Aukin þörf fyrir menntaða leiðsögumenn
Út er komin greinargerð um menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna. Í greinargerðinni segir meðal annars að fjölgun ferðamanna á Íslandi auki þörfina fyrir sérmenntað og hæft starfsfólk til að annast móttöku og þjónustu við ferðamenn. Greinargerðin er unnin af starfshópi Leiðsagnar – félagi leiðsögumanna.
Fram kemur í greinargerðinni að leiðsögumenn sinna fjölbreyttum verkefnum, allt frá almennri leiðsögn í hópferðabílum, á viðkomustöðum ferðamanna og í gönguferðum, yfir í margvíslega afþreyingarleiðsögn, svo sem við flúðasiglingar, hvalaskoðun, jöklaferðir og siglingar á sjó og vötnum, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur sívaxandi áhersla á ferðir yfir vetrartímann sett sitt mark á starfið.
Samkvæmt því sem segir í skýrslunni er meginmarkmið náms og kennslu í leiðsögn að gera nemendur hæfa til að sinna starfi leiðsögumanns og þjálfa verklega færni sem nýtist þeim í starfi. Námið þarf að standast þær kröfur sem ferðaþjónustan og þjóðfélagið allt gerir á hverjum tíma til starfs leiðsögumanna, ekki síst í ljósi hraðfara breytinga í starfsgreininni, og að fagmennska sé þar ætíð í fyrirrúmi.
Í ályktun í lok greinargerðarinnar er meðal annars lagt til að hafnar verði viðræður hið fyrsta við Samtök ferðaþjónustunnar um þær kröfur sem gera á um störf og starfsundirbúning þeirra sem starfa við leiðsögn ferðamanna hér á landi og hvernig þær birtist í gæðakerfinu Vakanum.