Dýrbítar valda fjárskaða á Mosfellsheiði
Höfundur: smh
Við fjársmölun á Mosfellsheiði fyrir skemmstu voru dýrbítar staðnir þar að verki. Um fimmtíu manna leitarhópur var þá vitni að því þegar þrír hundar frá bæ í Mosfellsdalnum, réðust að einu lambinu.
Bjarni Bjarnason, bóndi á Hraðastöðum í Mosfellsdal, telur líklegt að sömu hundar hafi einnig verið þar að verki síðastliðin þrjú ár. „Við höfum haft þessa þrjá hunda grunaða og nú urðum við vitni að þessu. Þetta hefur ekki verið jafnslæmt og nú. Við höfum áður lent í smátjónum og ófriði, en ekkert líkt þessu,“ segir Bjarni og bætir við að tjónið nái einnig til bæja í nálægum sveitarfélögum þar sem samgangur fjár á Mosfellsheiði sé mikill. „Fé frá mörgum bæjum hefur verið bitið. Við náðum tveimur af þessum þremur hundum og það er búið að lóga þeim. Það er ýmist að hundarnir hafi sært féð eða hreinlega étið að hluta.“