Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á Norður- og Norðausturlandi í síðustu viku sem nú vinnur að mati á heildarumfangi tjóns hjá bændum.
Áhrifin leggjast misjafnlega þungt á búgreinar, en ljóst er að slæmar afleiðingar sauðfjárbænda koma ekki að fullu fram fyrr en í haust. Beint tjón varð þó víða, til að mynda hjá þeim sauðfjárbændum sem ekki náðu að taka allt fé á hús, auk þess sem vitað er til þess að folöld hafi orðið úti í einhverjum tilvikum.
Í haust munu afleiðingarnar svo fyllilega koma í ljós hjá sauðfjárbændum varðandi vænleika lamba, fjölda sláturlamba og mögulega þörf á endurnýjun á bústofni ef ær hafa gengið of nærri sér í kuldatíðinni.
Björn Ólafsson, bóndi á Krithóli og formaður Félags sauðfjárbænda í Skagafirði, segir að óveðrið hafi gengið yfir stórt svæði á Norður- og Norðausturlandi og telur að það hafi bitnað á um 1.500 bændum, en komið misjafnlega niður á þeim eftir sveitum.
Hann segir að þó það sé gott að geta komið sauðfénu inn í hús þegar slíkt óveður skellur á, geti það haft slæm áhrif til lengri tíma litið. Reikna megi með kílói minni fallþunga í haust að meðaltali, vegna áhrifanna á mjólkurlagni ánna af því að þurfa að taka þær af beitinni á þessum viðkvæma tíma lambanna.
Heildaráhrif vegna ótíðarinnar almennt eru þó mestmegnis þau að öllum vorverkum seinkar. Hjá grænmetis- og kartöflu- bændum var klaki í jörð víða vandamál lengi vel og því lán í óláni að margir voru ekki búnir með niðursetningu, útplöntun eða sáningu, þegar óveðrið skall á. Uppskeru mun seinka og líkur á minna uppskerumagni en vanalega.
Herdís Magna Gunnarsdóttur, nautgripabóndi á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði og vara- formaður Bændasamtaka Íslands, segir stöðuna hjá nautgripabændum vera hvað versta á þeim svæðum þar sem tún komu mikið kalin undan vetri og ekki sé á bætandi fyrir þá bændur að komast ekki út í akrana fyrir bleytu og snjó til að geta hafið uppræktun. Mjólkurkýrnar fari víða seinna út en vant er en það hafi lítil áhrif á þær þar sem þær uni sér vel inni í nútímafjósum. Veðrið hafi gert holdabændum erfitt fyrir víða þar sem kýr voru farnar að bera úti en að tjónið hafi ekki enn verið metið.
Laufey Leifsdóttir, bóndi á Stóru-Gröf í Skagafirði og formaður Félags skógarbænda á Norðurlandi, segir illviðrið hafa haft heilmikil áhrif á trjágróður á Norðurlandi. Sjá megi vindslit á lauftrjám, öspin sé kalin en mikill munur þó eftir klónum. Barr á lerki hefur gulnað þar sem frysti og sums staðar séu áberandi skemmdir.
– Sjá nánar á síðu 2. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag