Ferðamenn sækja í skóga
Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðingar Vina íslenskrar náttúru (VÍN), um að skógrækt muni draga úr komum ferðamanna til landsins.
Í tilkynningu frá félaginu segir að skógarbændur finni fyrir aukinni ásókn bæði innlendra og erlendra ferðamanna í skóga sína.
„Ferðaþjónusta er víða að byggjast upp í og við íslenska skóga og styrkir þannig móttöku ferðamanna í landinu.
Skógarbændur hafna því fullyrðingum VÍN að aukin skógrækt muni draga úr komum ferðamanna til landsins, ásamt mörgum öðrum framkomnum fullyrðingum fyrrnefndra samtaka sem virðast settar fram til að koma í veg fyrir frekari uppbyggingu skógarauðlindar í landinu,“ segir í tilkynningu.