Borgar sig ekki að nýta uppskeruna
Flest bendir til að styrkir til maís- og sojaræktenda í Bandaríkjunum verði þeir mestu í áratug á þessu ári. Heimsmarkaðsverð á maís og soja hefur hrunið vegna offramboðs.
Miklar birgðir og mikil uppskera á korni og soja hafa valdið því að verð fyrir afurðirnar hefur fallið gríðarlega og er nú svo komið að það borgar sig ekki fyrir bændur að sækja uppskeruna á akurinn.
Samkvæmt því sem segir í yfirlýsingu frá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna er reiknað með að styrkir til maís- og sojabænda verði þeir mestu á þessu ári í einn og hálfan áratug. Gangi spáin eftir verða um 25% af tekjum bænda í formi styrkja. Tekjur bænda af ræktun í dag eru um helmingur af því sem þær voru fyrir þremur árum og í mörgum tilfellum svarar ekki lengur kostnaði að sá maís eða soja.