Félagið bauð bæjarbúum í sólarkaffi á 100 ára afmælinu
Þann 23. febrúar 2020 hélt kvenfélagið Ársól á Suðureyri upp á 100 ára afmælið sitt með því að bjóða bæjarbúum í Sólarkaffi í félagsheimilinu á staðnum, en félagið átti afmæli þann 8. febrúar.
Sólarkaffið hefur verið fjáröflunarleið fyrir Ársól frá árinu 1957 þegar fyrsta Sólarkaffið var til að styrkja félagsheimilið, en í dag er verið að gefa ágóðann af kaffinu til æskunnar og má þar nefna leikskólann, grunnskólann, félagsmiðstöðina og sundlaugina.
Uppi á veggjum félagsheimilisins voru klausur úr gömlum fundarbókum og listi yfir þá formenn sem félagið hefur haft sem eru ekki nema tuttugu og einn með núverandi formanni. Stjórn félagsins í dag eru Guðrún Oddný Schmidt formaður, Tara Óðinsdóttir gjaldkeri, Sædís Ólöf Þórsdóttir ritari, Aldís Jóna Haraldsdóttir og Svala Sigríður Jónsdóttir meðstjórnendur.
Í afmælinu voru tvær konur heiðraðar fyrir vel unnin störf, þær Guðný Guðnadóttir (lengst til vinstri á myndinni) og Guðrún Fanný Björnsdóttir. Með þeim á myndinni er Guðrún Oddný Schmidt, formaður félagsins.
Tvær konur heiðraðar
Í afmælinu voru tvær konur heiðraðar fyrir vel unnin störf, þær Guðný Guðnadóttir, sem starfað hefur með félaginu í sextíu og fjögur ár, og Guðrún Fanný Björnsdóttir, sem starfað hefur með félaginu í fimmtíu og níu ár. Einnig stendur til að heiðra Guðrúnu Guðjónsdóttur en hún hefur starfað með félaginu í sjötíu og fjögur ár.
Bæjarbúar kunnu vel að meta boð kvenfélagsins og fjölmenntu í afmælið þar sem leik- og grunnskólabörn komu upp á svið og sungu fyrir boðsgesti. Guðni Einarsson færði kvenfélaginu gjöf frá Klofningi, einnig mætti Þórdís Sif Sigurðardóttir fyrir hönd Ísafjarðarbæjar með blómvönd og fallega kveðju frá bæjaryfirvöldum.
Kvenfélagið Ársól var stofnað 1920
Það var árið 1920 að konur í Súgandafirði ákváðu að stofna kvenfélag. Þær vildu taka þátt í að láta gott af sér leiða og töldu að meira gagn yrði unnið með félagslegum samtökum en einstaklingsstarfi.
Undirbúningsstofnfundur kvenfélags í Súgandafirði var haldinn 4. janúar 1920. Mættar voru 37 konur. Þóra Jónsdóttir setti fundinn og var hún kosin fundarstjóri.
Þóra skýrði frá því að hugmyndin með stofnun kvenfélags væri sú að konurnar reyndu hér eins og víða annars staðar að sameina krafta sína til ýmissa framkvæmda, margt væri til, ýmsar framfarir, hjálparstarfssemi og fleira. Markmið félagsins yrði því meðal annars það að efla félagsskap, samvinnu kvenna og hjálpa bágstöddum.
Á þessum fundi gerðist 41 kona stofnendur. Fimm konur voru kosnar í nefnd til að semja lög fyrir félagið og koma með á næsta fund sem yrði fyrsti aðalfundur félagsins.
Fyrsti aðalfundur félagsins og jafnframt stofnfundur var haldinn 8. febrúar 1920.
Leikskólabörn sungu fyrir gesti.
Ritið Sóley verður 95 ára á árinu
Þann 5. apríl 1925 var gefið út rit Kvenfélagsins Ársólar og hlaut það nafnið Sóley. Verður það 95 ára nú í ár. Bækurnar eru orðnar sex talsins og eru þær komnar til varðveislu á Safnahúsinu og er nú verið að skrifa í þá sjöundu.
Kvenfélagið Ársól á sér mikla sögu sem finna má bæði í fundagerðabókum og í ritinu Sóleyju sem kvenfélagskonur passa vel upp á að varðveita.
Af tilefni afmælisins samdi Sara Hrund Signýjardóttir lag og texta fyrir kvenfélagið sem sungið var í fyrsta skiptið í afmælinu við góðar undirtektir afmælisgesta, lagið heitir Ársól eftir félaginu og hér er að finna textann við lagið.
Ársól
Í myrkrinu veturinn hamast ótt
Sólin hverfur bakvið fjöllin
Í náttúrunnar fegurð er tignarleg nótt
Til jarðar svífur hvít mjöllin
Á hátindi vetrar við finnum þann styrk
Sem eingangrun okkur veitir
Finnum gleði og hlýju þegar sólin er myrk
Í félagsskap er Ársól heitir
Viðlag
Við rísum eins og sólin í fjarðarins mynni
Okkar samvinnu treystum og ræktum
Í Súgandafirði við eigum vor kynni
Þar Ársól á framtíð, sögu og sinni
Er veturinn hörfar kemur birtan í hjarta
Sólin bræðir kalda grund
Logar vonarljós um framtíð bjarta
Þá lifnar yfir þorpinu og léttist vor lund
Á hátindi vetrar við finnum þann styrk
Sem eingangrun okkur veitir
Finnum gleði og hlýju þegar sólin er myrk
Í félagsskap er Ársól heitir
Viðlag
Við rísum eins og sólin í fjarðarins mynni
Okkar samvinnu treystum og ræktum
Í Súgandafirði við eigum vor kynni
Þar Ársól á framtíð, sögu og sinni
Við rísum eins og sólin í fjarðarins mynni
Okkar samvinnu treystum og ræktum
Í Súgandafirði við eigum vor kynni
Þar Ársól á framtíð, sögu og sinni.