Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Heimafólk smíðaði nýja rétt í Kollafirði og var hún vígð með fyrstu réttum síðla september. Réttin stóðst væntingar og gott betur.
Heimafólk smíðaði nýja rétt í Kollafirði og var hún vígð með fyrstu réttum síðla september. Réttin stóðst væntingar og gott betur.
Mynd / Sveinn Ingimundur Pálsson
Fréttir 22. október 2024

Bændur byggja rétt

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu nýrrar réttar í Kollafirði og var réttað í henni í fyrsta sinn 22. september sl.

Kollafjarðarrétt stendur í landi Litla-Fjarðarhorns. Í upphafi var, að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra í Strandabyggð, leitað eftir ábendingum bænda á svæðinu varðandi staðsetningu og fyrirkomulag nýrrar réttar. Komið hafi góðar ábendingar frá bændum í Miðhúsum og Stóra-Fjarðarhorni, meðal annars um staðsetningu réttarinnar í landi Litla-Fjarðarhorns, ekki langt frá þjóðveginum. Var því leitað til landeigenda þar, sem veittu góðfúslega leyfi fyrir réttarsmíðinni.

Steinadalsbændur tóku verkefnið

Þegar ákveðið hafði verið að byggja rétt var auglýst eftir einhverjum sem vildi taka slíkt að sér en ekki bárust raunhæf tilboð, að sögn Þorgeirs.

Þá buðust Steinar Þór Guðgeirsson og Ástríður Hjördísar Gísladóttir, bændur í Steinadal, til að taka verkefnið að sér og var tíminn þá orðinn nokkuð naumur fyrir komandi réttir. Þau fengu vaskan hóp fólks í lið með sér og studdust við sömu teikningu og rétt í Staðardal er gerð eftir. Um gerð púðans undir réttina sáu einnig bændur í sveitarfélaginu.

Segir Þorgeir Orkubúið hafa lagt til rafmagnsstaura og krakkar í grunnskólanum fengu það hlutverk að mála skilti með nafni réttarinnar. Starfsmenn sveitarfélagsins komu að því að saga niður staurana, ferja efni út í Kollafjörð og setja upp skiltið góða.

Kollafjörður er stuttur fjörður á Ströndum. Næsti fjörður norðan við er Steingrímsfjörður en sunnan við er Bitrufjörður. Kort / Wikipedia

Unnið í kapp við tímann

Smíði réttarinnar var á köflum svolítið kapp við tímann að sögn Þorgeirs, en með jákvæðni og mikilli vinnu hafðist það. Gott hafi verið að finna þá samstöðu og jákvæðni sem verði til þegar menn vilja sjá nauðsynleg verkefni verða að veruleika. Það eigi sannarlega við í þessu tilfelli.

Á fallegum haustdegi seint í september var svo réttað í fyrsta sinn í hinni nýju rétt og var Steinar Þór réttarstjóri. Segir hann réttarhaldið hafa gengið mjög vel og réttin virðist standast allar væntingar. Ástríður tekur undir það og bætir við að þau hjónin séu nýgræðingar í búskap og hafi þarna verið í fyrsta sinn að fara í réttir og gengið ljómandi vel.

Sveitarfélagið hefur staðið að byggingu þriggja rétta undanfarið: Staðardalsréttar, Krossárréttar og nú Kollafjarðarréttar. Öll þessi verkefni voru auglýst en á endanum voru það bændur á svæðinu sem tóku gerð réttanna að sér.

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...