Einsskiptisaðgerð sem ætlað er að bregðast við vanda sauðfjárframleiðenda
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra segir fjárveitinguna í aukafjárlögum til að mæta markaðserfiðleikum sauðfjárframleiðenda einskiptisaðgerð og ekki standi til að veita meira fé til aðgerða til að mæta vanda greinarinnar.
Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sagði í samtali við Bændablaðið að fjárveitingin í aukafjárlögum til að mæta vanda sauðfjárframleiðenda sé hugsuð sem eins tíma aðgerð og ekki standi til að leggja meira fé til greinarinnar vegna þess.
„Aftur á móti verður að endurskoða búvörusamningana og fara vel yfir stöðu og framtíð greinarinnar þar.“
Unnið að endurreisn greinarinnar
Í fjáraukalögum var samþykkt á Alþingi að verja 665 milljónum króna til að bregðast við markaðserfiðleikum sem steðjað hafa að sauðfjárframleiðslu á yfirstandandi ári samanber áform ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast í stjórnarsáttmálanum.
Fjárhæðinni verður varið til þess að mæta afkomuhruni og vinna að endurreisn afkomu greinarinnar. Forystumenn bænda lýsa yfir ánægju með að búið sé að afgreiða fjáraukalögin og vona að sauðfjárbændur verði sáttir við þá niðurstöðu sem liggur fyrir.
Bændur ánægðir með að málið sé loksins í höfn
Í frétt á vef Bændablaðsins, bbl.is, milli jóla og nýárs sagðist Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, meðal annars vera ánægður að búið sé að afgreiða fjáraukalög. –„Við hjá Bændasamtökunum lýsum ánægju yfir því að þetta mál sé loksins í höfn. Það að verja 550 milljónum króna í stuðning beint til bænda og 115 milljónum að auki til að styrkja undirstöður greinarinnar er viðurkenning á alvarlegri stöðu hennar. Það ber að þakka fyrir slíkar aðgerðir.“
Af sama tilefni sagði Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, að breytingarnar sem gerðar voru á tillögum ríkisstjórnarinnar vegna rekstrarvanda sauðfjárræktarinnar væru til bóta.
„Aðdragandi úthlutunarinnar er ekki langur enda stutt síðan ríkisstjórnin tók til starfa. Eflaust eru einhverjir sem líta svo á að ganga hefði mátt lengra í breytingu en ég vona að menn sætti sig við þessa lendingu.“