Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyrir ferðir sínar um 30 milljónir króna. Þessi upphæð dugar fyrir rekstrarkostnaði ganganna. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir þetta jákvætt fyrir reksturinn og sýni hversu mikilvægt það sé að fá erlenda ferðamenn til að ferðast um Ísland.
Tekjur frá erlendum ferðamönnum hafa numið tæplega 6% að undanförnu og segir Valgeir að uppsafnað frá áramótum hafi Bandaríkjamenn notað göngin mest þegar horft er til erlendra ferðamanna. Fyrir hafi komið ein og ein vika þar sem Bretar og Þjóðverjar hafi skotið sér á toppinn í þeim efnum.
Bandaríkjamenn hafa greitt um 16,3 milljónir króna fyrir ferðir sínar um Vaðlaheiðargöng, Þjóðverjar koma næstir í röðinni og hafa greitt rúmlega 6,8 milljónir, þá koma Bretar með 3,2 milljónir. Ítalir hafa greitt um 2 milljónir og Frakkar tæplega 1,8 milljónir.
Valgeir segir að líkur séu á að mun fleiri erlendir ferðamenn nýti sér að aka um Vaðlaheiðargöng heldur en þeir sem muna sjálfir eftir að greiða veggjaldið. Sé ekki greitt fyrir ferðina er rukkun send til bílaleigunnar sem síðan rukka leigjandann og bæta við þá rukkun innheimtuþóknun.
Ódýrast að borga beint
„Því er ódýrast fyrir erlenda ferðamenn að borga sjálfir og því höfum við einfaldað greiðslusíðu sérstaklega fyrir þann hóp, hún heitir tunnel.is,“ segir Valgeir. Nokkuð er síðan greiðslukerfi var breytti í þá veru að greiðslutímabil er 24 klukkustundir áður eða eftir að ekið er í gegnum göngin, en ekki 3 klukkustundir eins og var í byrjun.