana 18.–24.nóvember er árleg alþjóðleg vitundarvika um skyn­samlega notkun sýklalyfja. Markmið þessarar viku er að auka skilning og meðvitund um sýkla­lyfjaónæmi og hvetja til þess að sýklalyf séu notuð skynsamlega á öllum sviðum, hvort sem er hjá mönnum eða dýrum.


Að vikunni standa Alþjóða­dýra­­heilbrigðisstofnunin (OIE), Alþjóða­heilbrigðistofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) enda skiptir máli að sýklalyf séu notuð skynsamlega á öllum þessum sviðum.

Hvað er sýklalyfjaónæmi?

Sýklalyfjaónæmi hefur verið mikið í umræðunni hérlendis síðustu ár en sumir velta e.t.v. enn fyrir sér hvað það er. Sýklalyfjaónæmi er þegar bakteríur hafa þróað með sér ónæmi fyrir þeim sýklalyfjum sem virkuðu áður á þær. Ef sýklalyf missa virkni sína þá getur reynst erfitt að meðhöndla sýkingar í mönnum og dýrum.

Sýklalyfjanotkun skiptir máli þar sem röng og/eða óhófleg notkun á sýklalyfjum eykur líkur á að bakteríur myndi ónæmi fyrir sýklalyfjum. Óhófleg notkun getur stafað af of mikilli ávísun sýklalyfja meðal lækna og dýralækna og aðgengi almennings að sýklalyfjum án lyfseðils, svo dæmi séu nefnd. Notkun sýklalyfja til meðhöndlunar á veirusýkingum og notkun sýklalyfja sem vaxtarhvetjandi efni fyrir búfé eru dæmi um ranga notkun sýklalyfja. Sýklalyfjanotkun í dýr er með lægsta móti hérlendis í samanburði við önnur Evrópulönd en þrátt fyrir það er svigrúm til þess að gera enn betur.

Allir hafa hlutverki að gegna í baráttunni við sýklalyfjaónæmi og berum við ábyrgð á því að leggja okkar af mörkum í þeirri baráttu. Bændur spila þar stórt hlutverk enda bera þeir ábyrgð á heilbrigði og velferð dýra sinna og það er lykilatriði er kemur að sýklalyfjanotkun í dýr.

Forvarnir

Það sem við flest höfum lært á þessu ári í COVID-19 faraldrinum er að smitvarnir er besta vörnin og á það líka við um sýklalyfjaónæmi. Með því að bændur hugi að góðum smitvörnum og öðrum forvörnum, svo sem bólusetningum, kynbótum og bættri velferð dýra, leiðir það af sér betra dýraheilbrigði og um leið minni þörf á sýklalyfjum.

Eins og við höfum oft heyrt þríeykið svokallaða segja skipta persónubundnar smitvarnir mestu máli í COVID-19 faraldrinum, þá bera bændur sjálfir ábyrgð á smitvörnum á búum sínum og orðatiltækið „bóndi ver þitt bú“ stundum notað í því samhengi. Bændur þurfa að hafa í huga að mesta hættan á að smit berist inn á bú er með lifandi dýrum, þar á eftir saurmegnuðum áhöldum, tækjum, tólum og fatnaði. Fólk sem fer á milli bæja starfa sinna vegna, t.d. sæðingarmenn, dýralæknar, klaufskurðarmenn, rúningsmenn, viðgerðarmenn sem og aðrir gestir, geta einnig borið með sér smit. Bóndi getur iðkað góðar smitvarnir með því að eiga til hlífðarfatnað og stígvél fyrir gesti og fylgjast með því að þjónustuaðilar komi ávallt með hreinan búnað á búið. Hlífðarfatnað búsins ætti að þvo reglulega og vaskur ætti að vera nálægt inngangi þannig að gestir búsins geti þvegið sér um hendur áður en gengið er lengra inn.

Oft og tíðum eru dýralæknar einungis kallaðir til vegna sjúkra dýra en bændur ættu líka að nýta sér þekkingu þeirra, og annarra, í forvarnarskyni. Bændur geta haft samband við sinn dýralækni og leitað eftir því að fá almennt heilbrigðismat á búinu og ráðgjöf um hvað hægt er að gera til að stuðla að bættum smitvörnum og betra heilbrigði hjarða sinna. Þannig er mögulega hægt að fyrirbyggja hugsanleg vandamál í staðinn fyrir að þurfa að bregðast við þeim. Slík nálgun getur fljótlega borgað sig fjárhagslega með bættu dýraheilbrigði og auknum afurðum.

Fræðsluefni

Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur gefið út mikið upplýsingaefni vegna sýklalyfjaónæmis sem er m.a. beint að einstaka hópum hagsmunaaðila. Þar má nefna fræðslu­efni ætlað bændum sem Matvælastofnun gaf út á íslensku í fyrra. Um er að ræða annars vegar bækling og hins vegar einblöðung. Þar koma fram helstu upplýsingar um sýklalyfjaónæmi er varða bændur og hvað þeir geta innleitt í sínum störfum til að draga úr notkun á sýklalyfjum. Meðal annars koma þar fram hinar fimm „einungis“-reglur þar sem þessi atriði eru dregin saman á hnitmiðaðan hátt. Fræðsluefnið er hægt að nálgast á heimasíðu Matvælastofnunar og e.t.v. hægt að prenta út og hafa í gripahúsum til áminningar.

Sameiginlegt verkefni allra

Eins og áður sagði er baráttan við sýklalyfjaónæmi sameiginlegt verkefni allra, ekki eingöngu á sviði dýraheilbrigðis. Baráttan við sýklalyfjaónæmi er undir formerkjum „Einnar heilsu“, eða „One Health“ á ensku. Í því hugtaki er lögð áhersla á að heilbrigði fólks, dýra og umhverfis sé samtengt, að sýklalyfjaónæmi berist í menn frá dýrum og umhverfi, og öfugt. Þannig þarf að grípa til ráðstafana með heildstæðum hætti á öllum sviðum, þ.e. með samstarfi á milli stjórnvalda, bænda, dýralækna, heilbrigðisstarfsmanna, vísindamanna og almennings, þar sem allir geta lagt sitt af mörkum.

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...