Efst á blaði að ljúka Dettifossvegi
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Dettifossvegur fékk mest fylgi á fundi sveitarstjórnarmanna norðan heiða um samgönguáætlun ríkisins sem haldinn var nýverið á Akureyri. Á fundinum lögðu sveitarfélögin fram sínar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu í samgöngum í kjördæminu og var Dettifossvegur þar efstur á blaði.
Fram kemur í nýlegum pistli Þorsteins Gunnarssonar, sveitarstjóra í Skútustaðahreppi, að heimamenn þar hafi lagt áherslu á gerð göngu- og hjólreiðastígs umhverfis Mývatn, að lokið verði við að leggja bundið slitlag á Kísilveg, að vegur frá þjóðvegi 1 að Hverfjalli verði lagfærður og að vetrarþjónusta verði stórbætt.
Leggja til tilfærslu á þjóðvegi 1
Þá lögðu Mývetningar áherslu á að þjóðvegur 1 verði færður af bökkum Mývatns og lagður sunnan Skútustaða og komi þaðan nálægt núverandi legu við Garð, fari þaðan beina leið austur á milli Lútents og Hvannfells og síðan austur yfir Búrfellshraun og tengist núverandi vegi við Skeiðflöt. Með þessu móti styttist leiðin milli Akureyrar og Egilsstaða og einn fjallvegur, Námaskarð, verði aflagður, þá verði ekki heldur lengur ekið með alls konar vafasaman flutning á bökkum/vatnasviði Mývatns, eins og bensín og olíur.