Bótakrafa frá blóðmerabændum
Bændasamtökin hafa sent matvælaráðuneytinu formlega athugasemd við þá ákvörðun að fella blóðmerahald undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.
Þetta sé skerðing á atvinnufrelsi sem njóti verndar stjórnarskrár. Þar með hefur reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum frá 2022 verið felld niður en upphaflega átti hún að gilda til 2025. Óttast er að breytingin hafi í för með sér íþyngjandi og ósanngjarnar afleiðingar fyrir þá sem greinina stunda. Í erindinu segir að blóðmerahald hafi verið stundað í hartnær hálfa öld og sé rakið til rannsókna á fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldar. Því sé auðvelt að rökstyðja að atvinnugreinin eigi ekki heima í reglugerð um vísindarannsóknir á dýrum.
Í einum kafla reglugerðarinnar eru listuð upp þau dýr sem má nota í vísindarannsóknir. Mjög ströng skilyrði eru við notkun dýra af tegundum í útrýmingarhættu, apaköttum og dýrum sem tekin eru úr náttúrunni. Heimilt er að nota dýr sem eru ræktuð til að nota í tilraunum og er í reglugerðinni taldar upp tegundirnar húsamús, brúnrotta, naggrís, gullhamstur, kínahamstur, mongólsk stökkmús, kanína, taminn hundur, húsköttur, froskur, sebradanni og apakettir.
Í erindi Bændasamtakanna segir að þetta sé tæmandi upptalning og að blóðtökuhryssur falli ekki undir þessar skilgreiningar. Matvælastofnun geti þó veitt undanþágu frá þessari upptalningu á grundvelli vísindalegra raka og sé þess væntanlega þörf til að blóðtökubændur geti stundað sína starfsemi á grundvelli reglugerðarinnar.
Tilgangur reglugerðarinnar er að stuðla að takmörkun á notkun dýra í vísinda- og menntunarskyni. Bændasamtökin benda á að það standist ekki skilyrði um meðalhóf að fella blóðmerahald undir þessa reglugerð þar sem það muni takmarka fjölda hryssa í blóðtökustarfsemi og þá atvinnufrelsi bænda. Þá sé tekið fram í stjórnarskránni að ef leggja skuli bönd á atvinnufrelsi þurfi að setja um það lög á Alþingi á meðan reglugerðarákvæði nægi ekki ein og sér.