Eftirmál riðuveiki
Sauðfjárbændurnir á Urriðaá og Bergsstöðum í Miðfirði standa saman í erfiðum samningaviðræðum við fulltrúa matvælaráðuneytisins um bótagreiðslur vegna niðurskurðar sem fyrirskipaður var á um 1.400 fjár á bæjunum tveimur í byrjun apríl eftir að riðuveiki var staðfest í þeirra hjörðum. Bæði bú voru meðal þeirra fremstu í íslenskri sauðfjárrækt þar sem mikil alúð var lögð í ræktunina. Á blaðsíðum 32–37 er fjallað um eftirmál riðuveiki á bæjum í Miðfirði og Skagafirði og rætt við bændur. Eru þeir sammála um að reglugerð sem ákvarðar bótagreiðslur sé í raun starfslokasamningur við bændur, enda geri hún ekki ráð fyrir að tjón sé að fullu bætt. Vilji bændur byrja upp á nýtt, með sambærilegan fjárstofn, þurfi þeir sjálfir að leggja til umtalsvert fjármagn. Auk þess séu afurðatjónsbætur langt undir meðalafurðum í dag. Frá vinstri eru þau Dagbjört Diljá Einþórsdóttir og Ólafur Rúnar Ólafsson á Urriðaá, Ari G. Guðmundsson og Elín Anna Skúladóttir á Bergsstöðum.
Sjá nánar á bls. 32–37. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins