Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Það er tilgangslítið að vera með stóran og afkastamikinn mjaltabás ef kýrnar þurfa oft að standa og bíða eftir einni sem er mjög seinmjólka. Annaðhvort þarf að draga seinmjólka kýrnar saman í mjaltir eða koma þeim út úr framleiðslunni.
Það er tilgangslítið að vera með stóran og afkastamikinn mjaltabás ef kýrnar þurfa oft að standa og bíða eftir einni sem er mjög seinmjólka. Annaðhvort þarf að draga seinmjólka kýrnar saman í mjaltir eða koma þeim út úr framleiðslunni.
Fréttir 9. mars 2015

Bættu afköst hverrar vinnustundar

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Ráðgjafafyrirtækinu SEGES P/S
Undanfarin ár hafa bú á Íslandi stækkað og fyrir vikið hefur vinnuálagið aukist á ábúendur, en fæstir hafa væntanlega ráðið starfsfólk að búum sínum. Stærri og umsvifameiri búrekstur getur hæglega valdið því að frítími bænda verði lítill sem enginn en það er ástæðulaust að láta búskapinn eyða upp frítímanum.
Erlendis, þar sem þróun í stækkun búa er komin töluvert lengra en hér á landi, hafa margir bændur lent í því að verða þrælar búa sinna og þurft að nota alltof margar vinnustundir í viku hverri við hefðbundin bústörf. Á sama tíma kallar samfélagið eftir því að á bak við hvert starf geti skapast svigrúm til þess að verja eðlilegum frítíma sínum með fjölskyldu eða vinum. Eða við að sinna áhugamálum. Þessi sjálfsagði réttur, að geta varið frítíma sínum að eigin geðþótta, hefur gert það að verkum að erlendis er oft erfitt að fá ungt fólk í búskapinn. Það er vegna þess að það getur hreinlega ekki hugsað sér langa vinnudaga, nánast allt árið um kring. Á þessu er þó til lausn, en hún felst í því að bæta afköst hverrar vinnustundar.
 
Þrepastækkun búa
 
Eðlileg afleiðing þess að bú stækki, er að bæta þarf við starfskröftum, en þegar bú eru af óheppilegri stærð, er ekki endilega hagkvæmt að ráða að fólk. Enda má reikna með því að með hverjum viðbótarmanni eða konu sé hægt að auka vinnuframlagið á búinu. 
 
Í Danmörku er oft miðað við, á kúabúum, að fyrstu 100–120 árskýrnar sjái ábúandinn um. Svo þarf hann að ráða sér vinnukraft séu kýrnar fleiri. Sá vinnukraftur, til viðbótar bóndanum sjálfum, getur hins vegar nýst honum jafnvel þó búið stækki og alveg upp í um 200 árskýr. Þá þarf að ráða inn þriðja starfsmanninn og geta þessir þrír ráðið við reksturinn upp í þetta 280 kýr en þá þarf að bæta við fjórða manni svo vel eigi að vera o.s.frv. 
 
Þó svo að framangreindar tölur séu allnokkuð frábrugðnar íslenskum aðstæðum þá má vænta þess að svipað samhengi sé með stækkandi búum, þ.e. að með hverjum viðbótarstarfsmanni geti búið stækkað töluvert mikið, án þess að bæta þurfi við enn einum starfsmanni. Þegar um slíkt millibils ástand er að ræða, þ.e. frá því að ábúandinn er einn og þar til bæta þarf við starfsgildi, þá skiptir miklu máli að nýta tímann sem best svo afköstin verði mest. Þónokkur hluti starfa okkar sem störfum við ráðgjöf í Danmörku felst einmitt í því að aðstoða bændur við að finna leiðir til þess að nýta tíma sinn betur og eru þar töluvert margar lausnir í boði.
 
LEAN er lykillinn
 
Sé vilji til þess að bæta afköst hverrar vinnustundar þarf að fara vel yfir alla verkferla við daglegar gegningar á búinu og finna þá staði þar sem verðmæti tapast. Þetta ferli, að leita að hinum töpuðu verðmætum, er stundum kallað LEAN sem er hugtak sem notað er yfir hagræðingarferla og er notað víða um heim bæði í iðnaði og landbúnaði. 
 
Algengustu mistökin sem gerð eru felast í vöntun á góðu skipulagi við daglegar gegningar en til þess að koma auga á þessi mistök þarf viðkomandi bóndi að vera mjög sjálfsgagnrýninn, tilbúinn til þess að takast á við breytingar og alltaf að vera með hugann við það hvernig hægt sé að gera betur.
 
Töpuð verðmæti
 
Við dagleg störf okkar erum við að tapa verðmætum víða eins og gengur, en algengast er að skýringin felist í fimm þáttum: 
Biðtíma og þar með töpuðum vinnutíma, óskipulagi við gegningar sem getur leitt til meiri vinnu eða minni afurða gripanna. Óþarfa flutningum/hreyfingum sem getur leitt af sér þörf fyrir aukna vinnu eða sliti. Mistökum sem oftast leiðir til tapaðra verðmæta eða sóun vegna fullkomnunar. Það getur leitt til þess að það skortir tíma til þess að gera eitthvað sem skapar raunveruleg verðmæti. Þetta er e.t.v. svolítið ruglingslegt en nefna má dæmi um framangreind atriði:
 
Biðtími: 
Á þennan lið má færa margs konar skýringar en nefna má dæmi eins og t.d. bið eftir hægmjólka kú í mjaltabás eða  bið vegna bilana.
 
Óskipulag:
Hér má nefna dæmi eins og tapaðan vinnutíma við að leita að verkfærum eða varahlutum vegna óskipulags í vélaskemmu eða á lager.
 
Óþarfa flutningar/hreyfingar:
Á mörgum búum er verið að verja of miklum vinnutíma í óþarfa flutninga og má nefna dæmi eins og ranga staðsetningu á verkfærum sem eru notuð daglega, burður á mjólk í smákálfa (þ.e. ranglega staðsettir kálfar/úttökustaður mjólkur) eða t.d. undarlega staðsettur lager miðað við notkunarstað lagervörunnar.
 
Mistök:
Á þennan þátt má heimfæra töluvert af atriðum sem leiða af sér töpuð verðmæti eins og t.d. skita í kálfum, lyfjamenguð mjólk, mygla í heyi eða slitnar innréttingar. Þessi atriði sem hér eru nefnd má oft koma í veg fyrir með breyttu vinnulagi eða breyttri notkun aðfanga og þar með færa atriðin úr áhættuflokki mistaka.
 
Sóun við fullkomnun:
Þessi þáttur er nokkuð áhugaverður en á sumum búum er varið tíma í verkþætti sem algerlega er óþarfi að verja miklum tíma í eins og t.d. að bóna dráttarvélar en á sama tíma hefði e.t.v. verið betra að hreinsa ristar eða eitthvað annað sem gagnast beint til þess að létta vinnuna við daglegar gegningar.
 
Skriflegar leiðbeiningar
 
Til þess að hjálpa sér við að koma auga á það hvar maður er að tapa tíma og verðmætum, þarf oft að fá aðstoð utan frá enda gildir hér sem fyrr að betur sjá augu en auga. Það er þó hægt að gera ýmislegt án aðkomu annarra eins og t.d. að skrifa niður helstu vinnubrögð við daglegar gegningar. Þetta kann að hljóma hálf kjánalega en er gríðarlega gott og árangursríkt segja þeir sem hafa gert. Hver og einn gæti gert þetta á sínu búi líkt og það væri verið að útbúa leiðbeiningar fyrir afleysingafólk sem hefur aldrei unnið á búinu. Þá þarf að gera góða lýsingu á verkferlum en tilfellið er að þegar þetta er gert nákvæmlega, koma bændur oft auga á annmarka eða einhverja vinnuferla sem má bæta til þess að stytta vinnutímann.
 
5S
Önnur aðferð sem er afar gagnleg er að notast við essin fimm, þ.e. 5 x S. Með þessari aðferð þvingar maður sjálfan sig til þess að staðla vinnubrögð og vinnuferla og með því má ná verulegum árangri í átt að bættri nýtingu vinnutíma eða minni sóunar verðmæta. Essin fimm standa fyrir:
 
Sortera: 
Að flokka niður hluti sem maður notar daglega og fjarlægja aðra sem eru sjaldan notaðir er aðferð sem margir mættu tileinka sér. Oft þvælast hlutir fyrir, sem auðveldlega mætti fjarlægja og koma fyrir með annars konar hætti.
 
Staðsetja:
Með því að koma sér upp góðu skipulagi við uppsetningu tækja og tóla sem maður notar reglulega, næst nánast sjálfkrafa góður árangur. Sumum hefur reyndar reynst erfitt að koma sér upp góðu kerfi við staðsetningu t.d. verkfæra eða annarra hluta og sé um slíkt að ræða eru til margs konar aðferðir sem má nota til þess að auðvelda sér verkið. Hér má t.d. nefna að vera með slönguhjól undir slöngur, teikna upp verkfæri í verkfærageymslu svo sláandi verði að verkfæri er ekki á sínum stað o.s.frv.
 
Skrúbba:
Með þessu á ég ekki við að allt eigi endilega að vera þvegið í bak og fyrir en með því að setja sér niðurskrifaðar vinnureglur um það sem þarf og ætti að þrífa daglega eða oftar, s.s. mjaltatæki, arm mjaltaþjóns, drykkjarker eða hvað annað sem maður vill að sé þrifið oft, eru líkurnar meiri á því að það sé gert. Um leið hefur reynslan sýnt að með þessu má ná því að vera með fyrirbyggjandi viðhald, þar sem dagleg þrif hluta sem eru undir miklu álagi, leiða oft í ljós forstigsbilanir.
 
Staðla:
Með því að taka ákvörðun um það hvernig hlutirnir eiga að vera unnir og/eða frágengnir, stóraukast líkurnar á því að þannig verði gengið frá á hverjum degi. Hér hafa margir brugðið á það ráð að t.d. eftir að búið er að ganga vel frá vinnusvæði, s.s. þar sem rúllur eru skornar og gengið frá plasti, að taka mynd af svæðinu og hengja svo upp. Þá geta allir, líka bóndinn sjálfur, séð hvernig hann/hún vill hafa hlutina og þar með aukast líkurnar á því að hlutirnir rati aftur í sama farveg og óskastaðan er.
 
Sjálfsagi:
Ekkert af framansögðu gengur auðvitað upp ef maður er ekki fylginn sér og beitir sig aga. Það eru þó til alls konar aðferðir sem má beita á sjálfan sig til þess að ná sjálfsaganum. Þannig má t.d. útbúa lítið krossapróf sem hægt er að renna yfir einu sinni í viku þar sem maður getur velt fyrir sér hvort allt hafi gengið upp í vikunni sem leið, alla daga hafi tekist að ganga rétt frá hlutum og hvort einhvers staðar megi hagræða enn frekar svo vinnudagurinn styttist og meiri frítími skapist eða meiri tími fáist í önnur verk. Þá eru meira eða minna allar tölvur og símar í dag með dagbókarmöguleika þar sem hægt er að setja inn minnismiða sem halda manni við efnið.

3 myndir:

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...