Börn úr sveit fá síður ofnæmi og astma
Höfundur: ehg - Bondebladet
Stór alþjóðleg rannsókn staðfestir að fólk sem elst upp úti á landi og þá sérstaklega í sveit fær vörn úr umhverfinu gegn óþægindum í öndunarvegi og ofnæmissjúkdómum.
Rannsakendur frá Evrópu og Ástralíu hafa rannsakað astma- og ofnæmistilvik hjá rúmlega 10 þúsund fullorðnum einstaklingum á aldrinum 26–54 ára í 14 löndum. Mikilvægur liður í rannsókninni var að kanna hvar fólkið bjó fyrstu fimm æviár sín, hvort það bjó úti á landi, í litlu þorpi, í stórborg eða í sveit. Í ljós kom að í flokknum þar sem fólk hafði alist upp á sveitabæ höfðu mun færri fengið ofnæmi eða astma. Fólk í flokknum var í helmingi minni áhættu á að fá háan hita og var síður með viðkvæman öndunarveg í samanburði við þá sem alist höfðu upp í stórborg. Rannsakendurnir mældu einnig lungnavirkni þátttakenda sem sýndi að konur sem höfðu alist upp á bóndabæ höfðu betri virkni lungna en konur sem höfðu alist upp í stórborg. Hjá karlmönnunum mældist þó enginn munur á lungnavirkni eftir því hvar þeir ólust upp og vakti það einnig athygli rannsakendanna.